Fyrir stuttu varð sá óvenjulegi atburður að saksóknarar í Svíþjóð ákærðu þrjá einstaklinga fyrir að skipuleggja hryðjuverk í landinu. Hryðjuverkin áttu meðal annars að beinast gegn gyðingum í Svíþjóð. Þremenningarnir eru einnig ákærðir fyrir að tengjast Ríki íslams, sem Svíar skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Fjórði maðurinn, sem er á sextugsaldri, var einnig ákærður fyrir aðild en allir eru þeir ákærðir fyrir vopnalagabrot. Mennirnir eru sagðir hafa tengst Ríki íslams í Sómalíu. Á meðal fjórmenninganna eru tveir bræður, 25 og 23 ára gamlir. Þeir snerust til íslamstrúar fyrir nokkrum árum. Einnig er ákært fyrir að reyna að fá ungmenni undir lögaldri til að framkvæma ódæðin.
Eldri bróðirinn virðist vera höfuðpaurinn en hann er sagður hafa fengið fyrirmæli frá Ríki íslams um að drepa eins marga „vantrúaða“ og mögulegt er, með áherslu á skotmörk meðal gyðinga. Maðurinn er sagður hafa haft samband við fólk sem gæti aðstoðað við sprengjusmíði og leitað að ólögráða börnum sem gætu framkvæmt árásir. Sönnunargögnin felast meðal annars í upplýsingum úr símahlerunum, þar á meðal á spjalli með leiðbeiningum frá Ríki íslams, að sögn Lars Hedvall, yfirmanns hjá lögreglunni.
Leituðu að píslavottum
Einnig liggja fyrir upplýsingar úr alþjóðlegri lögreglurannsókn sem sýna að þeir ákærðu hafa átt samskipti við fólk í öðrum löndum Evrópu sem nú er í haldi. Talsvert efni er til eftir símhlerun á húsnæði bræðranna. Þar heyrast bræðurnir tala um að þeir séu að leita að börnum sem séu „tilbúin að deyja sem píslarvottar“, að þeir eigi að „drepa marga“ og að þeir „verði að sjá blóð“ og að það sé ekki vandamál ef börn eru drepin. Elsti maðurinn hlaut þau fyrirmæli frá liðsmönnum Ríkis íslams í Sómalíu að „myrða eins marga trúleysingja og mögulegt væri, þar sem gyðingar væru aðalskotmörkin“, að því er segir í ákærunni. Allir fjórir neita sök. Um tíma var einnig fimmti maðurinn í haldi.
Tengjast ríkisstyrktum menningarfélögum
Ákærurnar núna má rekja til atburðarásar sem hófst 7. mars síðastliðinn þegar sænska öryggislögreglan Säpo réðist inn á nokkur heimili í Tyresö, 50 þúsund manna sveitarfélagi suður af Stokkhólmi, vegna gruns um að þar væri verið að undirbúa hryðjuverk. Eitt tilvikið beindist að íslömskum samtökum sem hafa frá árinu 2016 fengið um hálfa milljón sænskra króna frá samtökum múslíma í Svíþjóð. Þessi samtök njóta ríkisstyrks og er nú hætta á að þau missi hann. Svíum er einfaldlega nóg boðið, í nafni aðlögunar hafa þeir styrkt íslömsk trúfélög og það var því gríðarlegt áfall þegar kom í ljós að þau tengdust hugsanlega hryðjuverkastarfsemi. Það sýnir alvarleika málsins að í aðgerðum öryggislögreglunnar var farið inn í moskuna í Tyresö.
Svo háttar til að Félag múslíma í Svíþjóð fær árlega ríkisstyrki sem það notar til að styrkja um það bil 70 íslömsk félög og söfnuði í Svíþjóð. Þar á meðal er Íslamska menningarfélagið í Tyresö (Tyresö Islamic Cultural Association) sem tengist fyrirætlun fjórmenninganna. Frá árinu 2016 hafa samtökin í Tyresö fengið tæplega hálfa milljón sænskra króna frá sænsku múslímasamtökunum, samkvæmt tölum sem fréttastofa SVT óskaði eftir.
Er hægt að stöðva stuðning?
Nú segjast talsmenn Stuðningsstofnunar við trúfélög (Myndigheten för stöd till trossamfund) vera í viðræðum við Säpo um að hætta stuðningi við Sænska múslimasambandið, sem þá gæti haft áhrif á þau 70 félög sem aftur fá stuðning frá sambandinu. „Kannski, við vitum enn of lítið um hvað gerðist. Það fer líka mikið eftir því hvernig trúfélagið tekur á þessari stöðu sem upp er komin. Vissu þeir um þetta eða athuguðu þeir ekki aðildarfélög sín nægilega,“ segir Isak Reichel, yfirmaður Stuðningsstofnunar trúfélaga, við P4.
Sænsk yfirvöld eiga í viðræðum við Sænska múslímasambandið sem hætti stuðningi við Íslamska menningarfélagið í Tyresö eftir að upplýst var um aðgerðir Säpo gegn samtökunum. Formaður Samtaka múslíma í Svíþjóð segir í samtali við Aftonbladet að aðild Tyresö-íslamistanna hafi einnig verið fryst.
Það gerir málið flóknara að samkvæmt upplýsingum frá Säpo þá tengist málið einnig skipulögðum glæpasamtökum í Tyresö. Þau hafi útvegað mönnunum skotvopn og rafbyssur.
Tengsl við moskur og hreyfingar íslamista
Þó að lögreglan hafi verið fremur fámál þá hlýtur athyglin að beinast að elsta manninum og tengslunum við moskur og hreyfingar íslamista í Svíþjóð. Elsti maðurinn kom til Svíþjóðar í lok síðustu aldar og er imam eða leiðtogi mosku í Tyresö í Svíþjóð. Ef marka má fréttir hefur þessi imam verið handtekinn, grunaður um beina þátttöku í hryðjuverkasamtökum.
Imaminn er ættaður frá Sómalíu og stýrði moskunni í sjálfboðavinnu um leið og hann kenndi börnum og ungmennum í húsnæði múslímskra menningarsamtaka. Imaminn hefur stýrt moskunni að minnsta kosti síðan snemma á 20. áratugnum og starfaði um tíma sem formaður menningarfélagsins.
Nýjasta handtakan í Svíþjóð kemur í kjölfar mótmæla íslamista í Hamborg þar sem múslímskir innflytjendur kölluðu eftir kalífadæmi til að berjast gegn „íslamófóbíu“ og í kjölfar uppljóstrunar um að neðanjarðarmoskur á Ítalíu hafi orðið gróðrarstía fyrir íslamista öfgamenn. Allt hefur þetta kallað á aukið samstarf öryggislögreglu þessara landa sem hafði áhrif á rannsókn þessa máls.