Halldór B. Nellett kom til hafnar úr síðustu sjóferð sinni sem skipherra á varðskipinu Þór í vikunni. Hann mun láta af störfum um áramótin eftir að hafa tengst starfi stofnunarinnar í nærri hálfa öld, en hann ætlaði að gerast bóndi.
Þetta hefur nú ekki verið alveg óslitið, var nú skóli þarna í millitíðinni en það voru liðin 48 ár frá því ég byrjaði fyrst 17. september,“ segir Halldór sem er staddur á sjó er blaðamaður ræðir við hann.
Halldór kveðst sáttur við að láta af störfum eftir allan þennan tíma hjá stofnuninni. „Mér líður bara ljómandi vel með þetta og finn bara að núna er rétti tíminn kominn. Ég verð 65 ára núna í febrúar og mín skoðun er nú sú að menn eiga ekki að vera mikið eldri í þessu starfi. Þetta er þess eðlis þetta starf, hvort sem maður er skipstjóri eða flugstjóri er það bara þannig. Svo þegar maður er búinn að helga ævinni þessu starfi þá er kannski kominn tími til að eyða efri árunum í eitthvað annað, ég lít á þetta með tilhlökkun bara.“
Það var ekki sjálfgefið að Halldór myndi halda til sjós enda var hann alltaf mikill sveitastrákur að eigin sögn. „Ég er reyndar alinn upp í sveit og ætlaði alltaf að verða bóndi, það var alltaf á stefnuskránni að fara í bændaskóla,“ segir hann og minnist þess að hafa fundið fyrir svakalegum skólaleiða þegar hann var sextán ára. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að taka hlé frá skólagöngu og var ekki verra að finna eitthvað að gera sem gæti hjálpað honum á vegferðinni að bóndastarfinu.
„Á þeim tíma voru ekki alltaf miklir aurar eins og allir vita, þannig að ég ákvað að skella mér á sjó til að ná mér í skotsilfur svo ég gæti farið í bændaskólann. Ég var nú aðeins tengdur stofnuninni, mágur hennar mömmu var yfirmaður og einhvern veginn fór ég til Gæslunnar og byrjaði sem messagutti 17. september 1972 á varðskipinu Ægi.
Það var hins vegar enginn dans á rósum í fyrsta túr Halldórs. „Ég var alveg hrikalega sjóveikur fyrstu dagana. Maður getur eiginlega ekki valið verri stað til að vera sjóveikur en í gluggalausu eldhúsi og í allri matarlyktinni. Þetta er ekki góður staður til að byrja á. Ég var þarna nýbyrjaður og grænn af sjóveiki. Það kom allt upp úr mér, ældi bara galli í restina.“
Hann kveðst af fenginni reynslu alls ekki mæla með því að hefja sjómennsku í eldhúsinu. „Mæli frekar með því að menn byrji á fiskiskipi undir beru lofti, enda leið manni betur þegar maður fór með kaffið og teið til skipstjórnarmannanna uppi í brú. Þá sá maður sjóndeildarhringinn. Oft var það þannig að ég ílengdist þarna uppi í brú og þar voru margir góðir menn sem fóru að kynna mig fyrir því hvað þetta gengi út á. Sýna mér tækin og virkni þeirra og þess háttar. Ég man sérstaklega eftir Jóni Steindórssyni heitnum loftskeyramanni hann var duglegur við þetta. Mér leið alltaf vel þarna og þetta endaði oft í með því að það var hringt upp til að kalla mig niður í eldhús.“
Þrátt fyrir mikla sjóveiki kom ekki til greina að hleypa mönnum í koju útskýrir Halldór sem rifjar upp hversu mikið var að gera um borð, sérstaklega í uppvaskinu sem var iðulega gert í höndunum enda engar uppþvottavélar. Þá voru 24 í áhöfn og allt leirtau og matur borið á borðin. „Menn sátu bara við borðin og það þurfti að bera allt í mennina. Núna er þetta allt öðruvísi, það er kominn matsalur og menn ná í allt sjálfir.“ Sem betur fer vandist hann sjónum og fór að draga úr sjóveikinni.
Spurður hvort aðbúnaður áhafna hafi ekki tekið gríðarlegum breytingum frá þessum tíma svarar Halldór því játandi. „Já, maður lifandi það er ekki spurning. Þetta er orðið allt annað í dag en þegar ég var að byrja. Þá mátti ekki hringja í land, sjónvarp var ekki en bara þegar var stutt frá landi. Maður fékk að hlaupa til að hringja þegar maður var í landi, annars mátti ekki hringja heim. Nú eru allir með sinn klefa, síma, internet og sjónvarp. Gervihnattasjónvarp gefur sjónvarp um allan sjó. Þetta er gríðarleg breyting.“
Halldór ætlaði sér aldrei langan starfsferil hjá stofnuninni enda stóð bara til að safna fyrir skólagöngu. „Sextán ára strákur er kannski ekki mikið að fylgjast mikið með fréttum og áður en maður vissi af var maður kominn á kaf í þorskastríðin með Guðmundi Kærnested og hans járnkörlum. Þegar þeir kláruðu 50 mílurnar sumarið 1973 þá var ákveðið að færa út í 200 og ég ákvað að halda áfram enda kom ekki til greina að fara í skóla á meðan barist var fyrir yfirráðum yfir fiskimiðunum.
Maður sá það síðar að á þessum árum þarna 1972 til 1976 var alveg síðasti séns að vernda fiskimiðin hér við Ísland, ansi hræddur um að ef ekki verið verið farið í þessar útfærslur á landhelginni hefði eins farið fyrir þorskstofninum við Ísland og fór hjá þeim á Nýfundnalandi. Þarna á þessum tíma var fjöldi erlendra togara, milli eitt og tvö hundruð að fiska við landið og nýir skuttogarar streymdu til landsins.“
Það var fyrst þegar þorskastríðunum lauk 1976, fjórum árum eftir að hann hóf störf hjá Landhelgisgæslunni, að Halldór fór að hugsa sér til hreyfings. „Hann var nú enn að blunda í mér bændaskólinn eða iðnnám, maður var aðeins að hugsa um stýrimannaskólann en var ekkert hrifinn af því að vera svona lengi að heiman. Ég var mjög lengi að ákveða mig en tók að lokum ákvörðun um að fara í stýrimannaskólann og þar með var sú braut mörkuð.“
Óhætt er að segja að Halldór hafi víðtæka reynslu úr störfum sínum fyrir Landhelgisgæsluna. Fyrst var hann messi, síðar háseti, svo bátsmaður, þriðji stýrimaður, annar stýrimaður og yfirstýrimaður, en á því tímabili lærði hann einnig köfun. Þá hefur hann prófað sjómælingar á sjómælingaskipi og úrvinnslu gagna hjá sjómælingadeild.
Jafnframt hefur hann starfað í landi um árabil og var um átta ár yfirmaður aðgerðasviðs. Halldór hefur auk þess verið viðloðandi flugdeildina í áratug þar sem hann starfaði sem siglingamaður á Fokker-vél Gæslunnar og síðan spilmaður og sigmaður á þyrlum. „Síðan hlotnaðist mér sá heiður að gegna stöðu forstjóra í þrjá mánuði á meðan forstjórinn fór í námsleyfi,“ bætir Halldór við og hlær.
Að öllu þessu sögðu er eðlilegt að vilja vita hvað hafi verið skemmtilegast. „Ætli það sé ekki bæði að vera á sjó og í flugdeildinni. Það hefur verið mjög skemmtilegur tími. Mesta argaþrasið var þegar maður var yfirmaður aðgerðasviðs, það var mesta ónæðið. Aldrei friður og ansi oft á bakvöktum,“ svarar Halldór og skellir upp úr.
Það sem stendur upp úr á ferlinum eru allar vel heppnuðu bjarganirnar sem hann hefur komið að, segir Halldór. „Það hafa verið margar vel heppnaðar bjarganir á þessum tíma hjá flugdeildinni og á sjónum bæði hér heima og í Miðjarðarhafinu í verkefnum fyrir Frontex eða landamærastofnum Evrópu. Ég er nú ekki með tölu og hef ekki hugmynd um fjölda en það eru ansi margar.“
Spurður hvernig honum lítist á yngri kynslóðina kveðst Halldór bara nokkuð sáttur. „Mér líst bara vel á þau og treysti þeim fullkomlega fyrir þessu verkefni. Ég er ekki einn af þeim sem held að ég sé ómissandi. Ég lærði sjálfur af gömlu mönnunum og vonandi hef ég kennt þessu unga fólki eitthvað líka. Það er nú bara þannig eins og sagt er; gamall temur, ungur nemur. Það á alltaf við í þessu og mjög efnilegt fólk sem er að taka við.“
Eins og fyrr segir er alveg ljóst að Halldór hefur á löngum ferli öðlast mikla þekkingu en kveðst ekki ætla að nýta tímann sem nú gefst til að skrifa bækur.
„Nei, ég hef alveg nóg að gera. Ég er að stækka sumarbústaðinn í Grímsnesi og svo er maður alltaf að gaufast eitthvað í golfi þótt maður sé enginn snillingur í því. Maður vill líka ferðast eitthvað, ég á eftir að skoða marga áhugaverða staði hér heima og erlendis eins og píramídana, Pompei og Kínamúrinn. Vonandi endist mér aldur til þess að skoða allt þetta.“