Það eina sem menn eru almennilega sammála um í dag er að heimurinn er rækilega klofinn og svo skautaður milli ólíkra sjónarmiða að mannkynið hefur nánast enga sameiginlega fótfestu þegar kemur að þekkingu og skilningi á því sem er að gerast í kringum okkur. Um leið og samfélagsmiðlarnir hafa búið til heima þar sem milljarðar manna mætast daglega virðist sýn og skoðun almennings á því hvað raunverulega er að gerast vera afskaplega ólík. Við erum því í einhverskonar þekkingarfræðilegu svartholi sem sogar til sín allar upplýsingar og skoðanir en skilar heldur litlum skilningi frá sér. Ein niðurstaða af þessu öllu er að fólk hættir að meta hvern og einn atburð eða tilvik sjálfstætt heldur verður fylgismenn einhverra sjónarmiða eða jafnvel tiltekinna einstaklinga. Það kallar svo á fylgisspekt sem getur blindað okkur sýn og tekur að lokum frá okkur alla gagnrýna hugsun. Þetta birtist í hverju umræðuefninu á fætur öðru.
Víkur þá sögunni að Donald Trump en um hann hefur verið mikið fjallað í pistlum hér. Hann er ruglarinn mikli eða ætti hugsanlega að segja afruglarinn mikli þar sem Trump verður ekki skilinn nema sem viðbragð við ferli sem hefur augljóslega leitt samfélög og hagkerfi í ákveðnar ógöngur.
Menningarleg hnignun
Þegar kemur að hagkerfinu er ekki annað hægt en að bera hann saman við Thatcher- og Reagan-tímabilið en þau komu bæði til sögunnar þegar hagkerfi Bretlands og Bandaríkjanna höfðu verið veikluð um leið og stórveldastaða þeirra var löskuð. Þegar Trump, 2.0-útgáfan, kemur fram er þrennt sem hann ætlar að breyta, eða laga, eins og hann sjálfur lítur á málin. Það er hin menningarlega hnignun sem felst í woke-ismanum og hefur ruglað marga í ríminu. Tungumálið hefur breyst og sumum finnst að réttindabarátta minnihlutahópa hafi tekið yfir samfélagið og ýtt venjulegu fólki til hliðar. Þetta er viðkvæmt umræðuefni sem gefur að skilja því enginn vill fara til baka til þess tíma þegar hagsmunir minnihlutahópa voru hundsaðir. En um leið finnst mögum að þessir hópar hafi tekið yfir umræðuna og almannarýmið og þrengt þannig að fólki sem almennt séð vill aðeins fá að vera í friði! Allt hafi þetta leitt til útgjaldaauka fyrir skattgreiðendur og ruglað sýn á hvar hinir raunverulegu hagsmunir velferðarkerfisins eru.
Ameríski draumurinn og hamingja
Annað sem Trump ætlar að laga er bandaríska hagkerfið og þá um leið viðskiptalífið sem hefur veitt mönnum tækifæri til að auðgast. Þar að baki er ameríski draumurinn sem gengur út á að hver og einn geti sótt sína hamingju þannig að hvorki standi ríkið í vegi þess né að það taki að sér að tryggja öllum hamingju. Trump hefur sína eigin aðferð til að nálgast þessa vegferð en það er mikill misskilningur að hann hafi ekki hugsað það til enda, þarna birtist lykilslagorð Trumps, gerum Bandaríkin mikil á ný (Make America Great Again). Það er útgangspunkturinn í allri hans stefnu.
Auðvitað er hamingja vandmeðfarið hugtak í þessu samhengi en hlýtur þó alltaf að vera einstaklingsbundin. Við sjáum öðru hvoru tilraunir til að mæla hamingjustig þjóða. Getur verið að það rugli mönnum sýn því sumar þessara þjóða, sem skora hátt í hamingjumælingu, eiga við veruleg innanmein að ræða eins og kom hér fram í síðasta pistli þegar rætt var um andlega uppsögn og bullstörf kulnandi samfélaga.
Stórveldi í sókn eða vörn?
Í þriðja lagi er Trump að reyna að verja stöðu Bandaríkjanna sem stórveldis. Hann nánast fikrar sig áfram eina og á æfingasvæðinu þegar hann byrjar að hrella þá sem hann hefur í fullu tré við hvort sem það eru Danir, Panama-búar, Kólumbíumenn eða hinir sofandi frændur í norðrinu, í Kanada. Nú síðast hefur hann fært sig til Miðausturlanda þar sem flestir eru orðnir vanir því að enga lausn sé að finna á 2000 ára gömlum hjaðningavígum. Trump orðar hugmyndir sem flestum virðast fráleitar, svo sem flutning fólksins frá Gaza. Þá eitthvert þar sem það sé ekki beinum átökum við Ísraelsmenn. Auðvitað er erfitt að sjá að það sé hægt og skilja stöðuna á Vesturbakkanum eftir óhreyfða en Gaza er auðvitað sviðin jörð. Hver á að byggja upp samfélagið þar og á Hamas að stýra öllu áfram eins og ekkert sé? Hefur einhver trú á að friður skapist í samfélögum þar sem vígasamtök eins og Hamas og Hizbollah ráða ferðinni?
Fráleitar lausnir?
Gaza-ströndin hefur verið eitt þéttbýlasta svæði Miðausturlanda en í öllum nágrannalöndunum er nóg landsvæði. Í sumum ríkjum þarna eru í gangi risaverkefni sem erfitt er að skilja. Þar á meðal hafa Egyptar sett sem svarar 60 milljörðum Bandaríkjadala í að byggja nýja höfuðborg í 45 kílómetra fjarlægð frá Kaíró. Hún er fjölmennasta borg Afríku og fjórtánda fjölmennasta borg heims, með 21 milljón íbúa á stórborgarsvæði sínu en löngu sprungin. Ríkisstjórnin ætlaði því að færa alla stjórnsýsluna til nýju borgarinnar auk þess sem þar átti að rísa fjármálamiðstöð. En framkvæmdin hefur lent í miklum mótbyr og Egyptar eru komnir í aðgerðaáætlun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sárvantar stuðning til að klára nýju höfuðborgina sem á að hýsa sex milljónir manna. Um öll Miðausturlönd eru verkefni sem þessi í gangi og þjóðflutningar þarna eru síður en svo nýir af nálinni.
Hugsanlega er Trump að sýna fram á að til þess að Gaza verði byggð upp aftur þurfi eitthvað að breytast og hann er jú maður hinna miklu breytinga eins og hann vill sýna heiminum og fjölmiðlarnir þreytast seint á að benda á.