Talsverðu púðri hefur verið eytt í að blasa lífi í sósíalíska baráttu á Íslandi síðustu misseri og vegna rausnarskapar skattgreiðenda hafa nokkrir einstaklingar haft lifibrauð af því þó að þorri kjósenda hafi ekki stutt framtakið. Utan um þá baráttu (eða ættum við að segja trúboð) hefur verið smíðaður flokkur sem fékk það mörg atkvæði í síðustu kosningum að hann á rétt á um 120 milljónum króna frá skattgreiðendum annað kjörtímabilið í röð til að halda pólitísku erindi sínu á lofti. Ekki fengu sósíalistar þingmenn nú frekar en í síðustu kosningum en þessir aurar ættu að duga til að sleikja sárin fram að næstu kosningum.
Sósíalisminn kallar á mikinn talanda og einræður eins og við þekkjum frá helstu leiðtogum hreyfingarinnar í gegnum tíðina. Sósíalískir leiðtogar hafa í gegnum tíðina haft tilhneigingu til að tala lengi og mikið, sjálfsagt í von um að koma boðskapnum rækilega til skila. Fidel Castro talaði helst ekki skemur en fjóra til fimm tíma enda svo sem enginn að flýta sér í vinnu á Kúbu. Það fer því vel á því að stofnandi Sósíalistaflokks Íslands hafi notað peningana frá skattgreiðendum til þess að stofnað utan um sig útvarpsstöð og nú er talsverð þáttagerð undir nafni Samstöðvarinnar þar sem finna má þætti eins og Rauða borðið og Synir Egils þar sem stofnandinn talar eðlilega mest allra.
Í upphafi skyldi endinn skoða
En oft vefst fyrir venjulegu fólki að halda sig á hinni réttu braut sósíalískrar hugsunar, því eitt er kenning og annað raunveruleiki. Til að sjá þennan mun er kannski best að horfa til upphafsins en örlög hinnar sósíalísku hreyfingar hafa mótast af endalausum klofningi í fylkingar, rétt eins og má segja um ýmis trúarbrögð.
Allir áhugamenn um heimspeki og stjórnmálafræði ættu að þekkja Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) en hann var fransk-svissneskur heimspekingur sem lifði þá tíma sem í seinni tíð hafa verið nefndir upplýsingaöldinni. Hindurvitni og hjátrú var á útleið og þegar þarna var komið sögu voru stærri kenningar um samfélagið að öðlast vinsældir og Rousseau átti eftir að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Segja má að stjórnmálaviðhorf hans hafi meðal annars haft áhrif á frönsku byltinguna, tilurð sósíalisma og jafnvel þjóðernishyggju sem varð undirrótin að hernaði Napóleons Bonaparte. Það er líklega djarft að segja að heimurinn hafi ekki verið samur eftir lífshlaup Jean-Jacques Rousseau en hugmyndafræðileg gerjun þess tíma mótar en hina pólitísku átakasögu. Og þar skipti Rousseau sannarlega máli.
Frjáls maður í hlekkjum
Ef til vill ber fræg tilvitnun í bók Rousseau, Samfélagssáttmálann (Le Contrat Social), best vitni um arfleifð hans sem hugmyndafræðings hinna róttæku byltingarmanna: „Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“. Með þessum orðum var tóninn sleginn fyrir hugmyndabaráttu hinna undirokuðu, fólksins sem telur að það sé fangi eigin tilveru og fyrir vikið er Rousseau er án efa einn áhrifamesti heimspekingur stjórnmálasögunnar. Engin greining á hugmyndafræði nútímans getur hunsað hann og fáum dytti í hug að kenna stjórnmála- eða félagsfræði og sleppa umfjöllun um kenningar hans. Það má hins vegar deila um hve þróaður kenningaheimur hans um samfélagssáttmálann og almannavilja hafi í raun verið. Þarna átti að birtast upptaktur að réttlæti, jöfnuði, frelsi, almannahag, fullveldi og ekki síst vakti fyrir honum að tryggja að vilji almennings réði. Óvíst er að hugmyndir hans um beint lýðræði hafi séð fyrir valddreifingu nútímalegs þjóðfélags þó að nú séu hugsanlega komin þau tæki og tól sem þarf fyrir beint lýðræði.
Kenningar hans byggðu á ákveðinni sögulegri greiningu sem var ófullkomin að því leyti að sögulegar heimildir voru takmarkaðar á þeim tíma og rannsóknartími hans á því sviði skammur. Líf Rousseau sjálfs var óreiðukennt og oft mótað af utanaðkomandi áhrifavöldum en hann var að sumu leyti réttur maður á réttum tíma og kenningar hans fæddust jöfnum höndum í gegnum skáldsögur og lærdómsrit. Fyrir vikið getur vafist fyrir seinni tíma greinendum að aðskilja manninn, skrif hans og kenningar.
Ómögulegur faðir
Það er býsna margt eftirtektarvert við Jean-Jacques Rousseau og eitt er það að hann skrifaði mikið um uppeldismál en kaus eigi að síður að senda öll fimm börn sín á uppeldisheimili Parísar og það þrátt fyrir sár mótmæli móður barnanna. Rousseau lýsir sjálfum sér sem tilfinningaríkum manni og sagði í Játningum (Les Confessions) sínum að hann hafi tárast nálægt fallegum konum og segja má að honum hafi verið tíðrætt um líðan sína og tilfinningalíf sitt. Ekki fann hann hins vegar köllun hjá sér til að ala önn fyrir eigin börnum þó að hann játaði iðrun fyrir þessu framferði síðar.
Þeir Voltare og Rousseau voru samtímamenn og synir upplýsingarinnar þó að þeir nálguðust lífið með ólíkum hætti og að endingu voru upplýsingamenn of miklir raunhyggju- og rökhyggjumenn fyrir Rousseau. En öfugt við Voltare gerir Rousseau nær aldrei að gamni sínu, honum stekkur nær aldrei bros, skopskyn og fyndni á hann varla til. Það er meira í hálfkæringi sem Voltare gagnrýndi Rousseau fyrir bók hans um Emil (Émile) sem átti að vera kennslurit í uppeldisfræðum. Bók sem Símon Jóh. Ágústsson heimspekingur segir að hafi markað tímamót í sögu uppeldis og uppeldisfræði og áhrifa þess gætir enn. Voltare á hinn bóginn sagði það undarlegt að fá leiðbeiningar um uppeldismál frá manni sem hefði sent öll fimm börn sín á fósturheimili. Þetta fór illa í Rousseau sem í framhaldinu ákvað að skrifa Játningar sínar þar sem hann er að reyna að útskýra lífshlaup sitt og afsaka um leið framferði sitt.
Faðir byltingarinnar
Það er hins vegar engin spurning að Rousseau var faðir þeirra byltingarkenndu sjónarmiða sem knúðu frönsku stjórnarbyltinguna áfram enda lét byltingastjórnin sækja líkamsleifar hans og jarða í þjóðargrafreitnum. Það breytti engu þó hann sjálfur teldi sig umbótamann fremur en byltingamann.
Þrátt fyrir að Rousseau sé þekktur sem félags- og stjórnmálaheimspekingur, líkist hugsun hans og nálgun ekki endilega því sem við eigum að venjast hjá fræðimanni. Hann skrifaði ekki aðeins ritgerðir heldur einnig skáldskap, sjálfsævisöguleg verk, eins og Játningar hans eru til marks um. Jafnvel tónverk hans segja þessa sögu en hann hafði mikinn metnað á því sviði. Eftir Rousseau liggja sjö óperur sem sumar hverjar voru nógu góðar til að fá athygli tónskálda eins og Gluck og Mozart.
En það er annar og undarlegri vandi við að draga saman hugsun Rousseau. Það er ekki svo að verk hans séu okkur framandi og fjarlæg, eins og gæti verið raunin hjá ýmsum öðrum hugsuðum. Hugmyndir hans endurspegla hins vegar margar af okkar dýpstu samfélagsskuldbindingum og hugsunarmynstrum. Þær standa okkur jafn nálægar og margar klisjur sem heyrast í raunveruleikasjónvarpsþáttum og ráðin sem boðið er upp á í ákveðnum tegundum sjálfshjálparbóka. Þær eru sameiginleg mynt mikillar pólitískrar orðræðu sem fellur sósíalistum vel í geð. Það var ekki að undra að kommúnistaleiðtoginn Einar Olgeirsson teldi að rit Rousseau væru svo mikilvæg að hann hóf að þýða þau fyrir íslenska alþýðu.
Rousseau skipti sjálfur tvisvar um trú en gat hæðst að trúleysingjum fyrir trúarskoðanir sínar og um leið að kristnum mönnum. Að sumu leyti má segja að þær skoðanir sem hann aðhylltist hafi orðið að staðlaðri „veraldlegri“ trúarjátningu, haldið á lofti af fólki sem segist vera „andlegt en ekki trúarlegt“.
Skilaboð úr fortíðinni
Það sem hugsuðir fortíðarinnar skilja eftir handa okkur er að hluta myndlíking, að hluta goðsögn og að hluta saga. Thomas Hobbes var ekki öfundsverður en honum fannst lífið viðbjóðslegt, grimmt og stutt. John Locke var ósammála því og sagði að það væri þar sem fólk lærði fyrst hvernig á að eiga hluti. Í þessari röð kom það í hlut Jean-Jacques Rousseau að lýsa tilvistinni sem stað þar sem fólk fæddist frjálst, áður en það festist í hlekkjum. Þessi myndlíking er mjög lifandi í tali íslenskra sósíalista í dag. Því má segja að þeir hafi fengið hjálp í Robert Nozick sem hélt því fram að fólk væri svo örvæntingarfullt við að flýja lífið að óumflýjanleg afleiðing þess væri stofnun ríkis! Í hugum sumra sósíalista verður ríkið aldrei nógu stórt.
Margir hafa efast um hugmynd Rousseau um mannlegt eðli, talið hana ranga eða of hugmyndafræðilega, eða í það minnsta hluta hennar. Hvaða sannanir eru til, spyrja gagnrýnendur, fyrir hugmyndinni um að menn séu góðir í eðli sínu en spillist í samfélaginu? Hvaðan kemur þessi hugmynd um hinn „náttúrulega mann,“ og það, frá manni sem upplifði náttúruna fyrst og fremst í gegnum sumarhúsavist hjá vinum sínum?