Bretland hefur lengi glímt við ógeðfellda sögu svokallaðra tælingargengja, sem hafa misnotað þúsundir ungra stúlkna kynferðislega í gegnum tíðina. Nú er svo komið að málið klýfur bresk þjóðlíf og bresk stjórnmál eins og vikið var að hér í síðasta pistli. Undir niðri er uppgjör við innflytjendastefnu Breta og samlögun ólíkra trúar- og þjóðfélagshópa. Það er erfitt að sneiða framhjá þeirri staðreynd að gerendur áberandi mála sem vöktu mikla fjölmiðlaathygli reyndust í öllum tilvikum vera karlmenn af pakistönskum uppruna.
Segja má að umræðan hafi farið á flug þegar milljarðamæringurinn Elon Musk hóf afskipti sín með ummælum á samfélagsmiðli sínum X. Þar sakaði hann Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands um að hafa ekki tekist á við ógn sem stafar af karlagengjum sem táldrógu ungar stúlkur og misnotuðu þær kynferðislega. Musk dróg ekki af sér og hvatti meira að segja til þess að Jess Phillips, ráðherra málaflokks barna sem eiga undir högg að sækja, yrði fangelsuð eftir að hún neitaði að taka upp og endurskoða opinbera rannsókn á sögu barnaníðs í bænum Oldham. Þess í stað hafði Phillips lagt til að sett yrði á fót staðbundin nefnd í samræmi við þær sem stofnaðar höfðu verið í Rotherham og Telford. Málið hefur orðið rammpólitískt og þingmenn Íhaldsflokksins hafa gagnrýnt ríkisstjórn Verkamannaflokksins harðlega og fullyrt að stjórnin hafi „yfirgefið“ fórnarlömb þessara glæpa. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins vakti athygli á áhrifum málsins á bresk stjórnmál í dag en nýr leiðtogi Íhaldsflokksins, Kemi Badenoch, hefur farið fram á heildstæða rannsókn en nú þegar hafa verið skrifaðar staðbundnar rannsóknarskýrslur.
Í upphafi síðasta árs kom út hrikaleg skýrsla um hvað gekk á í Rochdale frá 2004 til 2013 þegar þar voru reknir umsvifamiklir barnanauðgunarhringir. Fjallað var um skýrsluna í grein hér en henni var að fara yfir ábyrgð lögreglu og félagsmálayfirvalda á Manchester-svæðinu en viðkvæmni yfirvalda við að taka á málinu var beint rakið til ótta við áskanir um útlendingahatur eða kynþáttafordóma. Rishi Sunak, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, lét málið mikið til sín taka og heimsótti Rockdale þegar skýrslan kom út. Þá voru fjölmiðlar mjög uppteknir af niðurstöðum hennar og um hana mikil umræða í breska þinginu. En þó að skýrslan hafi haft veruleg áhrif meðal almennings í Bretlandi fékk hún litla sem enga umræðu hér á landi þó af henni væru sagðar fréttir.
Erfðar frásagnir
Hér í síðasta pistli var vitnað í grein blaðamannsins og dálkahöfundarins Dominic Green á vefnum The Free Press (The Biggest Peacetime Crime - and Cover-up - in British History). Í það skipti var ekki farið ofan í einstök mál en óhugnanlegar lýsingar hafa verið staðfestar í þeim til þess að gera fáum ákærum sem hafa komist fyrir dómstóla. Þjáningarnar sem lýst er í málsskjölum eru hræðilegar og Green segir það ekki fyrir viðkvæma að lesa. Atburðarásin er oft þannig að barnungum stúlkum í viðkvæmri félagslegri stöðu er nánast rænt, þeim haldið föngnum og þær barðar eða þeim misþyrmt. Allt með það að markmiði að beita kynferðislegri misnotkun í formi hópnauðgana eða þær eru seldar mansali og oft pyntaðar.
Sum málanna eru ótrúleg en Green rekur þekkt mál sem kom upp í Oldham árið 2006 þegar 12 ára stúlka að nafni „Sophie“ kom kvöld eitt inn á lögreglustöð og greindi frá því að hún hefði nýlega verið misnotuð í kirkjugarði af manni að nafni „Ali“. Sá er tók á móti henni á stöðinni sagði stúlkunni að koma aftur í fylgd fullorðinna þegar hún væri edrú. Tveir menn réðust að henni þegar hún kom út af lögreglustöðinni. Ásamt þriðja manni nauðguðu þeir henni í bíl sínum. Þegar þeir hentu henni á götuna spurði hún mann að nafni Sarwar Ali til vegar. Hann fór með hana heim til sín, nauðgaði henni og gaf henni síðan peninga fyrir rútufargjaldi heim. Maður að nafni Shakil Chowdhury kom í bíl hans og bauðst til að fara með hana heim. Hann rændi henni og fór með hana í hús þar sem hann og fjórir aðrir menn nauðguðu henni ítrekað. Þessa frásögn birti blaðakonan Charlotte Green á vefsíðu The Oldham Times í júní 2022.
Nokkrar stúlkur voru myrtar. Í Manchester árið 2003 var Victoria Agoglia ítrekað byrlað ólyfjan og nauðgað áður en henni var gefinn banvænn skammtur af heróíni þegar hún var 15 ára. Í Blackpool sama ár hvarf hin 14 ára Charlene Downes, lík hennar fannst aldrei.
Í Telford tældi (groomed) Azhar Ali Mehmood hina 12 ára gömlu Lucy Lowe og gerði hana ólétta þegar hún var 14 ára. Hann brenndi hana lifandi á hennar eigin heimili ásamt móður hennar, fatlaðri systur og ófæddu öðru barni hennar, sem Mehmood átti einnig. Mehmood var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2001 fyrir morð en var ekki dæmdur fyrir kynferðisglæpi.
Green rifjar upp að á þeim tíma sem herferðin „Segðu nafnið hennar“ (Say Her Name, sem var herferð sem sneri að svörtum stúlkum sem urðu fyrir ofbeldi) var í gangi hafi engum málsmetandi aðila þótt skipta máli að segja nöfn þessara stúlkna. Nauðgararnir sögðu að þær væru „hvítar dræsur“ (white slags), einskis virði og mættu missa sín og er í raun furðulegt að lesa um þá mannfyrirlitningu sem ríkti meðal brotamanna. Það verður ekki horft framhjá því hvaðan þeir komu og þess furðulegra að lesa um þá augljósu kynþáttafordóma sem þeir sýndu fórnarlömbum sínum. Þess má geta að rithöfundurinn JK Rowling hefur mótmælt orðnotkuninni „grooming“, telur rétt að tala um nauðgun.
Störfuðu eins og hryðjuverkasamtök
Það hvaðan brotamennirnir komu hafði einnig áhrif á umfjöllun um málið eins og rækilega hefur verið sýnt fram á. Fyrir utan nokkra uppljóstrara, flestar konur, og einstaka hugrakka blaðamenn eins og Julie Bindel, Andrew Norfolk, Douglas Murray og Charlie Peters sýndu fjölmiðlar engan áhuga. Hugsanlega gat enginn almennilega skilið hvað var í gangi og árið 2018 skrifaði blaðakonan Ella Hill í The Independent að þeir hópar sem væru að tæla stúlkur (grooming) hegðuðu sér ekki eins og hringir barnaníðinga. Í staðinn störfuðu þeir næstum nákvæmlega eins og hryðjuverkasamtök, með allar sömu aðferðir og þeir.
Hvernig gat þetta allt gerst, spyr Green og svarar sér sjálfur. Jú, vegna þess að þetta var röng tegund af kynþáttafordómum, framin af rangri tegund glæpamanna. Almenningur virtist ekki geta skilið að meirihluti fórnarlambanna var hvítur en meirihluti ofbeldismanna þeirra var af múslímskum uppruna frá Pakistan og Bangladesh. Það er til að auka vandann að á honum var pólitískur vinkill, því meirihluti glæpanna var framinn í borgum undir stjórn Verkamannaflokksins og þar sem þingmenn Verkamannaflokksins þurftu atkvæði múslíma. Þetta segir Green að hafi leitt til stofnanakynþáttafordóma af öfugum toga (institutional racism of the inverted kind) og það gerði gerendum kleift að gera eins og þeir vildu. Nú hefur hins vegar borgarstjóri Manchester, sem er úr Verkamannaflokknum, kallað eftir því að ráðist verði í rannsókn á vegum ríkisvaldsins, með þeim rökum að staðbundnar rannsóknir dugi ekki lengur.
Spillt kerfi
Kerfið sjálft varð spillt, segir Green. Starfsmenn velferðarkerfisins hafa viðurkennt að þeir hafi ekki tilkynnt um glæpi vegna þess að lögreglan sagði þeim að þeir yrðu sakaðir um kynþáttaníð. Leiðtogi eins nauðgunargengis í Oldham, Shabir Ahmed, starfaði fyrir sveitarstjórnina sem „velferðarréttindafulltrúi“ og stýrði gengi sínu frá velferðarskrifstofu ráðsins. Annar meðlimur var í ungmennaráði Oldham.
Í mörgum tilfellum höfðu menn sem voru meðlimir í Verkamannaflokknum og af pakistönskum uppruna afskipti af lögreglurannsóknum. Í Telford árið 2016 skrifuðu 10 meðlimir Verkamannaráðsins til innanríkisráðherrans, íhaldsmannsins Amber Rudd, og fullyrtu að ásakanir um misnotkun væru byggðar á „tilfinningalegum rökum“ (sensationalized) og að engin þörf væri á aðgerðum. Tveimur árum síðar taldi rannsókn dagblaðsins Sunday Mirror að um 1.000 fórnarlömb væri að ræða. Yfirlögregluþjónn Vestur-Mercia-svæðislögreglunnar efaðist um þessar tölur og taldi að Mirror væri að gera of mikið úr málinu.
Hagsmunir Verkamannaflokksins
Það er enn erfiðara fyrir Verkamannaflokkinn að hann hefur lagt áherslu á að rækta „samfélagstengsl“ við múslímska kjósendur í þéttbýli. Nazir Afzal, sem var yfirsaksóknari í norðvesturhluta Englands á árunum 2011 til 2015, heldur því fram að árið 2008 hafi innanríkisráðuneytið ráðlagt lögreglu að sækja ekki mál tengt tælingu (grooming) vegna þess að stúlkurnar hafi sjálfar „tekið upplýsta ákvörðun um kynferðislega hegðun sína“.
Íhaldsmenn voru ekki alltaf betri. Árið 2019, skömmu áður en hann varð leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra, kvartaði Boris Johnson yfir því að fé sem varið var í að rannsaka barnaníðsglæpi í fortíðinni væru peningar sem „slettust upp vegg“. (Boris, sjálfum sér líkur, notaði orðið „spaffing“ sem er enskt slangurorð fyrir sáðlát). Árið 2020 lagði innanríkisráðuneyti Johnson niður eigin rannsóknir á tælingagengjum. Það væri ekki í þágu „þjóðarhagsmuna“ að birta upplýsingarnar.
En það er staðreynd að Elon Musk hefur breytt pólitískri nálgun íhaldsmanna, svo nýr leiðtogi þeirra, Kemi Badenoch, kallar nú eftir rannsóknum eins og áður sagði. Keir Starmer, forsætisráðherra, er hins vegar milli steins og sleggju því hann virðist einhvers staðar í ferlinu hafa gert málamiðlanir við eigin stefnu, klemmdur milli hagsmuna flokksins og kjósenda. Sem ríkissaksóknari (director of the Crown Prosecution Service, or CPS) á árunum 2008 til 2013, náði Starmer fram nokkrum farsælum sakfellingum gegn nauðgunargengjunum. En Starmer og samstarfsfólki hans mistókst að taka á málinu í heild sinni og vernda marga af viðkvæmustu íbúum landsins. Það er að koma aftan að honum núna þegar hann er orðinn forsætisráðherra.