Líklega milljarðatjón fyrir þjóðina

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Íslenska þjóðin situr líklega uppi með milljarðatjón og tilfinning þjóðarinnar getur verið að eignarhald á sjávarauðlindinni sé óljósara en áður.“ Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og þingmaður, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Beindi hann fyrirspurn sinni að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og benti á að Hæstiréttur hefði í síðustu viku dæmt ríkið skaðabótaskylt, þar sem ekki hefði verið heimilt að bregða út frá lögum um veiðireynslu við úthlutun makrílkvóta með reglugerð.

„Kannski kemur dómurinn ekkert sérstaklega á óvart, og auðvitað ber að virða hann. Hann endurspeglar þó að við erum enn, nokkrum áratugum eftir að fiskveiðistjórnunarkerfið var sett á í núverandi mynd, í deilum um það og sér í lagi um það sem lýtur að úthlutun takmarkaðra gæða.“

Logi sagði ljóst af dómnum að ekki væri hægt að aðgreina umræðu um veiðigjöld frá umræðu um úthlutunaraðferð og grundvallarspurninguna um það hver réttlátur hlutur þjóðarinnar sé í fiskveiðiauðlindinni.

„Það er ljóst að mat Deloitte fyrir stefnanda, á tjóni sem af reglugerðinni hlaust, er mjög hátt, og enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Ef ég skil rétt er þetta sami aðili sem vann forsendur sem lágu til grundvallar lægra veiðigjaldi. Því spyr ég forsætisráðherra, hvort hún hafi velt fyrir sér hvort það sé samræmi þarna á milli?“

Sýnd veiði en ekki gefin

Einnig spurði hann ráðherra hvort hún teldi ekki eðlilegt að framlengja núgildandi lög, eins og gert var í vor, og freista þess að ná breiðari sátt um málið. Með þeim hætti væri hægt að skoða úthlutunarreglur og veiðigjöld í samhengi, og tryggt ákvæði um tímabundna samninga, sem flestir væru sammála um.

„Þá væri auðvitað nauðsynlegt að ná samstöðu um ásættanlegt auðlindarákvæði í stjórnarskrá, en eins og hæstvirtur ráðherra veit, er það sýnd veiði en ekki gefin.“

Að lokum spurði hann Katrínu hvernig hún sæi fyrir sér að fjármagna kostnað vegna dómsins.

Katrín sagði frumvarpið snúast um að tryggja almenningi sanngjarnan hlut …
Katrín sagði frumvarpið snúast um að tryggja almenningi sanngjarnan hlut í auðlindarentunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snýst ekki um álagningu veiðigjalda

Katrín sagði það ljóst að Hæstiréttur hefði talað, og að hann ætti síðasta orðið í þessu máli. Dómurinn hafi þó snúist um úthlutun aflaheimilda og þar með fiskveiðistjórnunarkerfið.

„Hann snýst ekki um álagningu veiðigjalda. Við getum verið ósammála eða sammála um hvort það hafi verið rétt á sínum tíma árið 2012, að aðskilja fiskveiðistjórnunarkerfið og lög um það, og lög um veiðigjöld, en það var sú ákvörðun sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin tóku á þeim tíma í ríkisstjórn, og ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að aðskilja þetta á þeim tíma.“

Katrín sagðist ekki telja að umræddur dómur hefði nein áhrif á hvernig frumvarp til nýrra laga um veiðigjöld yrði afgreitt. Hún sagði frumvarpið vel undirbúið og að það snerist um að tryggja almenningi sanngjarnan hlut í auðlindarentunni.

Fyrir liggi að bregðast þurfi við dóminum með breytingum á lögum. Fara þurfi yfir lagaumhverfið. Þá sagði Katrín að ekki liggi fyrir hvert fjártjónið verði fyrir ríkið. Kallaðir hafi verið til sérfræðingar til að meta hvert það kunni að vera.

Útgerðinni gefið árið 2015

Logi sneri aftur í ræðustól og spurði á ný hvernig fjármagna ætti þann kostnað sem dómurinn hefði í för með sér.

„Og ég er með hugmynd að því, hæstvirtur forsætisráðherra. Vegna þess að nú erum við með þessum veiðigjöldum – þá erum við að gefa útgerðinni árið 2015, sem er hvorki meira né minna en besta árið í sögu útgerðarinnar,“ sagði Logi.

„Nú þegar gengið er farið að síga, og ýmislegt hagstætt í rekstrarumhverfi útgerðarinnar, þá legg ég til einmitt, að við framlengjum í eitt ár, tökum inn það sem við eigum réttmætt fyrir árið 2015, sem er eins og ég sagði áðan besta árið í sögu útgerðarinnar, og notum það að hluta til, til að borga þetta tjón sem hefur orðið.“

Ekki rétt að blanda umræðunum saman

Katrín sagði almikilvægast í þessu máli að fram kæmi að ekkert í dómnum gæfi ástæðu til að efast um það skýra ákvæði laga, um að auðlindin sé sameign þjóðarinnar.

„Það er ekkert í dómnum sem gefur tilefni til þess að segja, að það hafi vaknað vafi um það. Hins vegar ætla ég að taka undir með háttvirtum þingmanni, hvað kom fram í hans fyrri fyrirspurn – það er hins vegar mjög mikilvægt að við náum saman um auðlindarákvæði í stjórnarskrá til að undirbyggja þessi lagaákvæði með enn skýrari hætti. En ég tel ekki að þessi dómur grafi undan því,“ sagði Katrín.

„Þessi dómur fellur kannski fyrst og fremst, eftir því sem mér hefur verið greint frá, á lögum um veiðar utan lögsögunnar, sem eru sett á sínum tíma þegar þáverandi hæstvirtur sjávarútvegsráðherra var Þorsteinn Pálsson. Þannig það er alllangt um liðið síðan þau lög voru sett. Mér finnst ekki rétt að blanda saman umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið og svo lögum um álagningu veiðigjalda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 12.11.24 570,75 kr/kg
Þorskur, slægður 12.11.24 581,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 12.11.24 361,40 kr/kg
Ýsa, slægð 12.11.24 375,16 kr/kg
Ufsi, óslægður 12.11.24 304,09 kr/kg
Ufsi, slægður 12.11.24 317,50 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 12.11.24 352,61 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.11.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Karfi 30.034 kg
Samtals 30.034 kg
12.11.24 Aðalsteinn Jónsson SU 11 Flotvarpa
Kolmunni 2.072.335 kg
Samtals 2.072.335 kg
12.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 180 kg
Þorskur 147 kg
Keila 146 kg
Steinbítur 16 kg
Samtals 489 kg
12.11.24 Haförn ÞH 26 Dragnót
Þorskur 802 kg
Ýsa 537 kg
Skarkoli 260 kg
Sandkoli 45 kg
Samtals 1.644 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 12.11.24 570,75 kr/kg
Þorskur, slægður 12.11.24 581,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 12.11.24 361,40 kr/kg
Ýsa, slægð 12.11.24 375,16 kr/kg
Ufsi, óslægður 12.11.24 304,09 kr/kg
Ufsi, slægður 12.11.24 317,50 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 12.11.24 352,61 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.11.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Karfi 30.034 kg
Samtals 30.034 kg
12.11.24 Aðalsteinn Jónsson SU 11 Flotvarpa
Kolmunni 2.072.335 kg
Samtals 2.072.335 kg
12.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 180 kg
Þorskur 147 kg
Keila 146 kg
Steinbítur 16 kg
Samtals 489 kg
12.11.24 Haförn ÞH 26 Dragnót
Þorskur 802 kg
Ýsa 537 kg
Skarkoli 260 kg
Sandkoli 45 kg
Samtals 1.644 kg

Skoða allar landanir »

Loka