Árið 2022 hækkaði norska ríkisstjórnin auðlegðarskatt upp í 1,1% og birti um leið áætlanir um að hann myndi skila sem svaraði 146 milljónum dollara í viðbótarskatttekjur. Reyndin var sú að einstaklingar sem áttu eignir upp á nettóvirði um 54 milljarða dala tóku sig upp og fluttu fóru úr landi. Það leiddi til 594 milljóna tapaðra skatttekna. Raunlækkun nam því 448 milljónum dala.
Stjórnarskipti urðu í Noregi haustið 2021, þegar hægristjórn Ernu Solberg vék fyrir vinstristjórn Jonas Gahr Støre sem hafði þá verið leiðtogi norska Verkamannaflokksins frá árinu 2014. Hann myndaði stjórn Verkamannaflokksins og Miðflokksins og þegar stjórnin tók við völdunum kynntu leiðtogarnir, Jonas Gahr Støre og Trygve Slagsvold Vedum, nokkrar skattahækkanir. Mikla athygli vakti þegar þeir sögðust meðal annars ætla að hækka kolefnisskattinn úr 590 norskum krónum í 2.000 á hvert tonn. Um leið sögðu þeir að leit eftir olíu og gasi yrði hætt á landgrunninu. Fjörutíu prósent útflutningstekna Noregs koma úr olíuiðnaðinum og við hann unnu 160 þúsund manns auk fjölda í afleiddum störfum. Það var ljóst að erfitt yrði að hreyfa við olíuiðnaðinum en stjórnin hefur reynt að sækja sér auknar tekjur með hækkun skatta. Það gengur ekki vel.
Fleiri og fleiri skattahækkanir
Ríkisstjórn Støre ákvað að hækka auðlegðarskattinn strax í fjárlögum fyrir árið 2022 með blöndu af hækkuðum skatthlutföllum og lækkunum á skattaafslætti. Þannig hækkaði norska vinstri stjórnin auðlegðarskattinn úr 0,85% í 1% af nettóeignum yfir 1,7 milljónum norskra króna og í 1,1% á hreinar eignir yfir 20 milljónum. Einnig var skattur á arðgreiðslur hækkaður. Í Noregi er skatturinn einnig lagður á uppreiknaðan hagnað af óseldum eignum, svo sem hlutabréfum. Þeir sem einkum kvarta yfir þessari skattlagningu eru eigendur fyrirtækja sem reikna sér hóflegar tekjur þótt markaðsvirði fyrirtækja þeirra sé hátt.
Þetta varð enn harðara með ýmsum aðgerðum í 2023 fjárlögum. Þá var arðsskattur (fjármagnstekjuskattur) hækkaður um 20% sem eykur áhrifin þar sem auðlegðarskatt þarf oft að fjármagna með því að taka út arð.
Þeir auðugu greiða atkvæði með fótunum
Þetta hafði strax alvarlegar en um leið fyrirsjáanlegar afleiðingar. Í kjölfar skattahækkananna fóru um 100 efnaðir fyrirtækjaeigendur frá Noregi og fluttu margir þeirra til Sviss. Þeirra á meðal eru athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke, skíðastjarnan Bjørn Dæhlie og Alfie Haaland, faðir knattspyrnumannsins Erlings Haalands. Kjell Inge Røkke er þriðji ríkasti maður Noregs og hann tilkynnti í opnu bréfi til hluthafa að hann væri að flytja til Lugano í Sviss strax árið 2022. „Fjármagn mitt verður áfram í Noregi,“ skrifaði viðskiptajöfurinn en hann hóf rekstur sinn með 69 feta togara sem hann keypti á meðan hann vann á skipum undan strönd Alaska. Brottför Røkke, sem viðskiptatímaritið Forbes áætlar að eigi 5,1 milljarða dollara auðæfi, mun kosta norska ríkið um 175.000.000 krónur árlega (um það bil 16 milljónir dollara). Þetta er auðvitað ekki afgerandi fyrir auðugt land eins og Noreg en Røkke er ekki eini auðugi frumkvöðullinn sem yfirgaf Noreg.
Talið er að meira en 30 norskir milljarðamæringar og margmilljónamæringar hafi farið frá Noregi árið 2022, samkvæmt rannsóknum dagblaðsins Dagens Næringsliv. Það var meira en heildarfjöldi ofurríkra manna sem yfirgáfu landið á síðustu 13 árum þar á undan.
Skammar þá sem fara
Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, er sjálfur vel auðugur maður en hann hefur gagnrýnt þennan landflótta og lagt áherslu á að skattar standi undir velferðarkerfi landsins. Hann lét sig hafa það að skamma þá sem farið hafa í þingræðu og sagði að það bryti gegn samfélagssáttmála að þeir sem hefðu auðgast í Noregi, sett börnin sín í norska skóla, notið góðs af heilbrigðiskerfinu og ekið á vegum landsins reyndu síðan að komast undan skattgreiðslum með þessum hætti.
Norska ríkisstjórnin hefur unnið að því að herða reglur um svonefndan „útgönguskatt“ sem fólk sem flytur úr landi þarf að greiða. Um er að ræða 37,84% skatt á hagnað sem myndast hefur í Noregi af hlutabréfum eða öðrum eignum á tilteknum tíma. Til þessa hefur verið unnt að komast hjá greiðslunum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eða fresta þeim. Markmiðið er að hagnaður sem myndast í Noregi sé skattlagður í Noregi, segja norsk skattayfirvöld.
Kosið verður á næsta ári í Noregi og ólíklegt að Jonas Gahr Støre verði áfram forsætisráðherra en vinsældir hans og ríkisstjórnar hans hafa dregist verulega saman.