c

Pistlar:

16. febrúar 2016 kl. 13:22

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Tekur sjórinn lengur við?

Upp úr 1980 voru hinir sovésku Lada bílar mjög vinsælir hér á landi. Á sama tíma urðu landanir rússneskra verksmiðjutogara algengari hérlendis. Áhafnir þeirra höfðu það gjarnan sem aukaiðju að kaupa gamlar Lödur af Íslendingum. Bílarnir voru í kjölfarið fluttir yfir hafið til heimalandsins þar sem skortur var á varahlutum.

Lödurnar voru svo rifnar niður í hafi, hirt það sem nýtilegt var og restinni hent í hafið. Sjálfur var greinarhöfundur á sjó á þessum árum og hann man eitt vorið þegar verið var að gera skipið klárt til veiða, að járnúrgangur var hífður upp á dekkið úr vélinni. Þessu járnarusli var ekki landað til endurvinnslu eins og nú tíðkast, heldur var því hent í hafið þegar komið var út í Faxaflóann. Enginn kippti sér upp við þetta enda var tíðarandinn sá að „lengi tæki sjórinn við“. Rusleyjan, sem nú flýtur á Kyrrahafinu, margfalt stærri að flatarmáli en Ísland, er æpandi mótsögn þess spakmælis.

Maríneraður fiskur í plasti!
En járnúrgangur er ekki endilega það versta sem fyrirfinnst í hafinu. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF) er 1 tonn af plasti í hafinu fyrir hver 5 tonn af fiski. Samkvæmt sömu skýrslu er því haldið fram að árið 2050 verði meira af plasti í sjónum en af fiski! Þetta kom m.a. nýlega fram í Landanum á RÚV. Hefur einhver áhuga á að snæða maríneraðan fisk í plasti?

Ef gengið er um fjörur landsins má nær alls staðar sjá merki um plastúrgang. Jafnvel á afskekktum stöðum eins og á Hornströndum er fjaran þétt setin slíkum úrgangi. Auk þess má finna plastagnir í hafinu sem ekki sjást, eða svokallað örplast. Það verður m.a. til þegar plastið brotnar niður í náttúrunni. Einnig getur þetta ósýnilega plast komið úr þvottavélum okkar,  t.d. þegar flíspeysa er þvegin, og endað í hafinu. Litlar agnir sem þessar eiga greiðari leið inn í lífverur eins og fisk sem þýðir að plastefnið endar í fæðukeðju okkar, jafngeðslegt og það nú er.

Þegar gengið er í gegnum matvöruverslun má sjá að nær allar vörur eru í plastumbúðum. Flest handleikum við því plast umhugsunarlaust ótal sinnum á dag. Fáir gera sér hins vegar grein fyrir því að plastúrgangur er ein mesta mengunarvá nútímans. Tæplega 80 milljónir tonna af plastumbúðum eru framleiddar á ári hverju á heimsvísu. Vandamálið er að árlega enda 25 milljónir tonna úti í náttúrunni. Það tekur plast svo allt að 500 árum að leysast upp í umhverfinu þannig að vandamálið er mjög langvarandi.

Verður sjávarfang talið heilsuspillandi?
Þessi þróun verður að teljast sérstaklega alvarleg fyrir Íslendinga, þar sem sjávarútvegur er einn okkar stærsti atvinnuvegur. Öruggt er að eitthvað af öllu þessu plasti í hafinu endar í fæðukeðju okkar. Sú litla þekking sem er fyrir hendi á þessu sviði bendir til þess að hér sé veruleg heilsuógn á ferðinni. Hve mikil veit enginn, enda eru rannsóknir á þessu sviði takmarkaðar. Ef fram fer sem horfir, er sá möguleiki fyrir hendi að sjávarfang verði flokkað sem heilsuspillandi þegar fram líða tímar. Orðatiltækið lengi tekur sjórinn við, á því ekki við lengur.

Hvað er til ráða?
Lausnin felst í því að draga úr notkun plastumbúða og að endurvinna það plast sem er í umferð. Plast er flokkað á heimili greinarhöfundar og það kemur honum ævinlega jafnmikið á óvart hve það er mikið. Hvað hafið varðar er spurningin jafnvel hvort ekki þurfi að reyna að „veiða“ plastið úr því. Margir ímynda sér að hafið í kringum landið sé hreint og út á það gengur markaðssetning íslenskra sjávarafurða. Það er gagnrýni vert að stjórnvöld skuli lítið sem ekkert hafa gert til að láta rannsaka og kortleggja þetta vandamál. Fjörurnar hafa t.d. verið hreinsaðar af sjálfboðaliðum þar sem ríkið hefur ekki lagt neitt til.

Spurning um hugarfar og áherslur
Við höldum gjarnan að mengunarógnin sé meiri annars staðar en hjá okkur. Með þessu hugarfari siglum við sofandi að feigðarósi þrátt fyrir að fólk sé almennt meðvitaðra en áður um umhverfismál. Skoðanakannanir sýna enda að 90% landsmanna eru jákvæðir gagnvart endurvinnslu. Viljinn til að flokka plast ætti því að vera fyrir hendi. 

Í máli Helga Lárussonar, framkvæmdastóra Endurvinnslunnar, á morgunverðarfundi Samtaka iðnaðarins í janúar, kom margt athyglisvert fram um endurvinnslu hér á landi. Hann sagði m.a. að þegar væri búið að virkja þá endurvinnslu sem gæfi af sér en það sem ætti eftir að endurvinna væri mun dýrara í framkvæmd og sú staðreynd ylli ákveðinni tregðu. Hann sagði einnig að stóriðjufyrirtækin á Íslandi stæðu sig vel í endurvinnslu og að flest þeirra væru að endurnýta 95% af sínu endurkasti. Ál er sérstaklega vel fallið til endurvinnslu enda eru um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum síðan 1888 enn í virkri notkun. Um 90% af áldósum hér á landi rata í endurvinnslu, þannig að Íslendingar standa mjög framarlega bæði í framleiðslu á áli og endurvinnslu þess.

Við Íslendingar þurfum að leggja aukna áherslu á umhverfismál, endurvinnslu og bætta umgegni um náttúruna á komandi árum. Þessi mál varða bæði almenning og atvinnulíf þar sem  sjávarútvegur og ferðaiðnaður þrífast á hreinleika náttúrunnar. Síðast en ekki síst þurfum við að reka ábyrga stefnu á þessu sviði gagnvart komandi kynslóðum.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira