Costco hafi valdið vonbrigðum

Þórarinn Ævarsson.
Þórarinn Ævarsson. mbl.is/Eggert

Þórarinn Ævarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, var einn af þeim  sem hvað ákafast fögnuðu komu Costco til Íslands. Hann segir að það hafi ekki aðeins helgast af því að fyrirtækið hafi ákveðið að opna í Kauptúni, í námunda við verslun hans, heldur ekki síður vegna þess að hann telji alla samkeppni af hinu góða. Vonbrigðin séu þeim mun sárari þegar hann horfi á hvernig fyrirtækið haldi á mörgum mikilvægum þáttum í rekstri sínum hér á landi.

Þetta segir Þórarinn í viðtali í nýjum hlaðvarpsþætti frá ritstjórn Morgunblaðsins, Viðskiptapúlsinum. Þar ræðir hann m.a. brotthvarf sitt frá IKEA en nýverið var það tilkynnt að hann hygðist söðla um og láta af störfum hjá fyrirtækinu eftir 14 ár í starfi framkvæmdastjóra.

Hægt er að nálgast fría áskrift að Viðskiptapúlsinum hér.

Spurður út í hvað það er sem valdi honum vonbrigðum í starfsemi fyrirtækisins segir hann að það komi m.a. fram í vöruúrvalinu sem hafi dregist saman.

„Þeir hafa verið minna spennandi eftir því sem tíminn líður heldur en þeir voru í byrjun. Þegar maður kom þarna fyrst svignuðu hillurnar undan ferskum ávöxtum og grænmeti og það voru fiskabúr með lifandi kröbbum og guð má vita hvað. Síðan er þetta allt meira og minna farið og það er svolítil spæling.“

Gríðarleg starfsmannavelta áhyggjuefni

En hann segir að starfsmannamál fyrirtækisins hafi einnig verið í nokkrum ólestri að því er virðist og að því hafi ekki tekist að halda í starfsfólk.

„Starfsmannaveltan er feikileg. Ég hef fengið fullt af fólki sem hefur sótt um vinnu hjá mér sem kemur úr Costco og fólk stoppar stutt við. Þeir eru ekki að ná að halda í íslenskt fólk og með fullri virðingu fyrir erlendum starfsmönnum þá þarf íslenskt fólk að vera þarna líka.“

Mæta ekki sjálfsagðri kröfu um notkun íslenskunnar

Þórarinn segir auk þess að það lýsi ákveðnu metnaðarleysi af hálfu fyrirtækisins að það skuli ekki hafa fyrir því að íslenska verðmerkingar í hillum sínum. Það myndi t.d. aldrei líðast að Costco í Frakklandi merkti vörur sínar einfaldlega á ensku eins og hér er gert.

„Það er með ólíkindum að horfa á hillumerkingarnar á ensku. Það er í sjálfu sér ekki boðlegt í þessu landi. Alls ekki boðlegt að svona stórt fyrirtæki hafi ekki fyrir því að þýða yfir á íslensku. Ég held að þetta fari ofan í undirmeðvitund fólks og trufli það til lengri tíma. Ég held að fólk stuðist við þetta þótt það segi ekki mikið.“

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki
Loka