c

Pistlar:

2. mars 2016 kl. 14:01

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Margföld áhrif ferðamennsku

Ferðaiðnaðurinn hér á landi vex með undraverðum hraða. Samkvæmt nýrri spá Samtaka ferðaþjónustunnar má reikna með að heildargjaldeyristekjur í ferðaþjónustunni á þessu ári muni nema tæplega 370 milljörðum króna. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að uppbygging innviða hefur ekki fylgt eftir þessari hröðu þróun og vandamálin blasa því víða við. Mikið er rætt um vaxtarverki ferðageirans en minna fer fyrir umræðunni um umhverfisáhrif greinarinnar.

Gríðarleg flugmengun
Flugvélar eru orkufrekustu farartækin okkar og jafnframt þau sem menga mest. Flugið mengar t.d. margfalt á við stóriðjuna hér á landi en fæstir gera sér grein fyrir því. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af koltvísýringi (CO2) að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé þetta heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin.

Við þetta bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri, m.a. vegna þess að mengun flugvéla leiðir beint í ósonlagið. Stóru flugvélaframleiðendurnir, Airbus og Boeing, eru reyndar að þróa nýjar gerðir þotuhreyfla sem hugsanlega munu ekki þurfa á kolefniseldsneyti að halda eins og nú er. Spennandi verður að fylgjast með þeirri framvindu.

Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af CO2 út í andrúmsloftið árið 2010. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna, en þar er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis. Því er ljóst að ferðaiðnaðurinn losar margfalt meiri koltvísýring en aðrar greinar hér á landi og er þá ótalin sú losun sem tengist bílaleigubílum ferðamanna.

Vegvísir í ferðaþjónustu
Veigamikil stefnumótun í ferðaiðnaðinum liggur fyrir. Til að stuðla að farsælli þróun í ferðaþjónustu á Íslandi tóku iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, og Samtök ferðaþjónustunnar nýlega höndum saman um mótun stefnu í ferðaþjónustu til lengri tíma með áherslu á sjálfbæra þróun. Stefnan gengur undir nafninu Vegvísir í ferðaþjónustu. Helstu markmiðin eru að tryggja jákvæða upplifun ferðamanna, aukna dreifingu þeirra um landið, arðsemi greinarinnar og jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar.

Vegvísirinn inniheldur háleit markmið og aðgerðaáætlun um sjálfbærni. Framkvæmdir hafa hins vegar staðið á sér og málsmetandi menn telja að sömu vandamálin blasi við í dag og gerðu fyrir 10 árum. Deilt hefur verið um fjármögnun þeirra aðgerða sem eru nauðsynlegar til að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna og hugmyndir um svokallaðan ferðamannapassa hafa fallið í grýttan jarðveg. Ljóst er því að þessi mál eru í ákveðnu öngstræti. Nýlega var svo Stjórnstöð ferðamála sett á laggirnar en hlutverk hennar að samræma aðgerðir í ferðaþjónustunni.

Varhugaverð þróun
Erlendis hefur hins vegar verið varað við því að ferðaiðnaðurinn hér á landi sé orðinn að fjöldaiðnaði og því hafi dregið verulega úr gæðum hans hér. Engin stefna virðist vera til um það hve marga ferðamenn eigi að fá til landsins eða þá hvers konar ferðamönnum skuli helst sóst eftir. Ferðamönnum fjölgar því stefnulaust frá ári til árs. Þetta er auðvitað uppgrip fyrir flugfélög, hótel og önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Hins vegar flokkast náttúra Íslands, og þá kannski sérstaklega vinsælir ferðamannastaðir, undir takmarkaða auðlind.

Átroðsla lands vegna erlendra ferðamanna er vaxandi vandamál um allt land. Vinsælir ferðamannastaðir ráða orðið illa við ásókn og umferð. Hér má nefna staði eins og Landmannalaugar, Hveravelli, Geysi og Látrabjarg. Greinarhöfundur var á ferð við Látrabjarg í fyrra og þar gengu ferðamenn um á forarstígum alveg fram á bjargbrún þar hvergi mátti sjá öryggisgirðingar.

Bygging þar til gerðra göngustíga er lausn á hluta þessa vanda en skipulagstengd uppbygging hefur víða setið á hakanum vegna fjárskorts. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt hve lítið af heildartekjum ferðaiðnaðarins skilar sér til þeirra í formi skatttekna og því hafa þau takmarkað fjármagn til slíkra framkvæmda. Ein lausn gæti verið einhvers konar kvótakerfi þar sem aðgangur yrði takmarkaður á vinsælum stöðum eins og þekkist víða erlendis varðandi náttúruperlur.

Hugtakið harmleikur almenninganna (e. Tragedy of the commons) kemur upp í hugann í þessu sambandi en það er áberandi hugtak í umræðunni um sjálfbæra þróun. Hugtakið er notað til þess að skýra hvers vegna sameiginlegar auðlindir eru oft nýttar óhóflega af einstökum aðilum, ef miðað er við heildarhagsmuni samfélagsins. Ein birtingarmynd þessa vandamáls er sú að sameiginlegar auðlindir eru ofnýttar af fyrirtækjum sem hafa óskert aðgengi að þeim. Þetta virðist allt ríma vel við þær afleiðingar sem nú sjást af þeirri ferðamannastefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár.

Hrópandi tómlæti
Í allri þeirri vinnu sem hefur verið unnin í sambandi við stefnumótum ferðaþjónustunnar er ekki að finna einn staf um losunarmarkmið. Þetta er undarlegt þar sem fyrrnefndur Vegvísir leggur mikla áherslu á náttúruvernd og sjálfbærni. Fjöldi ferðamanna á þessu ári verður líklegast um 1,5 milljónir og af þeim hlýst veruleg mengun með komu flugvéla til landsins, bílaleigubílum, auk átroðslu lands og álags á vegakerfi.

Áhugavert er að velta því fyrir sér af hverju þessi hlið málsins er ekki rædd á sama hátt og gert er um aðrar greinar. Er ferðaiðnaurinn undanþeginn umræðunni um umhverfismál, eru menn blindaðir af „gullæðinu“ eða hefur þessi efnisflokkur einfaldlega gleymst í öllum látunum? Er ekki sjálfsagt að gerðar séu sömu kröfur um ferðaiðnaðinn og gerðar eru til annarra atvinnugreina um umhverfisvernd?

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira