Nýskráningar í íslensku kauphöllina eru ekki algengar og það vekur alltaf eftirtekt þegar nýtt félag boðar komu sína þangað. Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður og stofnandi lyfjafyrirtækisins Coripharma, greindi frá því í samtali við Viðskipta-Moggann í síðustu viku að stefnt sé að því að skrá Coripharma á markað eigi síðar en árið 2026.
Það er ekki nýtt að rætt sé um hugsanlega skráningu Coripharma en hér hefur í tvígang í pistlum verið fjallað um Coripharma í Hafnarfirði sem hefur vaxið til þess að gera hratt frá stofnun árið 2018. Haustið 2023 var jafnvel rætt um að skrá félagið á þessu ári en nú virðast eigendur félagsins fremur horfa til næsta árs. Ef af verður þá yrði Coripharma annað lyfjafyrirtækið í Kauphöllinni en Alvotech var skráð þar árið 2022 og hefur reynst fjárfestum arðbært. Það má rifja upp að Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland, sagði í samtali við Hluthafaspjallið á efnisveitunni Brotkastinu í byrjun árs að frekari vaxtalækkanir gætu ýtt undir nýskráningar.
Bjarni segist í viðtalinu vera ánægður með hversu langt Coripharma er komið og telur fyrirtækið vera á þeim stað sem það stefndi að, að þróa og markaðssetja fimm ný lyf á ári. „Næsta skref er að skrá fyrirtækið á markað, en það fer eftir markaðsaðstæðum og því hvenær við náum stöðugum og jákvæðum rekstrarniðurstöðum. Ég myndi ekki vera hissa ef það gerðist árið 2026, en jafnvel fyrr,“ segir Bjarni.
Tveir heimar í lyfjaframleiðslu
Coripharma og Alvotech eru ólík að því leyti að annað framleiðir samheitalyf en hitt líftæknilíf. Til að útskýra muninn þar á má segja að líftæknilyf séu ný tegund lyfja sem eru framleidd með líftækni, oft með hjálp lífvera eða líffræðihönnunar. Þau eru oft með flókinn sameindarstrúktúr, svo sem prótein, antígen, eða DNA, og eru notuð til að meðhöndla ýmsa sjúkdóma, svo sem krabbamein eða sjálfsofnæmissjúkdóma. Mörg bólusetningarlyf sem notuð voru við COVID-19, sérstaklega mRNA-bóluefnin eins og Pfizer-BioNTech og Moderna, eru talin líftæknilyf. Þessi bóluefni nýta mRNA (messenger RNA) til að kenna líkamanum að búa til ákveðin prótein sem tengjast veirunni, sem hjálpar til við að framleiða ónæmissvar.
Samheitalyf (e. generics) eru hins vegar lyf sem eru eins samsett og upphaflegar lyfjavörur, en eru seld undir almenna nafninu eftir því að upphaflega efnin hafa fallið úr einkaleyfi. Samheitalyf eru oft ódýrari en upprunaleg lyf, en munurinn á virkni þeirra ætti að vera hverfandi. Í stuttu máli eru líftæknilyf flókin lyf sem framleidd eru með líftækni, en samheitalyf eru ódýrari útgáfur af upprunalegum lyfjum eftir að einkaleyfi hefur runnið út.
Fleiri lyfjafyrirtæki í kauphöllina
Svo vill til að Róbert Wessman, eigandi og frumkvöðull að Alvotech, er einmitt sami maðurinn og stýrði Actavis á sínum tíma en það er verksmiðjan sem Coripharma keypti. Bjarni var hins vegar hluti af fjárfestahópi sem sá tækifæri í að kaupa lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi eftir að starfseminni í Hafnarfirði hafði verið lokað. Það var eftir kaup ísraelska samheitarisans Teva á Actavis árið 2015 en í framhaldi þess var ákveðið að loka starfseminni.
Kaup Teva á Actavis eru almennt talin einhver verstu kaup sem gerð hafa verið í samheitalyfjageiranum en Teva hafði áður náð stórkostlegum árangri og orðið stærsti samheitalyfjaframleiðandinn í heiminum. En ytri þættir, eins og aukin samkeppni á samheitalyfjamarkaði, juku á vandamál félagsins sem og vafasamar stjórnunarákvarðanir. Kaupin á Actavis voru þar á meðal en strax árið 2017 var verð Actavis nánast afskrifað og starfsemi þess lokað um allan heim. Þetta er rifjað upp hér til að minna á að þetta er harður samkeppnisheimur. Sem kunnugt er þá var Actavis yfirtekið og afskráð úr íslensku kauphöllinni árið 2007.
Í samtali við Viðskipta-Moggann rifjar Bjarni upp að það var mikil sérfræðiþekking á Íslandi í lyfjaiðnaði, og þeir hjá Coripharma sáu tækifæri til að nýta þá þekkingu frekar en að láta hana hverfa. Í upphafi kom Bjarni að málum sem fjárfestir eftir að hafa hagnast mikið á samstarfi við bandaríska fjárfestinn Ken Peterson sem hafði stofnað Norðurál hér á landi en snúið sér að fjarskiptum að því loknu. Árið 2004 keyptu þeir Ken og Bjarni saman fjarskiptafyrirtæki, sem Bjarni byggði áratuginn á eftir. Þegar fyrirtækið var selt fyrir 610 milljónir dollara fyrir nokkrum árum hafði Bjarni því haft talsverða fjárfestingagetu sem hann nýtti meðal annars til að byggja upp Coripharma.
Yfir 10 milljarðar í fyrirtækið
Árið 2018 keyptu stofnendur Coripharma öll hús og innviði í Hafnarfirði af Teva, alls 17 þúsund fermetra. Með í kaupunum fylgdu öll tæki, þar á meðal gæðakerfið. Engin hugverk voru með í pakkanum. Bjarni lýsir því í viðtalinu að uppbygging Coripharma hafi ekki verið einföld, en að mikil fjárfesting hafi verið lögð í fyrirtækið. „Við höfum sett yfir 10 milljarða í að byggja þetta upp frá 2018 og það hefur gengið mjög vel,“ segir hann.
Það er auðvitað fagnaðarefni að menn sjá tækifæri til að byggja upp slíka starfsemi hér því að þrátt fyrir að framleiðsla lyfja sé oft ódýrari í löndum eins og Búlgaríu, Möltu eða Indlandi segir Bjarni að Coripharma hafi ákveðið að leggja áherslu á þróun hérlendis en hún mun eðli málsins samkvæmt ekki byggja á massaframleiðslu. Bjarni bendir á að ekki sé verið að keppa við lönd sem geta framleitt hundruð milljóna taflna á lágu verði. Fyrirtækið sérhæfir sig í flóknari framleiðsluferlum, þar sem lítið magn er framleitt en kröfurnar um nákvæmni og stöðugleika eru miklar.
Bjarni segir fullum fetum að einn helsti styrkleiki Coripharma sé orðstírinn sem íslenskt starfsfólk í lyfjaiðnaði hefur byggt upp. „Þegar lyf detta út af einkaleyfi þurfa lyfjasöluaðilar að velja samstarfsaðila fjórum árum fyrir þann tíma. Við byggjum á orðstír Actavistímans og höfum í dag níu af tíu stærstu lyfjasöluaðilum Evrópu sem viðskiptavini,“ útskýrir Bjarni.
Hann bætir við að ef Coripharma hefði verið stofnað frá grunni í öðru landi hefði verið ómögulegt að vaxa jafn hratt. Það er forvitnileg staðhæfing.