Á síðastliðnum tuttugu árum hefur orðið gífurleg aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða án gengis-áhrifa á sama tíma og útflutt magn sjávarafurða hefur tekið litlum breytingum. Hefur þróun í þessa átt aukist sérstaklega á síðustu árum.
Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs jukust verðmæti vöruútflutnings um 51 milljarð króna og voru sjávarafurðir 40,9% alls vöruútflutnings á tímabilinu, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Þar segir jafnframt að vöruútflutningur hafi aukist um 12,8% milli ára og að mesta aukningin hafi verið sjávarafurðir, aðallega ferskur fiskur og fryst flök.
Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það ekki einungis framboð og eftirspurn á mörkuðum sem ýti undir hærra verð fyrir afurðirnar heldur geti verð einnig hækkað vegna aukinna gæða. Þessi auknu gæði má meðal annars rekja til fjárfestinga í hátæknilausnum sem gera það að verkum að meira fæst fyrir þann fisk sem veiddur er.
„Þrátt fyrir að útflutningur sjávarafurða sé að dragast saman að magni til, sem má einna helst rekja til loðnubrests, er lítilsháttar aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða á föstu gengi á fyrstu 10 mánuðum ársins. Kemur það til af hagstæðri verðþróun sjávarafurða undanfarin misseri. Sem endranær er ekkert gefið í þessum efnum, en þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning afurðanna erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir,“ útskýrir Ásta Björk.
Hagfræðingurinn bendir hins vegar á að erfitt sé að festa fingur á hversu miklu slík vinna skilar á heildina litið, enda er hún falin í verði útfluttra sjávarafurða þar sem framboð og eftirspurn á mörkuðum erlendis leika jafnframt stórt hlutverk. En Ásta Björk segir íslenskan sjávarútveg „stöðugt á vaktinni við að auka verðmætasköpun með ýmsu móti og í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá skipulagi veiðanna til lokasölu afurðanna, og leita hæsta verðs fyrir afurðir sínar.“
Segir hún það „afar jákvætt að sjá vöxt í öðrum greinum en stóru útflutningsgreinunum þremur, það er að segja sjávarútvegi, stóriðju og ferðaþjónustu. Má þar einkum nefna verulega aukningu útflutnings á fiskeldisafurðum og á hátæknibúnaði fyrir sjávarútveg og matvælaframleiðslu. Sú þróun er afar jákvæð, enda skýtur aukinn fjölbreytileiki útflutningsgreina sterkari stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Einhæfni í þeim efnum er ekki af hinu góða.“
Vísar Ásta Björk meðal annars til þess að útflutningur sem fellur undir „aðrar iðnaðarvörur“ í tölum Hagstofu Íslands hefur aukist úr 9,8 milljörðum íslenskra króna tímabilið janúar til október 2018 í 19,3 milljarða króna á sama tímabili á þessu ári. Þessar vörur eru meðal annars byggðar á lausnum sem unnar hafa verið fyrir íslenskan sjávarútveg en eru nú orðnar sjálfstæðar útflutningsgreinar.
Þá hefur útflutningur eldisafurða aukist til muna á árinu, en á fyrstu tíu mánuðum ársins nam hann um 20 milljörðum króna á móti 11 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Er aukningin 90% í krónum talið og 70% án gengisáhrifa.
Fiskeldisvörur falla þó ekki undir sjávarafurðir í tölum hagstofunnar heldur undir landbúnaðarvörur.
Greinin var fyrst birt í ViðskiptaMogganum miðvikudag 4. desember.