Undanfarin ár höfum við hér á Íslandi og reyndar annars staðar á Norðurlöndunum fylgst með þróun mála í Svíþjóð. Aukin tíðni glæpa, vaxandi áhrif glæpagengja, afbrot og ofbeldi sem má að sumu leyti tengja við fjölgun innflytjenda í landinu. Það er ekki svo að neinn haldi því fram að innflytjendur sem slíkir séu ofbeldisfyllri í eðli sínu en með innflytjendum hefur komið rót og uppbrot á mörgu því sem einkenndi sænskt velferðarþjóðfélag eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum. Hér var ekki fyrir löngu sagt frá sérstöku samspili velferðarkerfisins sænska og glæpa.
Ríkisútvarpið hefur farið sér hægt í fréttaflutningi af ástandinu í Svíþjóð en nú í vikunni voru sagðar fréttir af því að banvænum skotárásum færi þó fækkandi í Svíþjóð. Bent var á að alls hefðu 42 látist af völdum skotárása í Svíþjóð á síðasta ári en voru 53 árið 2023 og 62 árið 2022. Þessu til viðbótar særðist 61 einstaklingur í alls 259 skotárásum, samkvæmt samantekt sænska ríkisútvarpsins. Árið 2023 voru gerðar 360 skotárásir í landinu og þær hafa ekki verið færri en 300 frá árinu 2018. Fleiri en hundrað hafa særst í skotárásum á hverju ári frá 2018 til 2023. Flestar voru skotárásirnar 2022 eða 390 og þá voru eins og áður sagði 62 skotnir til bana. Flestar árásirnar voru raktar til mikillar ólgu milli glæpahópa í Svíþjóð.
Í frétt Ríkisútvarpsins var vísað til sérfræðings sem segir að fækkunina megi rekja til þess að margir liðsmanna glæpahópa hafi verið handteknir, flúið land eða séu þegar látnir. Áhugaverð skýring út af fyrir sig en fangar ekki endilega þá miklu erfiðleika sem sænskt þjóðfélag hefur þurft að ganga í gegnum undanfarin áratug.
Gríðarlegur samfélagslegur kostnaður
En það er önnur mynd af þessari glæpaöldu sem birtist í hinum gríðarlega samfélagslega kostnaði. Í Singapore sést ekki lögregla á götu úti og samfélagslegur kostnaður vegna glæpa er í lágmarki. Á móti hafa íbúar Singapore gefið eftir ýmis réttindi sín til friðhelgi, svo sem það að sætta sig við opinbera vöktun með myndavélum.
Glæpir borga sig ekki, það er vitað mál en fyrir samfélagið er kostnaðurinn gríðarlegur. Skotárás getur þannig haft áhrif á mun fleiri en þá sem eiga beinan þátt í. Kvíði vegna áframhaldandi ofbeldis getur til dæmis leitt til þess að fólk fari í veikindaleyfi og börn nái lakari einkunnum í skóla. Enn eru íkveikjur og bílabrunar daglegt brauð í Svíþjóð.
Venjulegur glæpamaður kostar 300 milljónir
Vísindamenn hyggjast nú rannsaka hvernig skotárásir hafa áhrif á fólk á hættusvæðum og kostnaðinn af því. Kostnaðartölur frá Svíþjóð sýna þetta samhengi: sænski þjóðhagfræðingurinn Ingvar Nilsson hefur reiknað út að einn glæpamaður kosti samfélagið að meðaltali 23 milljónir sænskra króna yfir 15 ára tímabil eða um 300 milljónir íslenskra króna. Nilsson bætir við að ef maðurinn sé mjög ofbeldisfullur muni hann kosta að meðaltali allt að 90 milljónir sænskra króna á 15 árum eða allt að 1.200 milljónir íslenskra króna.
Nilsson segist hafa farið að rannsaka málið fyrir nokkrum árum þegar málaferli gagnvart meðlimum glæpagengja hafi tekið að koma upp á yfirborðið. Hann segir að baki tölunum liggi miklar rannsóknir og margir hafi komið að þeim. Hann tekur þó fram að ekki hafi tekist að leggja heildstætt mat á þann samfélagslega kostnað sem leggst á alla þá sem búa á svæðum þar sem félagar glæpagengja herja á og gera líf íbúanna óöruggt.
14.000 glæpamenn
Árið 2023 mat sænska lögreglan það svo að um 1.200 glæpamenn yngri en 18 ára væru virkir í klíkunum Svíþjóðar og um 170 börn undir 15 ára aldri væru virkir meðlimir. Í heild eru í Svíþjóð allt að 14.000 glæpamenn í fjölda glæpagengja. Það er auðvitað svimandi kostnaður sem fylgir því fyrir samfélagið. Ef allir þessir 14.000 glæpamenn ætluðu að halda áfram framferði sínu í 15 ár, sem er því miður mjög líklegt að þeir muni gera, verður heildarreikningurinn gríðarlegur eða um 322 milljarðar sænskra króna. Það jafngildir um 4.400 milljörðum íslenskra króna sem er ríflega helmingur þess sem er í íslenska lífeyrissjóðskerfinu. Þessir 322 milljarðar króna eru miðað við að viðkomandi kosti 23 milljónir króna á 15 ára tímabili.
Rétt eins og á Íslandi eru stjórnvöld í Svíþjóð að reyna að spara fjármuni. Ein skotárás getur kostað um 75 milljónir sænskra króna eða tæpan milljarð króna, samkvæmt nýju útreikningum Ingvars Nilsson. Þá gerir hann ráð fyrir að einn slasist lítillega og annar alvarlega. Af þessu sést að glæpabylgjan er að hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir efnahag Svíþjóðar.