Tilraunir voru gerðar til að veiða ljósátu í Ísafjarðardjúpi á nýstárlegan hátt í tveimur leiðöngrum árið 2018. Aðferðin byggist á því að nota blátt ljós til að laða ljósátu að dælu sem dælir henni að mestu lifandi um borð í skip. Líffræðingarnir Petrún Sigurðardóttir og Ástþór Gíslason á Hafrannsóknastofnun fjalla um þessar tilraunir í nýlegri skýrslu. Í samtali við Morgunblaðið segir Petrún að tilraunirnar hafi í sjálfu sér gengið ágætlega og ljósátan hafi dregist að ljósinu. Hún segist ekki vita til þess að verkefninu verði haldið áfram hér við land.
Farnir voru tveir leiðangrar sumar og haust 2018 með norska skipinu Røstnesvåg og var aflinn bræddur um borð til að framleiða lípíðolíu og mjöl. Aðspurð segir Petrún að olían sé rík af fitusýrum, t.d. omega-fitusýrum, og andoxunarefnum eins og astaxanthin sem gefi henni rauðan lit. Hún er aðallega notuð sem fæðubótarefni. Einnig myndast mjöl við framleiðslu á ljósátuaflanum sem er aðallega notað í dýrafóður.
Markmið leiðangranna var að prófa virkni dælunnar við ólíkar aðstæður ásamt því að rannsaka tegundasamsetningu ljósátu og meðafla. Betur gekk að veiða ljósátuna um haustið og var heildarafli þá töluvert meiri, 13,1 tonn, en um sumarið, 4,6 tonn.
„Ljósátan laðaðist greinilega að ljósinu á dælunni og safnaðist yfirleitt fljótt að henni. Fiskur leitaði einnig mikið í ljósátuna í kringum dæluna, en það olli vandræðum í dælingu og festust nokkrir fiskar í dælunni á meðan dælt var. Til að koma í veg fyrir þetta var reynt að setja 50 mm möskva net fyrir dæluopið í september, en ljósátuaflinn reyndist þá minni og var netið því fjarlægt eftir 17 daga,“ segir í ágripi skýrslunnar.
Um sumarið var aflinn aðallega fullorðin agga (Thysanoessa raschii, 96% af afla). Um haustið fannst einnig mest af öggu (66%), en öfugt við fyrri leiðangurinn þá fundust bæði fullorðin dýr og ungviði í aflanum. Einnig fannst þá mikið af ungviði augnsílis og náttlampa. Meðafli var sömuleiðis meiri um haustið þegar alls fundust 46 loðnu- og/eða síldarlirfur í sýnum sem voru tekin úr aflanum, en um sumarið aðeins eitt seiði. Áætlað er að heildarmagn fiskseiða sem veiddust um haustið hafi verið um 242.000 seiði.
Þó ekki sé áætlað að halda tilraunaveiðum með þessari dælu áfram við Ísland þá eru ýmsar tilraunir í gangi hvað varðar ljósátu. Þannig fékk Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. leyfi til veiða á ljósátu með fínriðnu neti í Ísafjarðardjúpi í sumar og haust. Einnig eru, að sögn Petrúnar, í gangi tilraunir við að fóðra þorsk með hjálp ljóstækni hjá Ocean EcoFarm ehf. í Steingrímsfirði. Tilraunin gengur út á að laða ljósátu að búrum eða kvíum með þorski í sem svo nýtist sem fóður fyrir þorskinn.
Spurð um veiðar á ljósátu í atvinnuskyni nefnir Petrún að slíkar veiðar séu aðallega stundaðar í Suður-Íshafi á tegund sem nefnist Euphasia superba, sem er stærri en þær íslensku og er því líklega auðveldara að veiða. Þar er net dregið á eftir skipi og afla stöðugt dælt upp úr netinu um borð í skipið. Þær veiðar eru kvótasettar. Einnig voru stundaðar veiðar á öggu, ljósátutegundinni sem fyrr er nefnd, við Kanada með 500 tonna árlegan kvóta, en Petrún segist ekki vita hvort þær veiðar séu enn í gangi.
Norska fyrirtækið Calanus AS hefur stundað veiðar á rauðátu, en hún er mun smærri en ljósáta. Aflinn er ekki mjög mikill en verðmæt efni eins og omega-fitusýrur, astaxantín og fleiri tegundir eru unnin úr aflanum. Norðmenn eru jafnframt að kanna hvort átan inniheldur lífvirk efni.
Ástþór Gíslason, annar höfunda skýrslunnar um rannsóknirnar í Ísafjarðardjúpi, hefur um árabil rannsakað m.a. svif og átu í hafinu. Hann segir um veiðar á átu:
„Það er gríðarmikið af átu í hafinu og hún er því auðlind sem kemur til greina að nýta, en veiðar eru vandkvæðum bundnar vegna þess hversu smávaxin átan er. Hún er líka framarlega í fæðukeðjunni en það á svo sem við um fleiri nýtta stofna.
Vegna vandkvæða við að veiða átu er hætt við að aflinn yrði aldrei mjög mikill. Því þyrfti að huga vel að því að vinna verðmæt efni úr aflanum. Og auðvitað þarf að hafa í huga vistfræðilegt hlutverk átunnar og einnig huga að meðafla í veiðunum.“