Jimmy Carter er fallinn frá á 101 aldursári. Hann var 39. forseti Bandaríkjanna á árunum 1977 til 1981. Sem forseti kom hann að ýmsum umbótum, bæði í mennta- og velferðarmálum og má þar nefna að hann stofnaði menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna og jók umfang velferðarkerfisins á margan hátt. Þá kom Carter að nokkrum mikilvægum friðarsamningum og ber þar sérstaklega að nefna Camp David-friðarsamninginn árið 1978.
Jimmy Carter var velviljaður maður en Bandaríkjamenn misstu trú á leiðtogahæfileikum hans og kusu hinn lífsglaða Ronald Reagan sem sinn 40. forseta árið 1980. Það mótaði söguna en Jimmy Carter var hins vegar mjög virkur sem fyrrverandi forseti og vann að friðar- og mannúðarmálum, dyggilega studdur af Rosalynn eiginkonu sinni. Carter vann ötullega að hjálparstörfum og við friðarumleitanir á átakasvæðum og var oft leitað til hans sem sáttasemjara enda naut hann trúnaðar og tilstyrks bandarískra stjórnvalda. Carter hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2002 fyrir störf sín í þágu friðar í heiminum. Hann er einn fjögurra forseta Bandaríkjanna sem hafa unnið verðlaunin en þeir Theodore Roosevelt, Woodrow Wilson og Barack Obama hafa einnig fengið þau.
Alþýðudrengur frá Georgíu
Jimmy Carter (James Earl Carter, Jr.), fæddist 1. október 1924 í Plains í Georgíu og ólst upp í nálægu samfélagi Archery. Faðir hans, James Earl Carter, eldri, var bóndi og kaupsýslumaður; móðir hans, Lillian Gordy Carter, var hjúkrunarfræðingur. Oft var grínast með fábrotinn bakgrunn Jimmys og hann kallaður hnetubóndinn frá Georgíu. Billy bróðir hans var ekki eins áreiðanlegur og var oft í fréttum fyrir tilsvör sín og drykkju en hann dó 1988.
Jimmy Carter var menntaður í almenningsskólanum í Plains, gekk í Georgia Southwestern College og Georgia Institute of Technology og hlaut B.S. gráðu frá flotaskóla Bandaríkjanna árið 1946. Í sjóhernum gerðist hann kafbátamaður, þjónaði bæði í Atlantshafs- og Kyrrahafsflotanum og fékk stöðu undirforingja. Hann var valinn af Hyman Rickover aðmírál í kjarnorkukafbátaáætlun bandaríska flotans og sendur til New York, þar sem hann tók framhaldsnám við Union College í kjarnatækni og kjarnaeðlisfræði og starfaði sem yfirmaður í áhöfn Seawolf-kafbátsins, en hann var annar kjarnorkukafbátur bandaríska flotans.
Þann 7. júlí 1946 giftist Jimmy Rosalynn Smith frá Plains. Þegar faðir hans lést árið 1953 hætti hann störfum fyrir herinn og sneri aftur til Georgíu með fjölskyldu sinni. Hann tók þar við búskapnum og hann og Rosalynn ráku Carter's Warehouse, sem var nokkurs konar almennt fræ- og búvörufyrirtæki í Plains. Jimmy var fljótlega treyst fyrir trúnaðarstörfum og hann varð fljótt leiðtogi samfélagsins, sat í sýslunefndum sem höfðu eftirlit með menntun, sjúkrahússtjórn og bókasafni. Árið 1962 vann hann kosningu í öldungadeild Georgíu. Hann tapaði fyrstu ríkisstjórabaráttu sinni árið 1966, en vann næstu kosningar og varð 76. ríkisstjóri Georgíu 12. janúar 1971. Hann var kosningaformaður demókrata í landsnefndinni fyrir þing- og ríkisstjórakosningarnar 1974.
Kalda stríðs forseti
Þann 12. desember 1974 tilkynnti Jimmy um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna. Hann hlaut útnefningu flokks síns í fyrstu atkvæðagreiðslu á landsfundi demókrata 1976 og var kjörinn forseti 2. nóvember 1976 eftir að hafa unnið sitjandi forseta, Gerald R. Ford (1913-2006), með naumindum. Svo naumt að ef 4.500 kjósendur til viðbótar í Ohio og Hawaii hefðu kosið Ford forseta, væri Jimmy Carter í dag minnst sem óvenju langlífs hnetubónda, en ekki fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Þegar hann tók við embætti var litið á hann sem utangarðsmann í Washington, svona að hluta til eins og Donald Trump! Jimmy var ekki hluti af valdaelítu stóru flokkanna tveggja og hann hét því meðal annars endurreisa siðferði bandarísku þjóðarinnar, bæði innanlands og ekki síst í utanríkisstefnu landsins í kjölfar áfalla Víetnamstríðsins og Watergate. Hann taldi siðferðilegan styrkleika nauðsynlegan grunn til að beita bandarísku valdi og áhrifum. Carter sá fyrir sér að utanríkisstefna hans myndi horfa til lengri tíma á hnattrænar breytingar og myndi færa Bandaríkin frá því að starfa innan tvískauta eða þrípóla alþjóðlegs kerfis yfir í að taka mið af sífellt flóknari heimi þar sem ný lögmál og viðfangsefni gerðu þjóðirnar háðari hvor annarri. Þannig má segja að málflutningur hans hafi fallið alþjóðasinnum vel í geð.
Jimmy Carter gegndi embætti forseta frá 20. janúar 1977 til 20. janúar 1981 en á þeim tíma var kalda stríðið í algleymingi. Það sem mótaði utanríkisstefnu stjórnar hans sem meðal annars tókst á við samninga um Panamaskurðinn, Camp David-samningana, friðarsáttmála milli Egyptalands og Ísraels, SALT II sáttmálann við Sovétríkin og stofnun diplómatískra samskipta milli Bandaríkjanna og Alþýðulýðveldisins Kína en Richard Nixon (1913-1994) hafði sem kunnugt er opnað þann glugga. Í sumum þessum samningum þótti haukum heima við Jimmy ekki halda vel á hagsmunum Bandaríkjanna.
Enginn efaðist um ásetning Jimmy þegar kom að mannréttindum og lét hann til sín taka á því sviði um allan heim. Á innlendum vettvangi voru afrek stjórnvalda meðal annars víðtæk orkuáætlun á vegum nýrrar orkudeildar; afnám hafta í orku, samgöngum, fjarskiptum og fjármálum; helstu fræðsluáætlanir undir nýrri menntamáladeild; og meiri háttar umhverfisverndarlöggjöf, þar á meðal lög um verndun landshagsmuna í Alaska, sem tvöfaldaði stærð þjóðgarðakerfisins og þrefaldaði óbyggðasvæðin.
Tapaði fyrir Ronald Reagan
En það átti ekki fyrir Jimmy Carter að liggja að ná öðru kjörtímabili og verulega var á brattann að sækja hjá honum þegar leið að kosningum. Ronald Reagan bar sigur úr býtum í kosningunum 1980 með 489 kjörmenn og 50,7% heildaratkvæða (popular vote) en Carter fékk aðeins 49 kjörmenn og 41,0% atkvæða. Þriðji frambjóðandinn, John B. Anderson, hlaut 6,6% atkvæða og enga kjörmenn.
Vegna pólitískra breytinga í kjölfar sigurs Reagans hafa sagnfræðingar viljað lesa út úr kosningu hans hugmyndafræðilega þróun sem hafi hafist með forsetabaráttu Barry Goldwater árið 1964. Þetta pólitíska mynstur hélt áfram að styrkjast í ryðbeltum Bandaríkjanna (Rust Belt), í fylkjum eins og Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin og hefur áhrif allt til kosninganna í dag.
Reagan var erfiður keppinautur og Jimmy dró með sér vandamál, sum sem hafa litað bandarísk stjórnmál síðan, svo sem verðbólgu, veikara atvinnulíf, breytingar í atvinnuháttum og átök fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þyngst vóg gíslataka í Teheran þar sem ríflega 50 bandarískum borgurum var haldið í gíslingu í 444 daga. Misheppnuð björgunaraðgerð gerði illt verra en það er þó líklega ofmælt að segja að þessi aðgerð hafi ráðið úrslitum. Ýmsir hafa haldið því fram að Reagan hafi náð að semja um að losun gíslanna yrði ekki fyrr en eftir kosningar en það er veik röksemdafærsla.
Jimmy réði Paul A. Volcker
Vandamál í bandarísku efnahagslífi vógu þungt og verðbólga jókst í stjórnartíð Jimmys. Erfiðast var að glíma við seinni olíukreppuna og bandarískir neytendur urðu æfir þegar þurfti að bíða í röðum eftir bensíni og kenndu stjórninni um. Jimmy reyndi að bregðast við og réði Paul A. Volcker sem seðlabankastjóra Bandaríkjanna sem keyrði upp stýrivextina og í júlí 1981 voru stýrivextir komnir upp í 22,36%, tala sem margir eiga erfitt með að skilja í dag. Óhætt er að segja að bandaríska hagkerfið hafi veinað undan þessum þungu vöxtum. Atvinnuleysi óx og þjóðfélagið allt sýndi kreppueinkenni. Reagan gat ekki komið í veg fyrir að atvinnuleysi færi upp í 10,8% í lok árs 1982. Svo háar atvinnuleysistölur höfðu ekki sést síðan í kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Margir beindu reiði sinni að forsetanum en það var ekkert á við það sem starfsmenn seðlabankans urðu að þola. En Paul A. Volcker gaf ekki eftir og hélt þetta út og verðbólgan var komin niður í 1,2% í lok árs 1986, skömmu áður en hann hætti störfum í bankanum. Stefna bankans undir hans stjórn hefur síðan haft varanleg áhrif á peningastefnu Bandaríkjanna.
Berfætti forsetinn
„There you go again“ var setning sem Ronald Reagan, forsetaframbjóðandi repúblikana, notaði í seinni forsetakappræðunum árið 1980 við andstæðing sinn, Jimmy Carter. Reagan notaði þessa línu oft og afvopnaði andstæðinga sína. Einföld skilaboð hans og útgeislun var eitthvað sem Jimmy Carter réði ekki við. Jimmy var hins vegar alþýðlegur og Bandaríkjamenn minnast þess núna. Hann gat þess oft sjálfur að hann væri fyrsti bóndinn sem yrði forseti síðan Thomas Jefferson leið. Og hann var stundum jafn óformlegur. Jefferson tók stundum á móti mönnum i gömlum slopp og með inniskó á fótunum. Þegar Carter var ríkisstjóri í Georgíu tók hann stundum á móti fólki, berfættur og í snjáðum gallabuxum.
Jimmy gaf út 32 bækur og var umhugað um að kynna störf sín og hugsanir. Þorsteinn Þorgeirsson hagfræðingur minntist þess á Facebook að hafa hitt Jimmy og Rosalynn eiginkonu hans árið 1987 í bókabúð í San Francisco í tilefni útgáfu bókar þeirra hjóna: Everything to Gain: Making the Most of the Rest of Your Life. „Jimmy var viðkunnalegur í eigin persónu en með frekar alvöruþrungið eða kalt augnaráð,“ skrifar Þorsteinn.