Sumir gætu átt erindi á alþjóðleg mót

Í fallegri stofunni heima hjá Guðfinni eru aðstæður til hermikappaksturs …
Í fallegri stofunni heima hjá Guðfinni eru aðstæður til hermikappaksturs eins og best verður á kosið. Kristinn Magnússon

Það er ekki síst Guðfinni Þorvaldssyni að þakka hvað hermikappakstur er í dag í miklum blóma á Íslandi. Liðin eru um það bil sex ár síðan Guðfinnur, eða Guffi eins og hann er alltaf kallaður, setti á laggirnar facebook-hópinn „Gran Turismo Samfélagið“ til að skipuleggja regluleg mót í samnefndum kappakstursleik og er hópurinn í dag orðinn að nokkuð fjölmennum félagsskap:

„Í hópnum eru um 600 manns og virkir keppendur í kringum 60 og áhuginn svo mikill að við erum núna með fjórar deildir í gangi,“ útskýrir Guffi en fylgjast má með öllum keppnum hópsins í beinni útsendingu á YouTube auk þess að keppnir í úrvalsdeildinni eru sýndar hjá Stöð 2 Esport: „Þökk sé Rafíþróttasambandi Íslands, RÍSÍ, höfum við aðgang að upptökuverinu í Arena og lýsum úrvalsdeildarkeppnunum eins og hverjum öðrum kappakstri en síðast þegar ég vissi er þetta efni að fá hið þokkalegasta áhorf í sjónvarpi.“

Ekki svo flókið að byrja

Tölvuleikurinn Gran Turismo kom fyrst út árið 1997 og þótti strax bera af öðrum kappaksturshermum. Framtak Guffa hélst í hendur við útgáfu Gran Turismo Sport fyrir PlayStation 4 árið 2017 en sú útgáfa leiksins sló rækilega í gegn. „Gran Turismo-leikirnir eru skilgreindir sem hermar þótt þeir séu ekki alveg eins djúpir og flóknir og sumir aðrir titlar, en það gerir leikinn aðgengilegan fyrir byrjendur og kallar spilunin ekki á mikla fjárfestingu í tækjabúnaði,“ segir Guffi en strangt til tekið er nóg að spila leikinn með PlayStation-leikjatölvu og stýripinna þó að mörgum þyki það peninganna virði að fjárfesta líka í þar til gerðu stýri og pedölum.

Með útgáfunni sem kom á markað 2017 færðist áhersla Gran Turismo meira yfir á rafíþróttakeppnir og keppnishópar spruttu upp hér og þar um heiminn. Á sama tíma var einnig að eiga sér stað aukning í áhuga á kappaksturshermum fyrir PC-tölvur sem Guffi segir að geti oft verið mun fullkomnari en Gran Turismo en kalli iðulega á fjárfestingu í dýrari tækjabúnaði og séu auk þess ekki eins byrjendavænir. „Skömmu eftir stofnun Gran Turismo-samfélagsins var GT-akademían í Faxafeni opnuð með mjög fullkomnum kappaksturshermum og þar eru í dag haldin mót í hermikappakstri á vegum Akstursíþróttasambandsins,“ segir Guffi og bætir við að eðlilega sé einhver skörun á milli þeirra sem taka þátt í reglulegum mótum Gran Turismo-samfélagsins og þeirra sem venja komur sínar í GT-akademíuna þó að þar sé notast við PC-herma: „Hermikappakstur hefur vaxið mikið hjá Akís og GT-akademíunni, og man ég að á fyrstu mótunum tók ekki nema handfylli keppenda þátt en í dag er umfangið mun meira. Einnig sá AKÍS til þess að Ísland yrði meðal þeirra landa sem geta áunnið sér sæti í heimsmeistaramótum Gran Turismo, en það gerðist í kjölfarið á því að keppt var í Gran Turismo á Ólympíuleikum í rafíþróttum síðastliðið sumar.“

Í leiknum geta keppendur skreytt bíla sína og málað í …
Í leiknum geta keppendur skreytt bíla sína og málað í öllum mögulegum litum. Merki styrktaraðila eru áberandi í toppslagnum.

Þeir bestu eru í heimsklassa

Eins og við er að búast taka meðlimir Gran Turismo-samfélagsins þátt í starfinu af mismiklu kappi. Sumir stunda reglulegar æfingar og missa ekki úr keppni á meðan öðrum þykir skemmtilegra að spana bara af og til og eru með til þess eins að hafa gaman af félagsskapnum frekar en að reyna að safna stigum. Guffi segir að sú fjölgun sem hefur orðið í hópnum og sá agi sem einkennir marga þátttakendur hafi orðið til þess að slagurinn um efstu sætin hefur harðnað til muna.

„Ég man t.d. að ég vann fyrsta mótið og var lengi í toppslagnum en síðasta tímabilið sem ég keyrði, haustið 2023, var ég í botnslagnum í úrvalsdeildinni,“ útskýrir hann og bætir við að þeir bestu hafi alla burði til að ná mjög langt í hermikappakstri með réttum stuðningi. „Margir íslenskir keppendur í hermikappakstri eru verulega góðir og gætu átt erindi á alþjóðleg mót ef þeim tekst að halda rétt á spilunum. Að standa jafnfætis þeim allra bestu kallar á strangar æfingar og mikla skuldbindingu en ég er alveg sannfærður um að getan er fyrir hendi hjá þessum keppendum til að vera íheimsklassa.“

Stígur til hliðar en er ekki hættur að spana

Nú er Guffi á förum og þegar síðasta kappakstri vetrarins lýkur mun hann leyfa öðrum að taka við skipulagshlutverkinu. Guffi kveðst alls ekki ætla að segja skilið við Gran Turismo-samfélagið og ekki vaki fyrir sér að leggja stýrið á hilluna. „En það er orðið tímabært að ég losi mig undan öllum skuldbindingum vegna annarra verkefna í vinnunni og á heimilinu sem valda því að frítíminn er orðinn af ósköp skornum skammti.“

Maður kemur í manns stað og á Guffi ekki von á öðru en áhugi Íslendinga á hermikappakstri muni halda áfram að aukast enda auðvelt að smitast af bakteríunni þegar fólk hefur einu sinni prófað leik á borð við Gran Turismo. „Þetta er mjög skemmtileg afþreying og ein leið til að þjálfa viðbrögð og snerpu. Þá eru hermarnir margir hverjir svo fullkomnir að þeir þjálfa fólk í tæknilegum atriðum og kenna hluti sem hægt er að yfirfæra á akstur alvörubifreiðar í keppnisbraut. Félagsskapurinn er líka góður og oft mikil stemning hjá þátttakendum þegar efnt er til kappaksturs á netinu en síðast en ekki síst er það engu líkt að upplifa það „flæði“ sem fylgir því þegar aksturinn gengur fullkomlega upp.“

Gran Turismo þykir höfða bæði til byrjenda og þeirra sem …
Gran Turismo þykir höfða bæði til byrjenda og þeirra sem eru lengra komnir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: