c

Pistlar:

7. febrúar 2025 kl. 18:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað á að gera við afa sem býr á Gaza?

Margir þekkja heldur ótuktarlegt grínatriði frá spaugurunum í Fóstbræðrum sem hét, Hvað á að gera við afa? Eins og margar fjölskyldur kynnast þá geta komið þau augnablik að það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og grínið hjá Fóstbræðrum gekk að sjálfsögðu út á heldur öfgafulla útgáfu af búsetuúrræðum aldraðra, svo ekki sé meira sagt. Það dregur þó fram að ekki eru kostirnir alltaf augljósir eða góðir.gaza3

Af umræðunni að dæma eiga margir í stökustu vandræðum með að skilja hvað vaki fyrir nýjum forseta Bandaríkjanna en oft á dag koma nýjar tilskipanir sem virðast storka flestum lögmálum stjórnsýslu og ákvarðanatöku eins og hér hefur verið nokkuð rækilega fjallað um í pistlum. Donald Trump hefur meðal annars vikið að enduruppbyggingu á Gaza og hvað verði um þá íbúa sem þar eru nú eftir. Hefur hann spurt hvort þeir gætu viljað flytja annað en allt tal hans þar um hefur verið ákaflega óljóst og vakið mikla reiði meðal margra. Erfitt er að ráða í hvaða alvara býr að baki en endurreisn svæðisins verður líka gríðarlega flókin og kostnaðarsöm, sérstaklega með fólkið inni á svæðinu.

Rifja má upp að Gaza var hernumið af Ísrael árið 1967. Árið 2005 dró Ísrael hermenn og landnema frá ströndinni en þeir hafa haldið stjórn á lofthelgi Gaza, sjávarbakkanum og aðgangi farartækja á landi.

Valkvætt tilboð um flutninga

Allir sjá að það er fráleitt að efna til einhverra nauðungarflutninga á fólkinu á Gaza enda ekki að sjá að nokkur sé að tala fyrir því nema þá einhverjir hópar í Ísrael. Enginn fer í grafgötur með að næsta áratug verður lífið mjög erfitt á Gaza og hér hefur áður verið velt upp þeirri spurningu hvort einhverjir myndu taka tilboð um að flytja, til dæmis til hinnar nýju höfuðborgar Egyptalands gegn myndalegum stuðningi? Það liggur reyndar ekkert fyrir um það hvort Egyptar vilja taka þátt í slíkri aðgerð en þeir eru í miklum fjárhagsvandræðum og gætu verið opnir fyrir tillögum. Aðalatriðið er að tilboðið væri valkvætt en flestir ættu að átta sig á því að það er ekki heillandi að vera undir stjórn Hamas áfram. Þeir fjármunir sem fara um þeirra hendur fara fyrst til hermanna Hamas og síðast til almennings, það sýnir sagan okkur.

En með einhvers konar valkvæðu tilboði mætti sjá fyrir sér að hægt sé að bjóða fólkinu á Gaza upp á betra og friðsamara líf annars staðar á meðan á uppbyggingunni stendur. Þeir sem það vilja gætu síðan snúið til baka kjósi þeir það. Sú breyting gæti orðið strax en enginn veit hvernig gengur að byggja upp Gaza enda með öllu óljóst hver á að gera það því mikla fjármuni þarf til þess. Ef marka má orð og athafnir Trumps ætlar hann ekki að fara kosta bandarískum skattpeningum til þess.gazarustir

Um 70% mannvirkja skemmd eða eyðilögð

Með því að nota gervihnattagögn áætluðu sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna í síðasta mánuði að 69% mannvirkja á Gaza hafi skemmst eða eyðilagst, þar á meðal yfir 245.000 heimili. Alþjóðabankinn áætlaði tjónið upp á 18,5 milljarða dala eða næstum samanlagða landsframleiðslu á Vesturbakkanum og Gaza árið 2022.

Áætlað er að yfir 50 milljónir tonna af rusli séu í rústunum á Gaza. Um það bil 12 sinnum stærri haugur en Stóri pýramídinn í Giza. Með yfir 100 flutningabíla í fullri vinnu myndi það taka meira en 15 ár að hreinsa rústirnar og keyra ruslið í burtu. Lítið er um opið svæði á þessu þrönga strandsvæði sem var heimkynni um 2,3 milljóna Palestínumanna áður en átökin hófust. Það verður því flókið að flytja allt ruslið á brott vegna þess að það inniheldur mikið magn af ósprungnum sprengjum og öðrum skaðlegum efnum, auk þess sem gera má ráð fyrir að mörg lík séu ófundin. Heilbrigðisráðuneyti Gaza segir að þúsundir manna sem létust í loftárásum séu enn grafnar undir rústunum.

Það mun kosta gríðarlega fjármuni að endurbyggja Gaza en áður en til átakanna kom höfðu margar þjóðir, sérstaklega í Miðausturlöndum, látið mikið fé renna þangað. Svæðið var þokkalega sett með spítala sem höfðu að mestu verið byggðir fyrir erlent fé. Þeir eru mikið skaðaðir núna og spurningin hvort sömu aðilar vilja endurtaka leikinn og fjármagna nýja?gasamynd

Palestínumönnum skákað til og frá

Um leið er spurning hvaða lausn ráðandi ríki á svæðinu, svo sem Tyrkland og Saudi Arabía, sjá fyrir sér. David M. Friedman, sem var sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael á árunum 2017 til 2021, benti á í færslu á X að um 5,5 milljónir sýrlenskra flóttamanna fóru til nágrannalandanna, þar á meðal Tyrklands, Egyptalands og Jórdaníu, í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Nú undrast hann að enginn skuli bjóðast til að taka við einum einasta flóttamanni frá Gaza. „Hræsnin er hrífandi, þessar þjóðir segjast hafa áhyggjur af Palestínumönnum en munu ekki lyfta fingri til að hjálpa þeim,“ skrifar hann.

Það er ekki nýtt að Palestínumönnum sé skákað til og frá á þessu svæði og sjaldnast hafa þeir neina kosti. Yfirvöld í Kuwait sendu 300.000 Palestínumenn úr landi eftir stríðið 1991 vegna stuðnings þeirra við Saddam Hussein. Um sama leyti ráku Saudi-Arabar marga úr landi. Gaddafi sendi um 30.000 Palestínumenn úr landi árið 1995 og áður höfðu þeir verið reknir frá Líbanon og Jórdaníu eftir að hafa tekið þátt í undirróðri og byltingarstarfi. Írakar ráku um 25.000 Palestínumenn úr landi árið 2003.gaza

Dýr endurbygging heimsins

Heimurinn mun fá mörg endurbyggingaverkefni í hendurnar á næstu árum. Talið ert að það kosti á milli 10 og 20 milljarða bandaríkjadala að endurbyggja Sýrland. Kostnaðurinn við endurbyggingu Úkraínu verður ábyggilega á bilinu 100 til 150 milljarðar dala. Til samanburðar er áætlað að endurbygging Hollywood (og LA) eftir skógareldana kosti um 150 til 200 milljarða dala. Eins og önnur persóna úr Fóstbræðrum sagði: Á ég að gera þetta!