Sagan endalausa heldur áfram. Íslandsbanki verður seldur á árinu! Daði Már Kristófersson, nýr fjármálaráðherra, hyggst leggja fram nýtt frumvarp um söluferlið á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka áður en næsta söluumferð fer fram. Ríkið hefur verið meðeigandi að Íslandsbanka sem er skráð félag í Kauphöll Íslands eftir að ríkissjóður hefur í tvígang selt almennum hluthöfum bréf í félaginu.
Ríkið er enn langstærsti hluthafinn en hefur stöðugt verið að senda misvísandi skilaboð til fjárfesta sem hafa fjárfest í félaginu í góðri trú. Á meðan ríkissjóður er hluthafi eru fjárfestar háðir duttlungum hins pólitíska valds. Hér í grein fyrir einu og hálfu ári var farið yfir þessa duttlunga. Það er því ánægjulegt að nýr fjármálaráðherra skuli vera svo afgerandi varðandi áframhaldandi sölu bankans en auðvitað má spyrja hvort hann hafi pólitískan stuðning fyrir þessu innan samstarfsflokkanna.
Gullgæsin hennar Ingu seld?
Sú Inga Sæland sem ræddi söluna í aðsendri grein í Morgunblaðinu 7. júní síðastliðinn var nokkuð afdráttarlaus.
„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur tvívegis selt hlut ríkisins í Íslandsbanka undir markaðsverði og það liggur fyrir að lög voru brotin í síðara söluferlinu. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin lagt ofuráherslu á að koma gullgæsinni, og milljörðunum sem hún verpir árlega, til vina sinna í fjármálaelítunni. Íslenskur almenningur skal sko ekki fá að njóta ávaxtanna af eigum sínum þegar vel gengur heldur má hann taka á sig tapið þegar illa gengur eins og dæmin sanna. Ég tel það algjörlega óforsvaranlegt á þessum tímapunkti að ráðast í sölu á Íslandsbanka. Mikill meirihluti samfélagsins hefur margsinnis lýst yfir andstöðu sinni við að eftirstandandi hlutur ríkisins verði seldur.“
Svo mörg voru þau orð en Inga hefur verið dugleg í gegnum tíðina að andmæla sölu Íslandsbanka. Ljóst er að formaður Flokks fólksins þarf að kyngja því að selja gullgæsina svo að fjármálaráðherra geti staðið við sín orð! Ekki nóg með það heldur var þessi sama sala og framkvæmd hennar ein helsta ástæað þess að Inga Sæland flutti vantraust á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 17. apríl á síðasta ári eins og lesa má hér í ræðu hennar.
Þá er búið að gera Ragnar Þór Ingólfsson að formanni fjárlaganefndar Alþingis. Hann hafði sig mjög í frammi sem formaður Verslunarmannafélags Reykvíkur vegna sölunnar á sínum tíma en þá fordæmdi stjórn VR viðbrögð Íslandsbanka og Ragnar Þór minnti á að félagið væri með milljarða í eignastýringu og viðskiptum við Íslandsbanka og aðra aðila. Hann sagði við það tækifæri í fjölmiðlum að í niðurstöðu stjórnar VR felist hótun um að hætta viðskiptum við bankann bregðist hann ekki betur við stöðu mála. Nú verður hann einn af lykilmönnum í sölunni!
Söluferlið kynnt í þinginu á vormánuðum
Daði Már sagði í Silfrinu á mánudaginn að stefnt sé að því að næsta sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka fari fram í ár. Hann tók jafnframt fram að söluferlið yrði kynnt í þinginu á vormánuðum. Áfram er stefnt að almennu útboði en nánari útfærsla á söluferlinu er í vinnslu. Ríkissjóður á nú 42,5% í Íslandsbanka en gæti verið komið í 45% með eigin bréfum bankans.) Virði bankans núna er um 229 milljarðar kr. sem gerir hlut ríkissjóðs í dag tæplega 100 milljarða kr.
Fjármálamarkaðurinn skiptir okkur miklu, án fjármálaþjónustu þrífst ekki nútímalegt efnahagslíf. Það er því eðlilegt að spyrja sig hvort breytingar séu fram undan á fjármálamarkaði og hvers eðlis þær verði? Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga segir í samtali við ViðskiptaMoggann í vikunni að eignarhald Landsbankans á TM skekki markaðinn. Skagi, sem er móðurfélag tryggingafélagsins VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa, hefur verið í miklu umbreytingarferli í kjölfar sameiningar VÍS og Fossa, sem lauk í október 2023 og eðlilega spyrja fjárfestar í Skaganum og öðrum skráðum fjármálafyrirtækjum hvaða tækifæri séu á markaðinum sem ríkið drottnar enn yfir.
Heldur áfram vinnu síðustu ríkisstjórnar
Eins og marga rekur eflaust minni til þá hafði síðasta ríkisstjórn áformað almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári en sölunni var slegið á frest eftir að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í október. Áður hafði Alþingi samþykkt lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. í júní síðastliðnum. Lögin kveða á um að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði, eða útboðum.
Það er án efa ein af forsendum fyrir skuldaþróun í fjárlagafrumvarpinu að horfa til þess að lokið verði við sölu á eftirstandandi 42,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á næsta ári. Bent hefur verið á að það geti kallað lántöku sem samsvarar með 4 til 5 milljarða króna árlegum vaxtakostnaði verði hluturinn ekki seldur. Það þarf kannski að meta þegar rætt er um gullgæsina.
Spurður hvers vegna þörf sé á nýjum lögum um söluferlið í ljósi þess að þingið samþykkti lög um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka síðasta sumar segir Daði Már: „Á þessu stigi máls er ekki unnt að tjá sig að öðru leyti en því að í undirbúningi eru breytingar á gildandi lögum sem snúa að því að tryggja enn betur árangursríkt útboð,“ svarar nýr fjármálaráðherra skriflegri fyrirspurn Viðskiptablaðsins um Íslandsbankasöluna.
Hvað verður um undirbúningsvinnu Bjarna?
Rifja má upp að ríkissjóður seldi 35% hlut í bankanum fyrir 55 milljarða króna með almennu hlutafjárútboði sumarið 2021 og 22,5% hlut fyrir 52,7 milljarða í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi í mars 2022.
Til að svara gagnrýni á það útboð, sem kostaði meðal annars Birnu Einarsdóttur forstjóra Íslandsbanka, starfið ákvað fjármála- og efnahagsráðuneytið síðasta sumar að ganga til samninga við þrjá aðila, Barclays, Citi og Kviku, um að vera umsjónaraðilar í fyrirhuguðu útboði ríkisins á hlutum í Íslandsbanka. Þá samdi ráðuneytið við fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans um að vera sjálfstæður fjármálaráðgjafi til að veita ráðuneytinu ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Ekki liggur fyrir hvort breytingar verð þar á en sem verður sala á hlut ríkisins pólitískt jarðsprengjusvæði.