c

Pistlar:

23. janúar 2025 kl. 11:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pössum banka betur en börn

Það er þyngra en tárum taki að lesa frásagnir af því sem henti börnin á leikskólanum Mánagarði í október síðastliðnum. Hátt í fimmtíu börn veiktust þá eftir að þau borðuðu E. coli-mengaðan mat og líf nokkurra barna hékk á bláþræði eftir matarsýkinguna. Erfið og langvarandi sjúkdómsdvöl tók við og hætta er á að sum barnanna glími við eftirköst veikindanna um ókomin tíma. Viðar Örn Eðvarðsson, sérfræðingur í nýrnalækningum barna, sagði í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins að ástand sem þetta væri það sem hann hefði mest óttast þegar hann kom heim úr sérnámi.
Nú hefur verið upplýst að matráður leikskólans hafði ekki hlotið neina menntun eða fræðslu um öryggi matvæla. Orsök hópsmitsins er rakin til rangs verklags við matreiðsluna og geymsluna á matnum. Foreldrar barnanna krefjast skýringa og ljóst er að tekist verður á um ábyrgð í þessu máli en rekstraraðili Mánagarðs, Félagsstofnun stúdenta, mun hafa gengist við ábyrgð.managarður

Röng forgangsröðun?

Þetta mál minnir á að íslenskt samfélag er ekki stórt og verður að forgangsraða eftir efnum og aðstæðum. Við reynum þó að halda uppi þróuðu samfélagi og ætlumst til þess að börnin okkar njóti þess besta sem völ er á. Fyrir alllöngu náðum við einstökum árangri þegar kemur að dánartíðni nýbura, mæðravernd og ungbarnaeftirliti. Við forgangsröðuðum rétt og hróður okkar hefur borist víða vegna þessarar stöðu. Það dugði ekki til fyrir börnin á Mánagarði. Hvernig má það vera? Getur skýringin verið sú að við vorum að horfa annað en til barnanna. Stundum er sagt að við virðum ekki rétt og þarfir barna nægilega mikið og þeir sem sinni umönnun þeirra finni það í launaumslaginu. Nokkuð er til í því en atvikið á Mánagarði vekur okkur einnig til umhugsunar um þá staðreynd að í þessu samfélagi hefur verið stöðugt lögð meiri áhersla á alls konar eftirlit, sem kann að virka undarleg áhersla nú þegar mikilvægasta eftirlitið augljóslega brást.

Hér er spurt í fyrirsögn hvort við pössum banka betur en börn. Hvað er átt við með því? Jú, við getum tekið bankakerfið sem dæmi um það mikla og kostnaðarsama eftirlit sem við erum tilbúin að setja upp, líklega helst með þeim rökum að ekki verði aftur samskonar bankahrun og síðast! Fáir hafa í raun trú á að svo verði, oftast eru það illa fyrirséðir atburðir sem valda mestu tjóni í viðskiptalífinu. Við höfum ákveðið að setja mikinn aukakostnað á bankakerfið, svo að nemur jafnvel tugum milljarða, til að fást við þessa hættu sem byggist á gömlum áhættuskilgreiningum. Við getum ekki breytt neinu af því það finnst ekki pólitískur vilji til að snúa ofan af þessu.

Illskiljanleg markmið menningarbyltingarinnar

Um leið höfum við sem samfélag tekið rækilega þátt í þeirri menningarbyltingu (woke) sem öllu hefur tröllriðið undanfarin áratug. Það hefur kostað alls konar stofnanir og embætti og íþyngjandi reglur og eftirlit. Þar virðumst við vera tilbúin að kosta miklu til, oft með mjög óljós og illskiljanleg markmið.
Við erum tilbúin til að setja á stofn ný embætti og stofnanir sem eiga að tryggja velferð barna þó að markmiðssetning og mælanlegur árangur af viðkomandi stofnun sé afskaplega óljós. Þannig hljótum við að spyrja hvort að embætti Umboðsmanns barna skili yfir höfuð miklu þegar kemur að brýnum hagsmunum barna? Er það ekki bara einhverskonar fínimannaembætti fyrir lögfræðinga eða siðfræðinga? Það þykir til vinsældar fallið að blása í herlúðra og fara í sérstök átök vegna málefna barna hjá hinu opinbera en skilar það í raun einhverju? Hver metur það? Hér hefur verið áður fjallað um hve illa okkur gengur að takast á við vanda óhreinu barna velferðarkerfisins.sandkassi+2

Rétt forgangsröðun

Nú síðast sjáum við kennara kvarta yfir samskiptum við foreldra en færst hefur í aukana að skólastarfsfólki sé hótað kæru þegar tekið er á agavandamálum innan veggja skólanna. Hvað gengur eiginlega á innan skólanna gætu margir spurt en formaður Skólastjórafélags Íslands segir ofbeldi gagnvart starfsfólki hafa aukist og að samskipti foreldra við skólana einkennist af meiri hörku en áður. Um leið kallar hann eftir samræmdum reglum um utanaðkomandi aðgengi að kennurum og skólastarfi og að nauðsynlegum úrræðum verði fjölgað. Ofan á þetta erum við stöðugt minnt á að þrátt fyrir auknar fjárveitingar í skólastarfið verður árangurinn lakari og lakari.

Allt þetta minnir okkur á að við verðum að taka skynsama og heiðarlega umræðu um forgangsröðun þegar kemur að börnum, þá á forsendum barnanna en ekki þeirra sem vinna við að sinna þeim.