Stundum má heyra þær fullyrðingar úr munni stuðningsmanna Evrópusambandsins að ríki sambandsins tróni í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að viðskiptafrelsi. Það er alrangt enda gengur grunnhugsun ESB út á að skapa eitt efnahagssvæði á bak við tollmúra og samræmt regluverk. Ef þú ert ekki inni, ertu úti, er viðkvæðið. Staðreyndin er sú að mjög fá ríki sambandsins komast nálægt efstu sætum þegar kemur að viðskiptafrelsi, hin dreifast yfir á sæti þar langt fyrir neðan. Það heyrir með öðrum orðum til undantekninga að ríki ESB séu í hæstu hæðum á slíkum listum. Fyrir vikið er hæpið að draga þá ályktun að það að vera í Evrópusambandinu sé forsenda þess að vera framarlega þegar kemur að viðskiptafrelsi.
Nefnd undir forystu Mario Draghi, sem er hagfræðingur, bankamaður en þó mest um vert, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu skilaði í september síðastliðnum frá sér yfir 400 blaðsíðna skýrslu um styrkleika og veikleika Evrópu í alþjóðlegri samkeppni, þó sérstaklega við Bandaríkin og Kína. Skýrslan er ekki samin í tómarúmi eins og bent var á hér í grein á sínum tíma. Ráðamenn í Evrópu hafa lengi haft áhyggjur af því að hægt hafi á hagvexti frá því í upphafi þessarar aldar.
Ýmsar tilraunir til að auka vöxt hafa verið reyndar en allt hefur stefnt í sama farið. Það er nokkurn veginn sama við hvað er miðað, bilið milli ESB og Bandaríkjanna hefur aukist verulega, sérstaklega í landsframleiðslu. Það stafar aðallega af minni framleiðniaukningu í Evrópu. Heimilin í Evrópu hafa greitt hátt verð fyrir ýmsar álögur og íþyngjandi regluverk. Við Íslendingar þekkjum það í gegnum gullhúðaða reglugerðarskrautið sem til okkar berst. En sumt er ekki gullhúðað, nær er að tala um blýhúðun.
Kleppur er víða!
Í Dragi-skýrslunni er auðvitað talsvert fjallað um fjármálastarfsemi. Þar er lagt til að gjöld á fjármálamarkaði verði lækkuð fyrir tiltekna einfalda, gagnsæja og staðlaða flokka þar sem gjöldin í dag endurspegli ekki raunverulega áhættu. Samhliða ætti ESB að endurskoða gagnsæi og áreiðanleikakönnunarreglur um verðtryggðar eignir, sem eru tiltölulega háar miðað við aðra eignaflokka, og draga úr þeim.
Horfum þá til þess að síðastliðinn áratug eða svo hafa evrópskir verðbréfamarkaðir átt undir högg að sækja, sérstaklega samanborið við þann bandaríska. Þannig hefur nýskráningum félaga fækkað, ávöxtun hlutabréfa hefur verið slök og er nú svo komið að evrópskir útgefendur eru í síauknum mæli farnir að horfa til bandaríska verðbréfamarkaðarins í stað þess evrópska þegar kemur að því að afla fjármagns. Þunglamalegu regluverki Evrópusambandsins hefur að hluta til verið kennt um þessa þróun. Nú reynir ESB að bakka frá þessu reglugerðarfargani. Lögmaður gjörkunnugur evrópsku bankaregluverki vitnaði í Engla alheimsins af þessu tilefni og minnti á að Kleppur leynist víða!
Bakka frá MiFID 2-vitleysunni
Stefán Orri Ólafsson, lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu, skrifar mjög athyglisverða grein um málið á innherjasíðu Vísis. Þar bendir Stefán Orri á að til að reyna að bregðast við uppkominni stöðu var hinn 14. nóvember síðastliðinn birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins nýtt regluverk, svokallaðar skráningarreglur (e. Listing Act). Yfirlýst markmið skráningarreglnanna er að einfalda reglufylgni og auka aðdráttarafl fjármagnsmarkaða Evrópusambandsins en á sama tíma viðhalda fjárfestavernd og heilleika markaðarins.
Skráningarreglurnar fela í sér breytingar á grundvallargerðum Evrópusambandsins sem snerta fjármagnsmarkaðinn, þ.e. markaðssvikareglugerðinni, lýsingarreglugerðinni og svokallaðri MiFID II tilskipun. Margir anda léttar og gamall bankamaður á verðbréfamarkaði sendi pistlaskrifara þetta svar: „Þetta er mjög áhugavert og það virkar eins og verið sé að draga talsvert í land með þessa MiFID 2-vitleysu sem hingað til hefur aðallega verið til tjóns. Þessi breyting er til hagsbóta fyrir eðlileg og opin skoðanaskipti um markaðinn.”
Þungur áfellisdómur
Þetta er þungur áfellisdómur en lög nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga tóku gildi 1. september 2021. Lögin innleiddu ákvæði MiFID II tilskipunarinnar auk þess sem þau veittu MiFIR reglugerðinni og tveimur framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnar ESB lagagildi. MiFID II tók við af MiFID I regluverkinu og var með víðtækara gildissvið, náði til að mynda til samsettra innstæðna. Ný tegund viðskiptavettvangs, skipulegt markaðstorg, var kynnt til sögunnar. Þá eru gerðar meiri kröfur um veitingu starfsleyfis, skipulagskröfur, fjárfestavernd og viðskiptahætti verðbréfafyrirtækja.
Stefán Orri segir að þessi breyting muni hafa margvísleg áhrif og í henni felist talsverðar tilslakanir. „Framangreindar gerðir Evrópusambandsins hafa allar verið innleiddar í íslensk lög. Mun hið nýja regluverk því hafa töluverð áhrif á útgefendur á íslenska verðbréfamarkaðinum þegar það hefur verið innleitt og tekið gildi hérlendis. Til að tryggja hlítni við hinar nýju reglur og til þess að eiga þess kost að nýta sér þær tilslakanir sem þær fela í sér er mikilvægt fyrir útgefendur að kynna sér breytingarnar vel,“ skrifar Stefán Orri.
Það er auðvitað gott að ESB sjái að sér með íþyngjandi regluverk en hafa verður í huga að engin leið er að meta hvaða tjón hlýst af því að hafa haft þetta regluverk við lýði svo lengi.