c

Pistlar:

8. maí 2018 kl. 10:05

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Hlýðin þjóð í vanda

Íslendingar hafa ekki talið sig hlýðna þjóða, að minnsta kosti ekki frá 1918, þegar þjóðin braust undan valdi hins dansks embættisvalds. Það skref hefur þó verið stigið til lítils, ef hið íslenska embættisvald ætlar að færa okkur undir skrifræðið í Brussel með síendurteknu minni háttar valdaafsali upp í eitt stórt. Burtséð frá fyrstu samningunum milli EFTA og ESB hafa orkulögin frá 2003, þegar við gengum inn í innri markað ESB með raforku verið mestu mistökin. Þau mistök sjá flestir í dag, en eigum við þá nú, þegar knúið er á um innleiðingu þriðja orkupakkans sem kveður á um stofnun ACER að vera hlýðin eða segja, nú er of langt gengið?

Stofnendur Landsvirkjunar voru framsýnt fólk. Þeir gengu svo frá í hinum upphaflegu lögum um Landsvirkjun, að fyrirtækið skyldi aðeins ná inn eðlilegum arði af sölu orku til almennings, en orka til stóriðju yrði á því hærra verði sem meira gengi á auðlindina og fara þyrfti í dýrari virkjanir. Á þennan hátt var það hinn almenni notandi sem naut þess þegar virkjanir afskrifuðust og auðlindarentan fór að koma fram. Þetta hafði í för með sér, að þó munur stóriðjuverðs og almenns verðs væri mikill í upphafi, þá mundi það jafnast. 

Þetta verðlagningakerfi var illu heilli lagt af árið 2003, þegar ný Orkulög voru sett og hin gömlu lög um Landsvirkjun felld úr gildi. Eftir það skal Landsvirkjun koma fram sem hvert annað einkafyrirtæki og ákveða sjálft sína verðlagningu, en má ekki mismuna viðskiptavinum. Almenningur má ekki njóta auðlindarentunnar lengur, hún skal nú rukkuð inn með rafmagnsverðinu og renna síðan í sjóði eigenda. Menn úr stjórnkerfinu spyrja síðan: „Hver ákvað þetta?“ Svarið er: Við ákváðum að láta ESB ráða þessu.

Þriðji orkupakkinn er frá 2009 og meginefni hans er mun strangari markaðsvæðing hér eftir en hingað til. Raforka er á engan hátt venjuleg markaðsvara. Leið þess gegnum raforkunetið verður ekki rakin, en það er hægt að stýra nákvæmlega hvernig peningarnir fara frá þeim sem kaupir til þess sem selur. Það hafa menn nýtt til að koma sér upp eftirlíkingu af frjálsum markaði, þar sem markaðsöflin eru nýtt til að ná fram mestu mögulegu hagræðingu í vinnslu og sölu rafmagns. Þetta hefur sýnt sig að ganga afar vel í orkukerfum eins og því sem er í ESB, en það hefur líka sýnt sig, að það gengur ekki vel þar sem menn hafa jafn hreint vatnsorkukerfi og hér. Þar verður markaðurinn ófrjáls og þvingaður og hætt við margs konar hnökrum á starfsemi hans. 

Besta leiðin til að ná fram hagræðingu í vinnslu rafmagns hér á landi er að stjórna vatnsnotkuninni með hjálp flókinna bestunarforrita líkt og Landsvirkjun gerir. Markaðsvæðing getur engu bætt við þá hagræðingu, en fjölgar hins vegar möguleikum til misnotkunar, sem kallar á flókið eftirlit og aukinn kostnað. Landsvirkjun hefur að auki starfað undir því aðhaldi sem samkeppni um erlenda stóriðju hefur skapað um langt skeið og þess vegna náð að byggja upp afar hagkvæmt kerfi. 

Markaður með raforku í takti við þriðja orkupakka ESB er ætlað að valda hagræðingu á þann hátt, að þær upplýsingar sem felast í hráefnisverðum, framleiðslukostnaðarverðum og markaðnum feli í sér hvata til að sú aflstöð sem getur aukið orkuvinnsluna á hagkvæmastan hátt samkvæmt breytunum hér að ofan, er ræst þegar þörf skapast. Markaðurinn vinnur þannig eins og bestunarforrit gera, en hann vinnur á allt öðrum upplýsingum en þarf til að besta vatnsorkukerfið okkar. Það getur því ekki leitt til annars en óhagræðis að láta þennan markað yfirtak stjórnina á vinnslu auðlinda okkar. 

Það er því afar erfitt að sjá til hvers við eigum efla okkar tilraunir til að koma samskonar markaði á fót eins og umrædd lög ESB gera ráð fyrir og ekki hefur tekist í þau 15 ár sem liðin eru frá því Orkulögin voru sett. Sá aðskilnaður á mismunandi starfsemi raforkugeirans sem nauðsynlegur er til að hægt sé að líta vel eftir hefur þegar kostað mikið og nú skal bæði auka eftirlit með þeim markaði sem ekki gengur að setja upp og auka áhrif ESB á stjórn þessa markaðar. Þetta er óþarfi og beinlínis hættulegt sjálfstæði okkar. Landsnet hefur sýnt í samstarfi við ráðuneytið, framleiðendur og gömlu Orkustofnun, að það er fullfært um að stýra flutningskerfinu. Nýr markaður og nýr eftirlitsaðili þar ofan á er rándýr og óþörf sýndarmennska. 

Fram að þessu hafa embættismenn lagt áherslu á, að vald okkar til að leyfa eða hafna nýrri virkjun auðlindarinnar sé óskert og því talið rétt að samþykkja þriðja orkupakkann. Þeir minnast ekki á þau rekstrarlegu atriði sem hér hafa verið rakinn og valda óhagræðingu og sóun í orkukerfinu. 

Er þekkingu embættismanna svo ábótavant, að þeir gefi ríkisstjórn og Alþingi ráð út frá röngum forsendum? Hugmyndir um að fela gagnslitlum markaðsöflum sem lúta stjórn erlendra aðila stýringu á því hvernig við vinnum raforku úr auðlind okkar er glórulaus sóun á þeim auðlindum sem okkur hefur verið treyst fyrir. Ætlum við að hlýða í blindni evrópsku regluverki með stóru viðbótar skrefi til valdaafsals eða ætlum við að ráða okkar eigin auðlindum í orkuvinnslu og framleiðslu til framtíðar?

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur