„Hæstiréttur virðist að mínu mati taka tímabundinn einkahag einstakra útgerða fram yfirþjóðarhag,“ segir Jón Bjarnason fyrrum sjávarútvegsráðherra um dóma Hæstaréttar sem féllu í gær þar sem skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna stjórnunar veiða á makríl á árunum 2011 til 2014.
Jón harmar niðurstöðu Hæstaréttar og er henni ósammála. Þetta kemur fram í pistli á vefsvæði Jóns.
Huginn ehf. og Ísfélag Vestmanneyja unnu íslenska ríkið í málaferlum í gær þar sem Hæstiréttur féllst á að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda til makrílveiða hefðu verið ólögmætar og útgerðarfélögin hefðu átt að fá meiri kvóta. Úthlutanirnar voru framkvæmdar á grundvelli reglugerðar sem Jón Bjarnason setti árið 2010 og var fljótt umdeild.
Í stað þess að úthluta á grundvelli veiðireynslu þá var árið 2010 ákveðið með reglugerð að skipta makrílkvótanum í þrennt og fór hluti hans til smábáta og hluti í pott fyrir millistór skip auk þess sem þeir fengu kvóta sem höfðu veiðireynslu.
Eins og áður segir varð reglugerðin fljótt umdeild og efasemdir vöknuðu um lögmæti hennar. Umboðsmaður Alþingis skilaði áliti um það árið 2014 og komst að því að reglugerðin bryti í bága við lög. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hana aftur á móta lögmæta og sýknaði ríkið áður en Hæstiréttur sneri þeim dómum við í gær. Niðurstaðan er að íslenska ríkið er skaðabótaskylt og fjártjónið er talið geta skipt milljörðum.
„Hæstiréttur hefur dæmt að þessi aðgerð hafi verið ólögleg. Ég harma það og er ósammála,“ segir Jón sem hefur nú tjáð sig í fyrsta skipti um dóma Hæstaréttar frá því í gær.
Pistill Jóns hefst á því að hann rekur söguna og forsendur þess að reglugerðin var sett. Um það segir Jón:
„Makríllinn var nýr stofn innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og veiðar rétt hafnar þegar ég varð ráðherra. Magn makríls fór mjög ört vaxandi í lögsögunni með stórum göngum inn á grunnmið, víkur og voga hringinn í kringum landið. Makríllinn hafði þá um skamman tíma verið veiddur í bræðslu á vegum örfárra stórra uppsjávarskipa. 2010 þótti rétt að taka utan um skipulagningu og þróun þessara veiða, sem var reyndar ósamið um líkt og enn þá er.“
„Við stóðum í harðvítugum deilum við ESB um rétt okkar til makrílveiða. Og þessar útgerðir frekar en aðrir hefðu ekki fengið mikinn afla í sinn hlut, ef ráðherra hefði ekki staðið fast á rétti Íslendinga til makrílveiða og staðið af sér m.a. hótanir um viðskiptabann ef við héldum áfram veiðum á makríl.“
„Þá var ákveðið að skipta veiðiheimildum í makríl á útgerðarflokka þannig að stóru uppsjávarskipin sem höfðu eingöngu veitt til bræðslu fengu áfram meginhluta veiðiheimilda, frystitogarar og ísfiskskip fengu ákveðinn hluta, smábátar og línubátar tiltekinn hluta. Jafnframt var sett ströng skylda á manneldisvinnslu, sem stórjók verðmætasköpun aflans og skapaði fjölda mikilvægra starfa í fiskvinnslum vítt og breytt um landið.“
„Það var metið svo að ráðherra væri þetta heimilt þar sem m.a. væri um nýjan stofn að ræða sem ósamið var um.“
Hann heldur áfram og segist meta það þannig að Hæstiréttur hafi staðið með hagsmunum útgerðarmanna gegn þjóðinni.
„Hæstiréttur virðist að mínu mati taka tímabundinn einkahag einstakra útgerða fram yfir þjóðarhag. Rétturinn horfir einnig að mínu mati framhjá ofangreindri markmiðsgrein fiskveiðistjórnunarlaganna.“
„Reglugerðin sem sett var 2010 heimilaði smábátum, línubátum, frystiskipum og ísfiskbátum að komast inn í veiðar á makríl, þessari nýju fisktegund sem vara að ganga inn á Íslandsmið. Þessir útgerðarflokkar hefðu annars verið útilokaðir frá makrílveiðunum. Dómur Hæstaréttar þýðir væntanlega að þessir útgerðahópar smábáta og minni skipa verði að skila veiðiheimildum sínum í makríl til þessara örfáu stóru uppsjávarskipa sem hafa sótt þetta mál til Hæstaréttar.“
„Menn geta svo sem haft sínar skoðanir á því, en varla gæti sú ákvörðun verið í þágu þjóðarhagsmuna. Umræddar útgerðir eiga eftir að sanna hvert raunverulegt tjón þeirra eða ávinningur var af þessari reglugerðarsetningu.“
Pistlinum lýkur með því að Jón segist telja að ákvörðun hans hafi skilað miklum ávinningi fyrir þjóðarbúið og allan almenning í landinu sem og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.