Markaðssérfræðingarnir hjá Sea Data Center hafa haft í nógu að snúast að undanförnu og kom aukinn kraftur í starfsemina snemma á síðasta ári þegar norska hugbúnaðarfyrirtækið Maritech Systems eignaðist helmingshlut í þessu merkilega íslenska sprotafyrirtæki. Viðskiptavinahópurinn stækkar jafnt og þétt og segir Anna Björk Theodórsdóttir framkvæmdastjóri að ný lausn, sem byggist á gagnvirkum skýrslum, hafi vakið töluverða lukku.
„Við öflum gagna úr ýmsum áttum og söfnum saman í gagnagrunn til frekari úrvinnslu. Þar geta viðskiptavinir okkar rýnt í gögnin í notendavænu umhverfi, og notað til að búa til eigin skýrslur sem uppfærast sjálfkrafa með nýjustu tölum. Þessar skýrslur hjálpa sjávarútvegsfyrirtækjum að vakta mun betur stöðuna í sínu rekstrarumhverfi, og auðveldar þeim að safna á einn stað upplýsingum á borð við hve mikið er búið að veiða af kvóta tiltekinnar tegundar; hve mikil sala hefur verið á ferskum flökum inn á tiltekinn markað; eða hvernig verð á íslenskum makríl er í samanaburði við færeyskan,“ útskýrir Anna Björk. „Gagnvirkar skýrslur þarf ekki að uppfæra handvirkt fyrir hvern fund, og auðvelda þær fyrirtækjum upplýsta og gagnadrifna ákvarðanatöku.“
Gagnasafnið hefur vaxið hratt og nýtir Sea Data Center í dag gögn frá Íslandi, Noregi, Færeyjum, öllu Evrópusambandinu, Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum og nú síðast bættist Síle við. Er þess vandlega gætt við innskráningu og úrvinnslu að notendur geti leikið með gögnin á alla mögulega vegu, og með nokkrum músarsmellum fengið góða yfirsýn yfir annars mjög flókinn alþjóðlegan markað.
Óhætt er að segja að kórónuveirufaraldurinn hafi aukið flækjustigið í viðskiptum með sjávarafurðir og sýna gögnin það svart á hvítu. „Íslenskir framleiðendur selja töluvert minna magn af fiski úr landi og eru áhrif faraldursins að koma hvað sterkast fram á mörkuðum með ferskar sjávarafurðir sem sumir eru hreinlega að lokast um þessar mundir. Þannig hefur röskun á flugi t.d. valdið miklum erfiðleikum við að selja fisk til Bandaríkjanna sem eru t.d. stór markaður fyrir fersk þorskflök,“ segir Anna Björk.
Herma nýjustu fréttir að útflytjendum sé þó að takast, með erfiðismunum, að koma ferskum fiski til kaupenda, þó að ekki sé lengur hægt að flytja vöruna með farþegaflugi eins og áður, og blessunarlega virðast þjóðir heims leggja sig fram við að tryggja að flutningar matvæla raskist sem minnst. „En þá situr samt eftir það stóra vandamál að hótel og veitingastaðir, sem eru einhverjir mikilvægustu kaupendur ferskra íslenskra hágæða sjávarafurða hafa meira og minna lokað á meðan faraldurinn gengur yfir. Hafa margar útgerðir gripið til þess ráðs að gera breytingar á framleiðslu sinni, draga úr framboði á ferskum fiski en framleiða í staðinn saltaðar eða frystar afurðir. Það gæti síðan haft áhrif á verðþróun seinna meir á mörkuðum eins og Spáni og Portúgal þar sem mest er selt af íslenskum saltfiski.“
Enginn veit með vissu hversu lengi þetta óvenjulega ástand varir, og hvenær t.d. veitingahúsa- og hótelgeirinn kemst aftur í samt horf. „Við eigum líka eftir að sjá betur hvernig faraldurinn hefur áhrif á hegðunarmynstur fólks og með hvaða hætti framleiðendur og seljendur geta nýtt þau tækifæri sem skapast,“ segir Anna Björk og bendir á að þó markaðurinn hafi raskast þá vilji fólk áfram borða fisk.
Má jafnvel vænta þess að neytendur muni vilja auka fiskneyslu sína enda sjávarafurðir mikilvægur hluti af hollu mataræði. „Bæði til skamms tíma og til lengri tíma má vænta töluverðs vaxtar í netverslun og heimsendingu á matvælum og fylgja því tækifæri sem íslenskir framleiðendur ættu að skoða. Gildir þar að hafa sem besta yfirsýn yfir markaðinn með góðum gögnum, frekar en að byggja ákvarðanir á einhvers konar tilfinningu fyrir þróuninni.“
Tímasetning kórónuveirufaraldursins er að sumu leyti heppileg fyrir sjávarútveginn. Núna er sá tími árs sem Norðmenn eru hvað duglegastir að dæla bolfiski inn á markað og íslenskar útgerðir nokkuð vel í stakk búnar til að halda að sér höndum um skeið, og bíða átekta. Anna segir greinina öllu vana þegar kemur að sveiflum og röskunum, og íslenskur sjávarútvegur hafi ágætis svigrúm til að þróa nýja ferla til að aðlaga framleiðsluna betur nýjum aðstæðum. „Það gæti t.d. falist í því að breyta því hvernig vinnan er skipulögð í fiskvinnslunum, og leggja áherslu á þær vörur þar sem mannshöndin þarf minnst að koma nærri. Veit ég að í Noregi eru sumar fiskvinnslur þegar búnar að grípa til þess ráðs að draga úr t.d. framleiðslu á fiski í raspi og ferskum fiski í neytendaumbúðum, og í staðinn leggja áherslu á frystar vörur.“