Líkin þrjú eru af ferðamönnunum

Rannsakendur að störfum við vatnsholið þar sem líkin þrjú fundust.
Rannsakendur að störfum við vatnsholið þar sem líkin þrjú fundust. AFP/Guillermi Arias

Þrjú lík sem fundust í vatnsholi í Baja Kalifornía-fylki í Mexíkó eru mjög líklega af tveimur áströlskum bræðrum og Bandaríkjamanni sem hurfu þann 27. apríl þegar þeir voru í fríi á svæðinu.

AFP-fréttastofan greinir frá og segir rannsakendur á staðnum hafa staðfest þetta í gær. 

Mögulega myrtir vegna pallbílsins

Segir Maria Elena Andrade ríkissaksóknari að miðað við klæðnaðinn og ákveðið útlit, eins og sítt hár og lýsingar á líkamsbyggingu mannanna þriggja, sé líklegt að um sé að ræða lík þeirra. Bætti hún því við að mögulega hefðu þeir verið drepnir vegna tilraunar til að stela pallbíl þeirra sem fannst skammt frá og búið var að kveikja í.

Að sögn yfirvalda fannst einnig annað lík á staðnum en það hafði verið þar lengur og var ótengt hvarfi þremenninganna. 

Versti ótti fjölskyldnanna staðfestur

Móðir áströlsku bræðranna, Debra Robinson, birti færslu á Facebook-síðu fyrir ferðamenn á svæðinu þar sem hún biðlaði til fólks að hafa augun opin. Þá hafði hún ekki heyrt í sonum sínum í nokkra daga.

„Ég reyni að ná til allra sem hafa séð syni mína tvo. Þeir hafa ekki haft samband við okkur síðan laugardaginn 27. apríl,“ skrifaði hún og bætti við færsluna mynd af þeim. 

Þessi hræðilega uppgötvun virðist staðfesta versta ótta fjölskyldna og vina áströlsku bræðranna Callum og Jake Robinson og bandaríska vinar þeirra Jack Carter.

Þá sýndi Instagram-síða Callum Robinson ýmsar myndir úr Mexíkóferð þeirra félaga, að drekka bjór og njóta lífsins á barnum, slappa af í nuddpotti, borða taco og horfa út á brimið.  

Þrír í haldi

Mexíkósk yfirvöld, sem hafa þrjá grunaða í haldi, unnu rannsóknina í samvinnu við bandarísku alríkislögregluna (FBI) og áströlsk yfirvöld.

Talsmaður ástralska utanríkisráðuneytisins sagði í morgun að ráðuneytið væri í reglulegu sambandi við Robinson-fjölskylduna sem ætti mjög erfitt þessa stundina. 

Baja Kalifornía er þekkt fyrir aðlaðandi strendur og eru dvalarstaðir hennar vinsælir meðal bandarískra ferðamanna, meðal annars vegna nálægðar við landamærin.

Það er líka eitt ofbeldisfyllsta ríki Mexíkó vegna skipulagðra glæpahópa þó að starfsemi þeirra hafi almennt ekki áhrif á erlenda ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert