Breska verslunarkeðjan Morrisson, sem hefur yfir 550 verslanir í Bretlandi hefur fest kaup á SUB-CHILLING tækninni frá Skaganum 3X og verður fyrsta fyrirtækið til að nýta þessa tækni á Bretlandsmarkaði. Auk SUB-CHILLING hefur Morrisons fest kaup á RoteX uppþiðingarkerfi fyrir frystar afurðir og lausn sem vinnur marning og sundmagahryggi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Skaganum 3X. Heildarsöluverðið nemur 300 milljónum króna.
Samhliða því að reka verslanir er Morrisons framleiðandi á fiski og öðru sjávarfangi til breskra neytenda og er áætlað að uppsetningu búnaðarins í verksmiðju Morrisons í Grimsby í Englandi ljúki í júlí. Kerfið mun viðhalda gæðum og lengja geymsluþol á þeim 20 þúsund tonnum af hvítfisk og laxi sem Morrisons framleiðir árlega, segir í tilkynningunni.
Fram kemur að SUB-CHILLING kerfið sé hannað og þróað af Skaganum 3X og notar sérhæfða tækni í þeim tilgangi að viðhalda upprunalegum gæðum afurðar og auka geymsluþol. Fiskurinn er kældur niður í mínus eina gráðu en til samanburðar verður fiskur kældur með ís aldrei kaldari en um frostmark, segir í tilkynningunni. Ávinningurinn er sagður stífari flök til vinnslu án frumuskemmda vegna ískristallamyndunar og þannig lengist geymsluþol afurðarinnar.
Ragnar A. Gudmundsson, sölustjóri Skaginn 3X, og Peter Nickson, framkvæmdarstjóri fiskisviðs hjá Morrisons.
Ljósmynd/Skaginn 3X
„Þrátt yfir kórónuveiruna tókst okkur að ná saman um þessi viðskipti og er ætlun okkar að óbreyttu að ljúka uppsetningu í júlí. Frá því að við afhentum fyrsta SUB-CHILLING™ kerfið árið 2014 hefur markaðurinn smám saman áttað sig á hverju það getur áorkað. Mörg fyrirtæki hafa bæst í hópinn og viðræður standa yfir við nokkur önnur fyrirtæki. Við trúum því að ofurkælt hráefni verði viðmið markaðarins fyrr en varir,“ segir Ragnar A. Guðmundsson, sölustjóri hjá Skaganum 3X.