Leifur Magnússon, sviðstjóri upplýsingatæknisviðs Fiskistofu, segir forritið verða til mikils hægðarauka fyrir sjómenn. Það sem skipti Fiskistofu þó mestu máli sé rekjanleiki gagnanna og auknir möguleikar til eftirlits með fiskveiðum.
Eins og fram kemur á vef Fiskistofu skila stærri skip svokölluðum rafrænum afladagbókum til Fiskistofu. Flestallir smábátar undir tíu brúttótonnum hafa hinsvegar skilað afladagbókum inn á pappírsformi. Nú verður hins vegar sú breyting á að sjómenn munu með tilkomu smáforritsins slá upplýsingarnar beint inn í appið.
Leifur segist nú þegar hafa orðið var við mikinn áhuga á appinu en skiljanlega gæti það tekið tíma fyrir einhverja að venjast notkun þess. Því verði boðið upp á aðlögunar- tímabil þar sem þeir sem það vilja geti haldið áfram að nota pappírsdagbækurnar um sinn. „Ég sé fyrir mér að appið verði komið í fulla notkun í sumar þegar strandveiðarnar hefjast. Þá munu hundruð báta fara á sjó og gögnin byrja að streyma til okkar. Það verður stóra prófið,“ segir Leifur.
Afladagbókin virkar þannig að eingöngu þarf að vera í síma- eða netsambandi við upphaf og lok veiðiferðar. Appið skráir sjálfkrafa staðsetningu bátsins við veiðar og skipstjórnarmenn skrá afla, ástand hans og meðafla með einföldum hætti í forritinu, ásamt því sem veiðarfæri eru skráð, veðurfar og fleira. Þá geymir appið gögn yfir fyrri veiðiferðir þannig að hægt verður að skoða aflabrögð aftur í tímann og sjá tölfræði um veiðarnar.
Leifur segir að upplýsingarnar úr gömlu pappírsbókunum nýtist Fiskistofu í sjálfu sér ekki mikið, enda hafi sjómenn mjög rúman tíma til að skila bókunum inn. „Þegar við fáum þær til okkar staðfestum við móttöku þeirra og sendum þær svo til Hafrannsóknastofnunar. Þar eru upplýsingarnar slegnar inn í gagnagrunn, sem er tímafrekt ferli. Með nýja forritinu fáum við upplýsingarnar til okkar áður en bátarnir koma að landi.“
Leifur segir að upplýsingarnar sem koma úr appinu nýtist einnig hafnarstarfsmönnum sem vinna við vigtun aflans. Upplýsingarnar munu í framtíðinni streymi inn í þeirra kerfi og vigtarmenn geta borið þann afla sem skráður er í appið á leið í land saman við þann afla sem er vigtaður þegar í land er komið. „Appið getur líka látið vita ef til dæmis einn bátur af tíu, sem allir hafa verið að veiðum á sama svæði, eru með mjög ólíka aflasamsetningu. Þá þarf að skoða það nánar.“
Leifur segir að Fiskistofa sé einnig með í smíðum kerfi fyrir þá aðila sem hafa leyfi til að endurvigta aflann í vinnsluhúsi. „Sumir vilja vigta aflann án íssins sem notaður er til kælingar á fiskinum, og hafa til þess sérstakt leyfi. Appið mun einnig nýtast inn í það kerfi.“
Gervigreind mun nýtast við að rýna í gögnin sem koma úr appinu að sögn Leifs. „Með því að nota t.d. gervigreind geturðu séð ýmislegt út úr gögnunum sem þú sæir ekki með eigin augum.“
Rafræna afladagbókin sem minnst var á hér að ofan, og stærri skipin í flotanum nota, er komin til ára sinna að sögn Leifs. Hann segir að nú í kjölfar smíðarinnar á appinu verði farið í að smíða sérstaka gátt fyrir stærri skipin sem taki við gögnum frá þeim. „Við ætlum að hætta að framleiða PC tölvuforrit og senda út á flotann. Það er komið talsvert af aðilum á markaðnum sem hafa áhuga á að þróa svona búnað. Það er tímaskekkja að ríkið sé að þróa og viðhalda svona stórum forritum og senda út um allt með tilheyrandi flækjum. Okkar hlutverk er einfaldlega að taka við gögnunum, geyma þau, rýna í þau og opna á aðgang að þeim.“