Sagði ekkert tortryggilegt við samningana

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sagði ekkert tortryggilegt við samninga borgarinnar við olíufélögin um að greiða ekki innviðargjald né bygg­inga­rétt­ar­gjald á reit­um sem borgin hyggst byggja á.

Þetta sagði Dagur í Sprengisandi þar sem að hann ræddi greiðslur til olíufélaga af hálfu borgarinnar ásamt Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðismanna. Hildur ræddi við mbl.is um málið á fimmtudag. 

Á mánudagskvöld verður fréttaskýring  Maríu Sigrún­ar Hilm­ars­dótt­ur, frétta­manns á Rík­is­út­varp­inu, sýnd í Kast­ljósi sem fjallar um málið. Athygli vakti þegar ákveðið var að sýna skýringuna ekki í síðasta Kveiksþætti vetrarins. 

Dagur sagði að borgin hefði lengi viljað fækka bensínstöðvum í borginni og að fyrst hefði verið samþykkt stefna þess efnis árið 2009.

Ekkert gerðist þó fyrr en eftir að borgin samþykkti loftslagsstefnu árið 2016. Ein af aðgerðum stefnunnar var að fækka bensínstöðvum. Í kjölfarið hófst vinna sem fólst meðal annar í því að kortleggja alla lóðaleigusamninganna. 

Sömu leikreglur fyrir alla

Dagur nefndi að borgin hefði átt flestar lóðirnar sem bensínstöðvarnar voru á. 

Úr vinnunni hafi síðan komið upplegg að samningsmarkmiðum þar sem sömu leikreglur myndu gilda fyrir öll olíufélögin. 

Hann sagði að ítarlegt upplegg hefði síðan verið lagt fyrir borgarráð árið 2019 og samþykkt einróma. Hildur samsinnti því að Sjálfstæðismenn hefðu verið mjög ánægð með það markmið að fækka bensínsstöðvum um 50% fyrir árið 2025.  

Dagur sagði að það hefði tekið tvö ár að ná samningum við öll stóru olíufélögin. 2021 voru þeir samningar síðan lagðir fram til samþykktar og sat minnihlutinn hjá.  Hildur sagði að málið hefði verið lagt fyrir í sumarfríi borgarstjórnar þegar fáir væru að fylgjast með. Því hefði verið gerð athugasemd og minnihlutinn setið hjá. 

Dagur sagði að málið væri líklega komið aftur í umræðuna af því að nú væru að berast skipulagstilögur og hugmyndir um þá uppbyggingu sem á að koma í staðin. 

Hildur sagði að aldrei hefði legið fyrir gögn um „gjafagjörning“ til olíufélaganna. Hún sagði að kannski væri hægt að lesa það á milli línanna en að borgarráð hefði ekki verið upplýst um það á sínum tíma. 

Uppleggið að skapa hvata

Dagur sagði að í samningunum hefði uppleggið verið að skapa hvata til þess að olíufélögin færu að hreyfa sig, til þess að flýta því að lóðirnar yrðu íbúðarreitir sem myndu skila útsvarstekjum. „Dæmið lítur býsna vel út,“ sagði Dagur. 

Hann nefndi að hinn valkosturinn hefði verið að bíða eftir að lóðaleigusamningar rynnu út sem voru í sumum tilfellum áratugir.

Dagur sagði það vera ódýrt að tala um málið fimm árum síðar sem eitthvað „tortryggilegt“.

Almannahagsmunir ráðandi 

Hildur sagði að allir hefðu verið sammála um markmiðin en gagnrýndi harðlega aðferðirnar sem voru farnar. 

Hún sagðist ekki vera hrópa að um spillingu eða annarlega hagsmuni væri að ræða, en að kæruleysi og fúsk hefði ráðið för í samningagerðinni.

Dagur sagði að olíufélögin hefðu aldrei fengið neitt greint beint frá borginni. Þá vildi hann meina að um almannahagsmuni væri að ræða, en viðurkenndi þó að í einhverjum tilfellum högnuðust olíufélögin en annars staðar ekki. 

Dagur deildi síðan gögnunum úr borgarráði frá árinu 2019 á Facebook-síðu sína eftir viðtalið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert