Bæði Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, og Bergur Þorkelsson, formaður félagsins, telja að ákvörðun Herjólfs ohf. um að sigla gamla Herjólfi sé verkfallsbrot.
„Það er dagsljóst að það er verið að brjóta reglur á vinnumarkaði með þessu þannig að þetta er ekki til að liðka mikið fyrir,“ segir Jónas.
Nú skoðar Sjómannafélagið hvort tilefni sé til að kæra ákvörðun Herjólfs til félagsdóms.
„Við munum leita allra leiða til þess að stöðva þetta og ef þetta er brot þá verðu það kært til félagsdóms,“ segir Bergur.
„Það vekur mikla furðu að opinbert félag brjóti á grunnréttindum launafólks. Ef þeir telja að þetta útspil sé til þess gert að leysa vandann þá eru þeir á miklum villigötum. Það gerist við samningaborðið en ekki með svona vinnubrögðum.“
Félagsmenn Sjómannafélags Íslands sem starfa á Herjólfi lögðu niður störf í gær og stendur verkfallið í tvo sólarhringa eða fram til miðnættis í nótt. Annað verkfall er fyrirhugað síðar í mánuðinum.
Jónas segir að það skipti engu hvort Herjólfur sigli gamla skipinu eða því nýja, um sé að ræða skip hjá sömu útgerðinni og að þeir starfsmenn sem starfi á skipinu í dag í stað félagsmanna Sjómannafélags Íslands, sem eru 2/3 af undirmönnum Herjólfs, séu að ganga í störf félagsmanna Sjómannafélags Íslands.
„Framkoma útgerðarinnar er þannig að það er hægt að búast við öllu. Ég trúi öllu upp á þá,“ segir Jónas spurður um það hvort ákvörðun Herjólfs hafi verið óvænt.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að málið snerist um að halda þjóðveginum opnum. Spurður hvort það sé ekki ekki skiljanlegt segir Jónas:
„Þeir gera það með því að semja við fólk. Launakjör áhafna Herjólfs [eins og þau eru í dag] er einhliða ákvörðun. Það er ákvörðun um kaup og kjör sem hefur ekki verið samið um.“
Sjómannafélagið og Herjólfur eiga ekki í neinum viðræðum eins og stendur og hefur deilunni verið vísað til ríkissáttasemjara sem hefur ekki boðað fund. Jónas jánkar því að deilan sé í hörðum hnút.
„Það byrjar oft þannig og svo mýkist það einhvern daginn en það er alla vega ekki að gerast í dag.“