Haukar unnu stærsta sigurinn – Ægir og Víkingur skoruðu þrjú

Ægir gerði góða ferð til Sandgerðis.
Ægir gerði góða ferð til Sandgerðis. Ljósmynd/Ægir

Haukar fara vel af stað í 2. deild karla í fótbolta en deildin hófst í dag með heilli umferð. Haukamenn voru mun sterkari á heimavelli sínum á Ásvöllum gegn Hetti/Hugin og urðu lokatölur 4:0. 

Frosti Brynjólfsson, Djordje Biberdzic, Ernest Slipski og Þorkell Víkingsson gerðu mörk Hauka í sannfærandi sigri. 

Ægir gerði góða ferð til Sandgerðis og vann Reyni, 3:0. Reynismennirnir Keston George og Benedikt Jónsson fengu báðir að líta rauða spjaldið. Ægismenn nýttu sér það og Ágúst Karel Magnússon gerði tvö mörk, áður en Aron Fannar Hreinsson gulltryggði sigurinn í uppbótartíma.

Víkingar frá Ólafsvík sigruðu Völsung á heimavelli með sömu markatölu, 3:0. Luke Williams kom Víkingi yfir í byrjun seinni hálfleiks og Gary Martin bætti við öðru markinu á 51. mínútu í sínum fyrsta leik með Ólsurum. Arnór Siggeirsson gulltryggði sannfærandi sigur á 57. mínútu.

KFA byrjar einnig vel en Austfirðingar unnu 2:0 heimasigur á Þrótti frá Vogum. Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Marteinn Már Sverrisson kom KFA á bragðið og Abdelhadi Khalok, sem skoraði sjö mörk í 14. leikjum með Víkingi frá Ólafsvík á síðustu leiktíð, gerði annað markið í sínum fyrsta deildarleik með KFA.

KFG frá Garðabæ vann KF frá Fjallabyggð, 2:0, á heimavelli. Dagur Orri Garðarsson gerði fyrra markið úr víti á 18. mínútu og Ólafur Bjarni Hákonarson bætti við öðru marki á 40. mínútu og þar við sat.

Loks vann Selfoss 1:0 heimasigur á Kormáki/Hvöt. Selfoss féll úr 1. deild á síðustu leiktíð og Kormákur/Hvöt kom upp úr 3. deild. Spánverjinn Gonzalo Zamorano gerði sigurmarkið á 70. mínútu.

Lokatölur í 1. umferð:
KFA 1:0 Þróttur V.
Haukar 4:0 Höttur/Huginn
Reynir S. 0:3 Ægir
Selfoss 1:0 Kormákur/Hvöt
Víkingur Ó. 3:0 Völsungur
KFG 2:0 KF

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert