c

Pistlar:

12. desember 2024 kl. 16:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Drepur heimabíóið bíóhúsin?

Það er augljóst að rekstur kvikmyndahúsa hér sem erlendis verður stöðugt erfiðari. Íslendingar voru einu sinni taldir til mestu bíóþjóða heims og það var vinsæl félagsleg athöfn að fara í bíó. Flestir eiga skemmtilegar minningar eftir slíkar ferðir, með vinum og vandamönnum þar sem menn nutu augnabliksins. En nú blasir við að kvikmyndahúsunum hefur fækkað og margir óttast að þeim muni fækka enn frekar, jafnvel hverfa. Bæði Sambíóin og Laugarásbíó hafa verið rekin með tapi síðan kóvidfaraldurinn gekk yfir. Hann, ásamt tilkomu risasjónvarpsins, er að breyta upplifun fólks. Hugsanlega voru ein tímamótin þegar verð 65 tommu skjásins fór undir 150 þúsund krónur. Nú er á allra færi að kaupa skjái allt upp í 85 tommur og með tilheyrandi heimabíói og aðgengi að streymisveitum getur fólk horft á það sem hugurinn girnist án þess að fara út úr húsi.bíó

Fyrir ári síðan var sagt frá því að frá ár­inu 1980 hefðu sjö kvik­mynda­hús týnt töl­unni í Reykja­vík. Það átt­unda í röðinni, Há­skóla­bíó, lokaði fyrir rúmu ári síðan. Ekkert virðist stöðva þessa þróun þó að í umræddri frétt hafi verið talað um „menningarslys“.

Á þessari þróun eru margar hliðar. Ein er sú félagslega breyting sem af þessu hlýst, að fólk fari ekki í kvikmyndahús en eins og áður sagði hefur það löngum verið stór hluti af félagslífi fólks. Vinir og félagar hafa tekið frá stund til að hittast í kvikmyndahúsi og tilhugalíf margra snérist um það. Allir eiga mikilvægar minningar í myrkvuðum kvikmyndasalnum. Mun einmanaleiki aukast með þessu nú þegar tilefnið til að fara út og hittast hverfur? Það er erfitt að sjá fyrir sér að fólk hittist heima við og horfi á nýjustu Netflix-myndina.

Áhrif á gerð kvikmynda

Þessi þróun mun einnig hafa áhrif á kvikmyndagerðariðnaðinn sjálfan. Það er svo sem ekkert nýtt að framleiðsluvaldið sé að færast yfir til streymisveitnanna. Flestir kvikmyndagerðarmenn starfa þar og það eru ekki nema einstaka risar kvikmyndaiðnaðarins sem enn geta gert stórmyndir fyrir kvikmyndaskjáinn. En þó að flestir dáist að myndmáli Ridley Scotts komu frekar fáir að sjá nýjustu mynd hans um Skylmingaþrælinn. Þó að ekki séu fyrirliggjandi tölur þá má ætla að margfalt færri hafi séð hana en fyrri myndina sem var mögnuð kvikmyndaleg upplifun eins og á við um flestar myndir Scotts. Fyrir stuttu leikstýrði Francis Ford Coppola kvikmyndinni Megalopolis sem hann hafði lengi gengið með í maganum. Þó að frægð hans sé óumdeild og myndir hans um Guðföðurinn með því besta sem hefur birst á hvíta tjaldinu varð hann að framleiða og fjármagna sjálfur myndina. Hún hefur fengið dræma aðsókn en í nýlegu viðtali við Washington Post segist Coppola sannfærður um að Megalopolis muni borga sig að endingu. Það deila ekki allir þeirri sannfæringu hans.

Áhorfendum fækkar og styrkir aukast

Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að styrkja bókaútgáfu og fjölmiðla með beinum fjárframlögum. Það gerist með þeim hætti að rekstraraðilar skila inn reikningum sem eru svo endurgreiddir en vikið hefur verið að þessu í pistli hér áður. Erfitt er að sjá fyrir sér að það sama verði gert með kvikmyndahúsin þó að menningarlegt hlutverk þeirra sé óumdeilt eins og vikið var að hér að framan. Þau framleiða ekkert (nema kannski poppkorn) þannig að framleiðslustyrkir til þeirra eru ólíklegir. Reyndar er það svo að eitt kvikmyndahús, Bíó Paradís, fær nokkra opinbera styrki því ef réttu aðilarnir eru í húfi finnast alltaf einhverjir fjármunir.

En það er svo sem vitað mál að kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi er styrktur um háar fjárhæðir árlega. Þar er um að ræða framleiðslustyrki sem í seinni tíð nýtast fyrst og fremst streymisveitum. Það má hafa mörg orð um þessa styrki, til hvers þeir eru og hvaða markmiðum er ætlað að ná með þeim. Að endingu virðast þeir styðjast við svipuð lögmál og styrkir í bókaútgáfu og kvikmyndagerð, þegar þeir eru einu sinni komnir á er erfitt að hætta að veita þá. Það er eins og að taka súrefnisgrímuna frá sjúklingi.bíó

Jólamyndirnar horfnar?

Hér var í upphafi rætt um hina félagslegu athöfn að fara í kvikmyndahús. Enn er til fólk sem vill njóta kvikmynda á stóru tjaldi og með öflugu hljóðkerfi. Þannig verði upplifunin af myndinni sterkust. En meira að segja þetta fólk fer sjaldnar í bíó. Það er helst að barnamyndir haldi stöðu sinni en hve lengi mun það endast.

Samfélagið er stöðugt að breytast og einu sinni var sungið Myndbandið drap útvarpsstjörnuna („Video Killed the Radio Star“) sem minnir okkur á að ný tækni hefur tilhneigingu til að læðast aftan að okkur og breyta samfélaginu án þess að við áttum okkur á því til fullnustu. Einu sinni voru jólamyndir kvikmyndahúsanna kynntar með látum og fjölskyldur tóku sig saman og fóru í bíó. Það er að breytast, hvað svo sem tekur við.