Stundum mætti halda að það eina sem ekki hefur afleiðingar í íslenskum stjórnmálum sé vanhæfni. Í stuttu máli má segja að það að taka ákvörðun sem kostar skattgreiðendur 100 milljarða hafi minni afleiðingar en að skila inn röngum reikningi upp á 10 þúsund krónur. Þetta kemur upp í hugann þegar ný bók eftir fyrrverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, er lesin en hún fjallar að stærstum hluta um ákvarðanir hans í Icesave-málinu á árunum 2009 og 2010. Þeir sem fjalla um bók Ólafs Ragnars til þessa hafa fyrst og fremst fjallað um form bókarinnar og tilgang hans með skrifunum en síður um einstök atriði hennar. Þó verður að segjast eins og er að í bókinni koma fram mjög áhugaverðar lýsingar, jafnvel svo að þær verði að teljast fréttnæmar.
Það má vissulega undrast hversu rækilega Ólafur Ragnar blandar sér í hina daglegu stjórnmálabaráttu og það er mest áberandi þegar hann fjallar um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hér starfaði frá 2009 til 2013. Ólafur Ragnar lítur nánast á sig sem pólitíska ljósmóður stjórnarinnar og telur að leiðbeiningaskylda sín gagnvart stjórninni, einstökum ráðherrum og jafnvel almennum stuðningsmönnum sé öðru mikilvægari. Fyrir vikið er hann á daglegu spjalli við stóran hóp vinstri manna, sem sumir voru samherjar hans í klofningsátökum fortíðarinnar innan vinstrihreyfingarinnar eða hreinlega gamlir andstæðingar hans úr þeim átökum eins og vikið var að hér fyrir stuttu.
Forsetinn vantreystir gömlum félögum
Þegar bók Ólafs Ragnars, Þjóðin og valdið, er lesin blasir við hve rækilega hann vantreystir sínum fyrri félögum þegar kemur að þeim vandasömu verkum sem biðu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta verður mest áberandi í Icesave-málinu þar sem hann tekur fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar og knýr málið í hendur þjóðarinnar eins og rækilega var fjallað um í bók minni Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar?
Ólafur Ragnar staðfestir ýmislegt af því sem fjallað var um í bók minni en þó helst hve hörmulega var staðið að samningsgerðinni og ekki síður meðhöndlun ríkisstjórnarinnar á málinu. Af dagbókarfærslum Ólafs Ragnars má lesa að hann efast mjög mikið um hæfi þeirra Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar sem leiddu samningsgerðina. Einnig telur Ólafur Ragnar að Jóhanna og Steingrímur J. hafi brugðist ýmsum skyldum sínum þegar kom að því að kynna málið fyrir þjóðinni og hann segist hreinlega á einum stað efast um að Jóhanna hafi yfir höfuð lesið samninginn. Ólafur Ragnar telur að hvorki Jóhanna né Steingrímur hafi getað skilið samninginn né málið í heild. Þá er ótalið það fullkomna vanhæfi sem þau sýndu bæði þegar kom að því að kynna og berjast fyrir hagsmunum Íslendinga erlendis.
Hugsanlega er þó alvarlegust uppljóstrun Ólafs Ragnars á því að Indriði H. Þorláksson var kominn í eigin samningaviðræður við viðsemjendur Íslands þó að hann hefði engar heimildir til slíks. Menn hljóta að spyrja sig hvort að Indriði hafi ekki farið þar langt út fyrir umboð sitt, jafnvel svo að saknæmt væri. Skemmst er að minnast þess að í bók minni kom fram að menn innan samninganefndarinnar óttuðust að hafa framið landráð með samningunum.
Segja má að vantrú á hæfi og getu leiðtoga ríkisstjórnarinnar sé rauði þráðurinn í gegnum bók Ólafs Ragnars. Við getum gripið niður í nokkur dæmi.
Efasemdir um getu samninganefndarinnar
„Svo kom Icesave. JS [Jóhanna Sigurðardóttir] sagði að málið væri afar erfitt. Því miður reyndist samningurinn ekki vera eins góður og SvG hefði gefið þeim til kynna þegar hann var gerður, m.a. væri endurskoðunarákvæðið mun verra en SvG [Svavar Getsson] hefði sagt. Því þyrfti að setja fyrirvara en þó ekki þannig að Bretland og Holland færu í baklás“. (bls.152)
„Ég sagði JS að ég hefði frá upphafi haft efasemdir um SvG sem samningamann. Ég hefði fylgst með samningum hans í 30 ár. Það kæmi alltaf sálrænn tímapunktur þegar hann biti í sig „að semja“ eða hætta. Það hefði gerst núna, sbr. ummæli hans í Mbl. Einnig væri Indriði Þorláksson ekki góður í samningum. Það hefði verið reynsla mín í fjármálaráðuneytinu. Yrði að horfast í augu við að þeir hefðu ekki skilað nógu góðu verki og ekki væri meirihluti fyrir samningnum.“ (bls. 152 og 153).
Og ennfremur: „Ég sagði JS að ég hefði frá upphafi haft efasemdir um SvG sem samningamann. Ég hefði fylgst með samningum hans í 30 ár. Það kæmi alltaf sálrænn tímapunktur þegar hann biti í sig „að semja“ eða hætta. Það hefði gerst núna, sbr. ummæli hans í Mbl. Einnig væri Indriði Þorláksson ekki góður í samningum. Það hefði verið reynsla mín í fjármálaráðuneytinu. Yrði að horfast í augu við að þeir hefðu ekki skilað nógu góðu verki og ekki væri meirihluti fyrir samningnum.“ (bls. 152 og 153). Í bókinni Minn tími. Saga Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom út jólin 2017 var fjallað um Icesave-málið þó að það væri heldur yfirborðslegt. Þar viðurkennir Jóhanna að ríkisstjórn hennar hafi gert ýmis mistök við vinnu að lausn á málinu. Mesta athygli hlýtur að vekja að hún segir í bókinni að á sig hafi komið hik þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að ráða Svavar Gestsson til að stýra samningaviðræðum vegna Icesave fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Um það segir Jóhanna:
„Eftir á að hyggja þá viðurkenni ég hins vegar að betur hefði farið á að við hefðum strax fengið hlutlausan erlendan sérfræðing að málinu eins og Lee Buchheit“. (bls. 290).
Lék Indriði „tveimur skjöldum“?
En Ólafur Ragnar er mjög gagnrýninn á framferði Indriða H. Þorlákssonar sem var helsti aðstoðarmaður Svavars við samningagerðina og hefur verið iðinn eftir á að réttlæta verkið. „Vandinn væri að SJS vildi vera með Indriða þótt hann væri nú pólitískur aðstoðarmaður hans, ekki embættismaður. Svo er Indriði þverhaus og merkikerti, dómgreindarlítill. Það fann ég þegar ég var með hann í fjármálaráðuneytinu“. (bls.160).
„Ég sagði ÖS [Össur Skarphéðinsson] frá þessu í gærkvöldi og hann var ánægður með það. Var reiður út í Indriða Þorláksson sem væri í sérsambandi við Hollendinga, tæki undir þeirra línu og hefði allt of mikil áhrif á SJS; SJS er í vasanum á IHÞ,“ sagði Össur. (bls. 162).
„Ég benti á að SvG og SJS hefðu ekki skilað málinu vel frá sér. Ég hafði eins og Össur ætíð haft efasemdir um SvG sem samningamann, sbr. reynslu mína af honum 1978-1996! Svo hefði Indriði verið til bölvunar og samþykkti JS það; sagði að IHÞ hefði „leikið tveimur skjöldum“, þ.e. hann hefði verið í sérsamningum við Bretland og Holland (ÖS telur það líka). Það sýnir dómgreindarleysi SJS að velja menn eins og SvG og IHÞ í svona verkefni. Ég nefndi það að ég hefði hent IHÞ út úr ráðherraskrifstofunni þegar ég var fjármálaráðherra. Hann væri þverhaus og merkikerti sem tæki sér vald sem hann risi ekki undir.“ (bls.165).
Það er ekki víst að Benedikt Jónsson sendiherra sé ánægður með að þessi samskipti séu gerð opinber en þau eru sannarlega forvitnileg. Dagbókin segir: „Við stoppuðum eina og hálfa klukkustund í London. Benedikt Jónsson sendiherra hitti okkur þar. Var fróðlegt að ræða við hann; sagðist hafa feitletrað setninguna í yfirlýsingu minni um að Ísland ætti að standa við skuldbindingar þegar hann sendi hana til Downing Street 10! Taldi að nú ættu menn að taka því rólega. Breskir embættismenn væru til í allt, nema þeir vildu ekki lose face, líta út eins og taparar! Var mjög gagnrýnin á framgöngu SvG og IHÞ. Sagði að IÞH hefði sagt við Bretana snemma á ferlinum: Never mind the Parlament! Engin furða að illa færi þegar svona var haldið á spilum Íslands. Við ræddum um vanhæfi SvG og IÞH, hvorugur þeirra væri góður enskumaður né hefði reynslu af svona samningum. Merkilegt að heyra þennan tón í Benedikt og finna að hann var alveg rólegur.“ (bls. 206).
Már og messan
Sem gefur að skilja skipti Seðlabankinn miklu máli í samningaviðræðunum, sérstaklega sem einhvers konar hlutlaus umsagnaraðili. Það er því forvitnilegt að lesa hjá Ólafi Ragnari að fyrsta samtal hans gamla samherja, Más Guðmundssonar, til forsetans eftir að Már varð seðlabankastjóri var einmitt um Icesave. Dagbókin segir: „Síðdegis á gamlársdag, kl. 16:45 hringdi Már G. rétt áður en ég fór í kirkju hér á B til að segja mér að ég yrði að taka ákvörðun, þ.e. skrifa undir „áður en markaðir opnuðu á mánudag“. Ég yrði að lesa nýtt álit Standard & Poor’s þar sem reiknað væri með staðfestingu á Icesave. Ef ég skrifaði ekki undir færi Ísland „í ruslflokk sem hefði margvíslegar afleiðingar“. Ég sagði Má að ég væri að fara í messu. Varðandi Standard & Poor’s þá hefði ég lesið lof þeirra um frábæra stöðu íslensku bankanna um mitt ár 2008! Már ítrekaði þetta í stuttu kommenti á nýársdag þegar hann kom í móttökuna og í símtali við ÖT í gær. Ég lét ÖT spyrja hann hvað hann ætti við um viðbrögð markaða en engin skýr svör komu frá Má um það! Þetta var svona pressa af hans hálfu. Í fyrsta sinn sem hann hringdi síðan hann varð seðlabankastjóri“. (bls. 195).
„Fór svo í bæinn og horfði einn á fyrstu tölur. Þær voru ótrúlega sláandi, afgerandi, og þátttakan! Allt fyllti þetta mig gleði. JS og SJS voru hins vegar í sjokki í beinni útsendingu frá Ráðhúsinu. Ég hef aldrei séð SJS svona sleginn. Það var eins og hann hefði verið rotaður. Talaði hálfgert rugl, var hissa á hvað margir sögðu já! Hann hafði spurt íslenska miðla hvort þeir vissu um einhvern sem vildi vera fjármálaráðherra! Þau voru ekki foringjaleg JS og SJS. Stjórnarandstaðan brást heldur ekki við af miklu viti.“ (bls. 235).
Erfitt er að segja hvað Ólafur Ragnar hyggst ná fram með bókinni en hann hefur vísað til þess að þjóðin eigi rétt á að vita það sem þarna kemur fram og var oft bundið trúnaði. Sé svo, þarf vissulega að skoða og rannsaka hverju er þarna verið að lýsa.