Einhver mesta breyting sem hefur orðið á íslensku samfélagi síðustu tvo áratugi er annars vegar fjölgun fólks af erlendum uppruna hér á landi og síðan gríðarleg ásókn hælisleitenda inn í landið. Eðlilega hefur þetta komið róti á marga og haft áhrif á þjóðmálaumræðuna. Lengi vel voru þessi mál hálfgert tabú og margir sjálfskipaðir umræðustjórar landsins reyndu að fela tölfræði og upplýsingar á bak við menningarpólitíska umræðu sem bjó til skautun sem tengdist lítið eða ekkert sjálfu umræðuefninu.
Enn erum við að fást við hálfgerðan feluleik í umræðunni og þó að fjölmiðlar séu að fjalla um mál sem tengist þessum málaflokki virðast þeir annaðhvort missa af fréttapunktunum í eigin fréttum eða hundsa augljós merki um öfugþróun sem notendur þeirra eiga þó rétt á að vita um.
15 manna fylgdarher
Í gær var frétt á Vísi sem var ágætt dæmi um þetta. Þar var rætt við Marín Þórsdóttur, verkefnastjóra heimferðar- og fylgdadeildar ríkislögreglustjóra, deild sem margir höfðu kannski ekki miklar upplýsingar um. Deildin hét áður stoðdeild ríkislögreglustjóra en heitir nú heimferðar- og fylgdadeild. Alls eru um fimmtán manns í vinnu hjá þessari deild ríkislögreglustjóra sem sjá um þessar fylgdir. Það segir sig sjálft að þessu fylgir gríðarleg útgjöld og þau útgjöld eru ekki inni í tölum um kostnað af hælisleitendakerfinu.
Samhliða fjölgun meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur þeim fjölgað sem þarf að fylgja úr landi eftir að þau hafa fengið endanlega synjun um vernd. Í október voru hjá heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra um 230 opnar verkbeiðnir um fylgd úr landi. Þar af voru 58 konur, 103 karlmenn og 69 börn. Í frétt Vísis kemur fram að tölurnar breytast ört en fjöldi verkbeiðna hefur verið í kringum 200 í þó nokkurn tíma.
Í fréttinni er bent á að í september síðastliðnum hafi á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins verið fjallað um mikla fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd á milli ára. Þar kom til dæmis fram að á þessu ári hafi 1.165 einstaklingar farið frá landinu í annaðhvort sjálfviljugri brottför eða þvingaðri. Þetta er tölfræði sem almenningur áttar sig ekki á en allt þetta útheimtir gríðarlega vinnu hjá löggæsluyfirvöldum. Marín bendir á að ekki megi gleyma því að áður en mál þeirra sem hér sækja um hæli koma á borð lögreglu hafi allir umsækjendur farið í gegnum langt og strangt ferli hjá Útlendingastofnun.
Gríðarleg fjölgun erlendra brotamanna
Fjölda brotamanna sem er fylgt úr landi hefur á þessu tímabili fjölgað verulega. Árið 2019 var fimm brotamönnum fylgt úr landi og fjórum árið á eftir. Árið 2021 voru þeir 11 og svo 15 árið 2022. „Árið 2023 er svo stórt stökk þegar 57 brotamönnum er fylgt úr landi en það sem af er árinu 2024 hefur 40 brotamönnum verið fylgt úr landi,“ segir Malin í viðtalinu. Nú má spyrja: Hvað gerðu allir þessir brotamenn áður en þeim var fylgt úr landi? Jú, þeir brutu af sér sem staðfestir það sem vitað er að íslenskir dómstólar eyða stöðugt meiri tíma við að fást við erlenda brotamenn. Þegar málaskrár dómstólanna eru skoðaðar sést að útlensk nöfn eru þar í meirihluta en mikil viðkvæmni ríkir fyrir því að vinna slíka tölfræði. Upplýsingar þær sem Malin veitir gefa þó vísbendingar um umfangið.
Jafn og stöðugur straumur fylgdarlausra barna
Um líkt leyti og frétt Vísis birtist var Ríkisútvarpið með viðtal við Söndru Bjarnadóttur en hún er annar tveggja verkefnastjóra fylgdarlausra barna en báðir verkefnastjórarnir eru í fullu starfi í verkefninu. Þessi frétt sagði líka aðra sögu en fréttamaðurinn áttaði sig á. Í því sambandi má rifja upp að eitt sinn var sagt að í Afganistan væri því þannig háttað að elsti sonurinn ætti að sjá um foreldrana, sá næst elsti gengi til liðs við Talibana og sá yngsti freistar gæfunnar erlendis. Þannig væri áhættudreifing venjulegrar afganskrar fjölskyldu. Þó að þetta sé bara saga sem á sér engan höfund er vitað að svona háttar málum, ungmennum er beitt til að fjölskyldur nái fótfestu í nýju landi. Þau eru leyst úr haldi með fjármuni til að komast á leiðarenda. Við sáum það greinilega í Solaris-málinu að á öllum landamærum þarf að múta vörðunum. Í öðrum tilvikum þarf að semja við glæpahópa.
Í frétt RÚV kom fram að frá byrjun árs fram í miðjan ágúst komu alls 41 fylgdarlaust barn í barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar, aðallega drengir á aldrinum 15 til 18 ára sem sækja um alþjóðlega vernd. Fréttin ber með sér að hingað til lands komi jafn og stöðugur straumur ungra drengja sem hafa það ábyrgðarhlutverk að búa til fótfestu fyrir fjölskyldu sína í nýju landi. Þetta er ekki auðvelt ferðalag en eins og Sandra segir þá byrjar íslenska kerfið strax að styðja við þetta fyrirkomulag með því að hefja sína vinnu. „Mikið af börnunum hérna vilja svo fá foreldra og systkini sín til sín og við aðstoðum þá með það," segir Sandra. Svona er nú það.
Þessi dæmi sýna það álag sem víða er verið að búa til í kerfinu vegna hælisleitenda en kostnaður vegna þess kemur ekki fram í opinberum tölum.