Fullkomin og hraðskreið Sjöfn

Snarbeygt á stjórborða.
Snarbeygt á stjórborða. mbl.is/Árni Sæberg

„Haldið ykkur fast, nú beygjum við hart í bak,“ sagði Þorsteinn Jónínuson, skipstjóri hjá Rafnari ehf. á björgunarskipinu Sjöfn, í stuttri kynnisferð um sundin við Reykjavík. Það var ekki ofsögum sagt að beygjan væri kröpp. Báturinn snarbeygði á 40 hnúta hraða (74 km/klst.) og sigldi í þröngan hring en skrikaði aldrei af stefnunni. Það var eins gott að það voru góðir armar á demparastólunum í stýrishúsinu því miðflóttaaflið lét finna vel fyrir sér. Það var merkilegt að upplifa rásfestuna.

Þorsteinn sigldi áfram og sagði okkur að horfa á skjá sem sýndi sjónarhorn myndavélar aftur af bátnum. Báturinn var á fullri siglingu þegar Þorsteinn sló snöggt af og báturinn stoppaði. Það kom engin alda í afturendann eins og þekkist vel á mörgum hraðskreiðum bátum þegar stoppað er snögglega.

Aftur var gefið í botn og tekin róleg beygja og stefnt þvert á nýrisna bógölduna. „Verið þið viðbúnir,“ sagði Þorsteinn skipstjóri þegar við nálguðumst kjölfarið. Svo fór hann að hlæja og við skildum hvers vegna. Það var eiginlega engin bógalda og engin högg eða læti þegar við sigldum þar yfir!

Þegar hraði „planandi“ báta er aukinn lyfta þeir sér í vatninu og skauta svo yfir vatnsflötinn fremur en að sigla í gegnum vatnið. Lítil mótstaða og viðnám við sjóinn stuðlar að sparneytni. Þessi stóri bátur fór mjög áreynslulaust „upp á plan“. Sjöfn virtist lyftast öll nokkuð jafnt þegar hraðinn jókst, en ekki svo að stefnið risi fyrst og dytti svo niður „á plan“ eins og algengt er.

Þorsteinn Jónas Sigurbjörnsson og Þorsteinn Jónínuson frá Rafnari um borð …
Þorsteinn Jónas Sigurbjörnsson og Þorsteinn Jónínuson frá Rafnari um borð í Sjöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Vel útbúið björgunarskip

Björgunarsveitin Ársæll í Reykjavík fékk Sjöfn afhenta á liðnu hausti. Bátasmiðjan Rafnar ehf., sem smíðaði skipið, fékk að sýna það Morgunblaðsmönnum. Sjöfn er af gerðinni Rafnar 1100. Báturinn er 11 metra langur og ristir aðeins 55 sentímetra. Hann er knúinn tveimur 300 hestafla, átta strokka Mercury-utanborðsvélum. Í bátnum er 600 lítra eldsneytistankur. Sjöfn getur siglt á allt að 40 hnúta hraða (74 km/klst.) og á 25 hnúta hraða (46 km/klst.) á annarri vélinni.

Á Sjöfn er rúmgott, upphitað stýrishús með fjórum demparastólum. Þar er gott pláss fyrir galla, björgunarvesti og ýmsan annan búnað. Báturinn er mjög vel tækjum búinn til leitar og björgunar. Þar má nefna ratsjá, fullkomna siglingatölvu, öfluga hitamyndavél, fjarskiptabúnað og búnað til að fjarstýra leitardróna. Stjórntæki drónans eru tengd stjórntækjum bátsins og uppfæra stöðugt staðsetningu móðurskipsins svo dróninn rati aftur um borð.

Öflugir rafalar á utanborðsvélunum hlaða inn á rafgeymana og knýja flókinn rafbúnaðinn. Auk þess er báturinn með öflug leitarljós og vinnuljós. Stýrishúsið er svo vel hljóðeinangrað að það var ekkert mál að tala saman í eðlilegri raddhæð þótt siglt væri á fullri ferð. Sjöfn er án efa eitt fullkomnasta björgunarskipið af sinni stærð sem til er.

Rafnar fluttur til Reykjavíkur

Bátasmiðjan Rafnar ehf. er nú flutt í nýtt húsnæði að Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn. Þar eru skrifstofur og bátasmiðja. Þegar við komum í heimsókn var í smíðum rauðgulur Rafnar 1100-sjóbjörgunarbátur fyrir kaupanda í Karíbahafi. Hann verður með svokölluðum T-toppi, eða opnu stýrishúsi sem hentar vel í hitanum. Stoðir sem halda þakinu uppi eru jafnframt flotholt sem valda því að hvolfi bátnum þá veltur hann aftur á réttan kjöl.

Nú eru Rafnar-bátar smíðaðir á Íslandi, Grikklandi og Stóra-Bretlandi. Smíði Rafnar-báta er að hefjast í Hollandi, Tyrklandi og Bandaríkjunum.

Össur hannaði skrokklagið

Hönnun Rafnar-bátanna er varin af einkaleyfi og skrokklagið, ÖK Hull, er kennt við höfund þess Össur Kristinsson, stoðtækjasmið og stofnanda Rafnars. Gríðarleg þróunarvinna liggur að baki skrokknum og töldu starfsmenn að prófaðar hafi verið allt að 400 mismunandi útfærslur í prufutönkum. Þeir hjá Rafnari eru opnir fyrir ábendingum um það sem betur má fara og eru sífellt að endurbæta bátana.

Hróður hönnunar og sjóhæfni Rafnar-bátanna hefur borist víða. Þorsteinn skipstjóri kvaðst vera búinn að fara með um 1.600 manns í prufuferðir. Þrautreyndir sjómenn, t.d. úr bandarísku strandgæslunni og sjóhernum, báðu fyrir sér þegar Þorsteinn bauð upp á snarbeygjur og aðrar kúnstir, en önduðu léttar þegar ekkert fór úrskeiðis. Sumar af æfingunum hefðu verið háskalegar á hefðbundnum bátum.

Landhelgisgæslan hefur langa og góða reynslu af Rafnar-bátum og eins margar björgunarsveitir. Gríska strandgæslan gerir út 15 Rafnar-báta svo nokkuð sé nefnt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 538,11 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 347,10 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 197,29 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 231,97 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.11.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.657 kg
Ýsa 1.454 kg
Ufsi 9 kg
Hlýri 4 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 3.126 kg
22.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 132 kg
Þorskur 123 kg
Keila 27 kg
Ufsi 13 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 302 kg
22.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 382 kg
Ýsa 259 kg
Samtals 641 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 538,11 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 347,10 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 197,29 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 231,97 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.11.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.657 kg
Ýsa 1.454 kg
Ufsi 9 kg
Hlýri 4 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 3.126 kg
22.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 132 kg
Þorskur 123 kg
Keila 27 kg
Ufsi 13 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 302 kg
22.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 382 kg
Ýsa 259 kg
Samtals 641 kg

Skoða allar landanir »