Síðasta áratuginn eða svo hefur verið rekin hörð þéttingastefna hér í Reykjavík. Til að byrja með höfðu margir skilning á þeim markmiðum og forsendum sem þar lágu til grundvallar. Ný hús gátu þétt borgarmyndina og skapað betri nýtingu á þeim innviðum sem voru fyrir. En þegar framkvæmd og útfærsla þéttingastefnunnar, undir stjórn Dags B. Eggertssonar, fór að birtast runnu tvær grímur á menn. Nú skiptist fólk á samfélagsmiðlum á að birta hálfgerðar hryllingsmyndir af því hve stutt er á milli fjölbýlishúsa á nýjum þéttingarreitum í borginni. Dæmi um þetta má finna nánast á öllum nýrri byggingasvæðum, svo sem við Kirkjusand, Vogabyggð, við JL-húsið, á Orkureitnum, Heklureitnum og kannski ekki síst á Valssvæðinu þar sem fólk kaupir hús með svölum sem sólin skín ekki á.
Vaxandi efasemdir eru um þessa stefnu og margir eru hugsi yfir nábýlinu sem hlýst af þéttingu byggðar. Nú síðast vegna furðulegs máls í Suður-Mjódd þegar risavaxin vöruhúsaskemma var byggð ofan í fjölbýlishús með þeim hætti að öllum blöskraði. Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað mikið um þá framkvæmd en stjórnendur hjá borginni benda hver á annan. Augljóslega ætlar engin að taka ábyrgð á þessu. En aðrir hafa spurt spurninga um hvert borgin stefnir. Meðal annars ræddi Morgunblaðið við Pál Jakob Líndal, sem er doktorsmenntaður í umhverfissálarfræðum, en hann taldi af þessu tilefni að borgin hlyti „að vera komin í þrot með þessa þéttingarstefnu“.
Uppgjör við módernismann
Stöð 2 ræddi við Pál Jakob í september síðastliðnum og þá var hann með forvitnilega útleggingu á hönnun nýbygginga í miðbæ Reykjavíkur. Páll sagði að sagnfræðin og sálfræðin hafi orðið út undan við hönnun á nýbyggingum, einkum í miðbænum. Páll lýsti meðal annars Smiðu, nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis, sem „árás inn í umhverfið“ en var afar ánægður með nýbyggingar í Hafnarstræti, sem reistar eru í gamaldags stíl í anda þess sem gjarnan var byggt á fyrri hluta síðustu aldar. Staðreyndin er sú að módernisminn í arkitektúr virkar illa þegar verið er að þétta byggð, öfugt til dæmis við nýja miðbæinn á Selfossi þar sem unnið er öðruvísi með þéttleika og bil milli húsa.
Arkitektar í skjóli nafnleyndar
Í frétt Morgunblaðsins um framkvæmdina í Suður-Mjódd var vitnað í samtöl blaðamanns við arkitekta sem leiddi í ljós að þessi skipulagsstefna er umdeild innan stéttar arkitekta. Það hlýtur að vekja athygli að í viðtalinu kom fram að arkitektar vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við að það skerði starfsmöguleika þeirra. Einn arkitektanna ræddi þó við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar. „Mér finnst hræðilegt hvað það er verið að byggja nærri umferðaræðum. Þegar ég var í akademíunni var lagt mikið upp úr friðsæld, útsýni og sólarljósi en nú finnst mér fólk haft eins og búrhænsni,“ sagði arkitektinn um þéttingarreiti í Reykjavík.
Slæm áhrif á heilsu
Viðkomandi arkitekt benti á að það væri ekki skrítið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu ef híbýlin eru ekki lengur mannsæmandi, alltof lítil og dimm. Höfð sé minnsta mögulega fjarlægð milli húsa þannig að fólk stari á milli glugga. Áður voru tveggja herbergja íbúðir jafnan 70 fermetrar. Nú er hins vegar orðið algengt að nýjar tveggja herbergja íbúðir séu 50 fermetrar.
Einnig benti hann á að svalir séu oft hafðar svo litlar að það er varla hægt að nota þær. Fyrir utan að snúa orðið jafnvel í norður en áður var mikið lagt upp úr því að svalir sneru til suðurs eða vesturs en í neyð til austurs. Arkitektinn nafnlausi segir að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni að setja svalir í norður. Nú eru fjölbýlishús skipulögð þannig að svalir geta aðeins verið í norður. Það er alvarlegt mál ef fólk fær ekki sólarljós inn í íbúðirnar, segir viðkomandi arkitekt.
Eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins finnur fólk nú meira fyrir þessu í svartasta skammdeginu en sólarljós og birta séu mikilvæg fyrir andlega heilsu. Arkitektinn segir nauðsynlegt að þétta byggð í borginni, þ.m.t. vegna umferðarmála, en með þessari stefnu sé of langt gengið. Vel sé hægt að útfæra þéttingu á betri hátt.
Borgarlína stýrir skipulagsmálum
Það er lykilatriði, allir sjá að hægt er að framkvæma þessa þéttingastefnu betur og við erum farin á sjá afleiðingar hennar en ekki kosti. Allt sem gert er í skipulagsmálum í Reykjavík miðast nú við að borgarlína verði að veruleika. Þéttingareitir meðfram henni, eins og við sjáum við ofanverðan Laugarveg og Suðurlandsbraut, sýna að Reykvíkingar eru að hverfa inn í nýja tíma. Þar má nú sjá átta hæða hús byggð nánast fram í götuna.
Við sjáum einnig þetta ofurvald þéttingarstefnunnar og Borgarlínunnar í Laugardalnum þar sem nú hefur verið tekin ákvörðun um safnskóla vegna þess að gleymst hefur að hugsa fyrir lausnum fyrir nýja nemendur á þessum þéttingasvæðum. Vandamálin halda áfram að hlaðast upp.