Þingmaðurinn og rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson geystist fram á ritvöllinn með stuttri og snarpri grein í Fréttablaðinu í dag þriðjudaginn 9. apríl þar sem hann lymskulega kallar þá sem mótfallnir eru því að svokallaður orkupakki 3 sem nú er til umræðu á Alþingi verði samþykktur, einangrunarsinna með tröllasögur og heimóttarskap. Í stað þess að ræða málið með rökum skal ráðast á þá sem hugsanlega hafa andstæðar skoðanir með uppdiktuðum brigslyrðum. Aðferðafræði sem stjórnmálaflokkur sá er rithöfundurinn tilheyrir stundar af mikilli list. Rithöfundurinn skrifar:
„Öllu skiptir að íslenska þjóðin eigi sjálf auðlindir sínar og orkuveitur á borð við Landsvirkjun. Sé þetta tryggt í lögum – eins og nýja stjórnarskráin gerir: af hverju má þá ekki selja hæstbjóðanda (að uppfylltum grænum skilyrðum) þær afurðir sem þessar auðlindir veita?“
Sá sem þetta skrifar telur mögulegt að rithöfundurinn sé í röngu liði, því ef hann hefur raunverulega áhuga á því að þjóðin eigi sjálf auðlindir sínar ætti hann að leggjast gegn samþykkt orkupakkans.
Við vitum að í þriðja orkupakkanum felst valdaframsal. Meira að segja talsmenn orkupakkans fela ekki þessa staðreynd. Við vitum líka að í honum felst aukin markaðsvæðing orkugeirans frá því sem nú er. Við vitum að aukin markaðsvæðingin þýðir að orkan mun heyra undir samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins eins og hver önnur vara. Við vitum að í skjóli samkeppnislaganna munu smærri aðilar á markaði hér, eins og mögulega nýir erlendir eigendur HS Orku leggja fram kvörtun vegna markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar. Evrópsk samkeppnislöggjöf mun leggja þær skyldur á herðar þeirrar ríkisstjórnar, hver sem hún verður að brjóta upp Landsvirkjun og selja hæstbjóðanda. Þessi sviðsmynd getur farið í gang algerlega óháð því hvort hingað verður lagður sæstrengur eða ekki, verði orkupakki 3 samþykktur.
Hugmyndin um að selja hæstbjóðanda (að uppfylltum grænum skilyrðum) þær afurðir sem þessar auðlindir veita er góðra gjalda verð. En hún hefur afleiðingar. Til dæmis mun hún þýða að verð á orku til almennra neytenda og fyrirtækja hér á landi mun hækka verulega og líkast til sveiflast nokkuð innan dagsins. Á sama tíma mun arður þeirra sem eiga orkuframleiðslufyrirtækin aukast.
Með þessu er verið að færa umtalsvert fjármagn frá almenningi til eigenda raforkuframleiðslunnar hver sem hann er. Það er ekki með neinu móti hægt að tryggja það, verði þessi orkupakki samþykktur að rafmagnsframleiðsla verði áfram að verulegu leiti á hendi ríkisins, sem er jú grundvöllur þess að þjóðin fái notið þeirra auðlinda sem landið býr yfir.
Rétt er að benda á í þessu samhengi að þetta hafa fjárfestingarfélög sem engin veit hver á, áttað sig á fyrir nokkru síðan og stunda hér jarðakaup af miklum móð. Þeirra markmið er ekki að færa þjóðinni arð af auðlindum landsins heldur að taka þátt í veislunni sem stuðningsmenn þriðja orkupakkans hyggjast bjóða hér uppá.