Gera upp þorskastríðsskipið Arctic Corsair

Arctic Corsair hefur verið skoðaður og er verið að meta …
Arctic Corsair hefur verið skoðaður og er verið að meta kostnað við að gera skipið upp. Það mun síðan þjóna sem safn. Ljósmynd/Hull: Yorkshire’s Maritime City

Einn sögufrægasti síðutogari Breta hefur verið færður í þurrkví og er stefnt að því að gera hann upp. Skipið hefur verið safn í rúma tvo áratugi og verður safnið nú hluti af uppgerðu hafnarsvæði í Hull. Skipið gerðist frægt hér á landi þegar það sigldi á varðskipið Óðin í þorskastríðinu árið 1976.

Síðutogarinn Arctic Corsair H-320 á sér ríka sögu en skipið var smíðað árið 1960 í Cook, Welton & Gemmell-skipasmíðastöðinni í bænum Beverly fyrir útgerðina Boyd Line. Skipið var útbúið til úthafsveiða og sótti á norðlæg mið og þótti mjög gott veiðiskip enda aflabrögðin með besta móti á gullaldarárum þess. Skipið fékk nafnið Arctic Corsair en systurskipið Arctic Cavalier hafði verið sjósett mánuði á undan.

Skipið er eitt það síðasta sem eftir er af úthafsflota …
Skipið er eitt það síðasta sem eftir er af úthafsflota Hull. Ljósmynd/Hull: Yorkshire’s Maritime City

Skipin tvö voru fyrstu togarar Boyd Line búnir díselvélum og voru systurskipin með 6 sýlindra Mirrees Monarch-aðalvél sem gaf 1.300 kW og var hámarkshraði 15 hnútar. Bæði skipin voru 764 brúttótonn, 57 metrar að lengd og 10,2 metra breið.

Arctic Corsair sótti aðallega á miðin í Barentshafi og við Íslandsstrendur og var þekkt fyrir að sækja á fjarlæg mið. Má nefna að frá heimahöfn skipsins í Hull á Íslandsmið og til baka eru 2.000 sjómílur og 2.700 sjómílur frá heimahöfn til Bjarnareyjar í Barentshafi og aftur heim. Áhöfn Arctic Corsair þurfti að leggja mikið á sig á þessum árum og sótti skipið einnig gjöful mið við Nýfundnaland en siglingin þangað höfn í höfn er um 5.000 sjómílur.

Sjóræningi í átökum við Íslendinga

Það hefur verið hörkuáhöfn um borð og skipstjórar aflaklær því skipið fiskaði alla tíð vel. Árið 1973 setti skipið heimsmet í lönduðum þorski og ýsu úr Hvítahafi.

Arctic Corsair má þýða sem „Norðurslóðasjóræninginn“ og átti skipið eftir að koma við sögu í þorskastríðunum. Árið 1976 hélt skipið á Íslandsmið en þá geisuðu átök við Breta vegna ákvörðunar Íslendinga 15. júlí 1975 um að færa efnahagslögsöguna úr 50 mílum í 200 mílur.

Á Íslandsmiðum 30. apríl 1976 reyndi varðskipið Óðinn í þrígang að klippa á togvíra Arctic Corsair án árangurs. Ákvað Charles Pitts, skipstjóri á breska síðutogaranum, að sigla á Óðin. Sakaði hann síðar íslensku Landhelgisgæsluna um að beita „hættulegum aðferðum“.

Óðinn eftir ásiglingu í þorskastríðunum.
Óðinn eftir ásiglingu í þorskastríðunum.

Við áreksturinn urðu nokkrar skemmdir á Óðni en skemmdirnar voru umfangsmeiri á Arctic Corsair sem fékk gat fyrir neðan vatnslínu á stefni. Áhöfnin á breska herskipinu Galatea sendi viðgerðarteymi til að aðstoða við viðgerðir en skemmdirnar voru taldar slíkar að Pitts ákvað að snúa skipinu til Bretlands og stóðu viðgerðir í fleiri mánuði.

Árið 2017 skiptust áhafnir Arctic Corsair og Óðins á skipsbjöllum sem táknrænum vinahótum.

Að safni

Nokkurm árum síðar, 1978, var skipinu breytt og útbúið til uppsjávarveiða en þær voru aðeins stundaðar í nokkur ár og var skipinu lagt við bryggju 1981. Stóð skipið ónotað í fjögur ár en var síðan breytt á ný og útbúið til veiða á botnfiski árið 1985 og nafninu breytt í Arctic Cavalier 1988.

Gömlu togurunum hafði fækkað mjög og ákvað Adam Fowler hjá áhugamannasamtökum um fiskveiðisögu Hull, STAND, að hefja söfnun árið 1991 í þeim tilgangi að festa kaup á skipinu til að varðveita útgerðarsögu bresku hafnarborgarinnar. Tókst að afla 45 þúsund punda framlags frá borgarstjórn Hull og voru fest kaup á togaranum 1993 og nafninu breytt aftur í Arctic Corsair.

Skipinu var komið fyrir við bryggjukantinn við Hull, á milli Drypool- og Myton-brúar og hófust sjálfboðaliðar handa við að standsetja skipið og breyta í safn sem opnað var fyrir almenningi 1999.

Arctic Corsair var í áraraðir við viðlegukant í Hull á.
Arctic Corsair var í áraraðir við viðlegukant í Hull á. Ljósmynd/George Robinson

5 milljarða verkefni

Í síðasta mánuði voru hins vegar allir gripir í skipinu fjarlægðir og skipið undirbúið fyrir flutning í þurrkví. Þar var hafist handa við að hreinsa skipið og meta kostnað við að gera það upp.

Stefnt er að því að skipið verði varanlega í þurrkví en verði áfram safnskip. Viðgerð skipsins er hluti af verkefni bæjaryfirvalda í Hull er snýr að því að endurbyggja hafnarsvæðið undir heitinu „Hull Maritime project“ og hefur verið ráðstafað til uppbyggingarinnar 30,3 milljónum sterlingspunda, jafnvirði 5,2 milljarða íslenskra króna.

Verkefnið nær til fimm þátta og er einn þeirra eins og fyrr segir Arctic Corsair en auk þess er stefnt að því að gera upp North End-skipasmíðastöðina, vitaskipið Spurn Lightship, hafnarskrifstofurnar og sjóminjasafnið í Hull.

Stefnt er að því að skipið verði áberandi í nýju …
Stefnt er að því að skipið verði áberandi í nýju hafnarsvæði Hull borgar. Mynd/Hull: Yorkshire’s Maritime City

Úr Morgunblaðinu 1976:

Brezki togarinn Artic Corsair sigldi á varðskipið Óðin síðdegis í gær, þegar varðskipið ætlaði að skera vírana aftan úr togaranum. Bæði skipin skemmdust nokkuð, þó togarinn miklu meira. Gat kom á stefni togarans, þannig að sjór átti greiða leið niður í stafnhylki og keðjukassa. Áttu togaramenn fljótlega í erfiðleikum, en viðgerðarflokkur frá freigátunni Galatheu var sendur um borð til að þétta gatið. Gert var ráð fyrir, að togarinn héldi áleiðis til Englands s.l. nótt í fylgd annars togara eða dráttarskips. Fyrr í gær tókst Óðni að klippa á víra brezks togara og ennfremur tókst Baldri að klippa á togvíra.

Gunnar Ólafsson talsmaður Landhelgisgæzlunnar sagði í gær, að þrjú varðskip hefðu tekið saman þátt í aðgerðum á miðunum um 17 mílur suður af Hvalbak, eða við Berufjarðarál. Þar voru 22 togarar að veiðum og til varnar voru 3 dráttarbátar og 4 freigátur. Togararnir gátu lítið sem ekkert veitt í fyrradag og fyrrinótt og kvörtuðu skipstjórar þeirra undan miklu aflaleysi.

Morgunblaðið 1. maí 1976.
Morgunblaðið 1. maí 1976. Skjáskot

Í gærmorgun tóku verndarskipin það til bragðs, að reyna að láta 1-2 togara veiða í einu og veita þeim góða vernd. En þetta gekk ekki of vel, því um kl. 10.30 í gærmorgun komst varðskipið Óðinn í gegnum varnarlínuna og náði að klippa á afturvír Kingston Pearl H-127. Þetta gerðist 17 mílur suður af Hvalbak. Eftir klippinguna reyndi Euroman að sigla á varðskipið en tókst ekki. Fleiri dráttarbátar komu að Óðni, en hann slapp alltaf undan. Skömmu síðar flugu þyrlur freigátnanna mjög glæfralega yfir varðskipið Baldur og reyndu að hindra varðskipið í að nálgast togarahóp. Þetta gafst ekki vel, því Baldur slapp inn að togara, sem var á veiðum og náði til að klippa á báða togvíra Boston Kestrel FD-256 á svo til sama stað og Óðinn klippti á togvíra Kingston Pearl. Eftir áreksturinn reyndu Statesman, Lloydsman og freigátur að þrýsta sér að Baldri, en varðskipið slapp frá þeim.

Síðan gerðist það litlu síðar að varðskipið Óðinn ætlaði að klippa á togvíra Artic Corsair H-320. Þegar Óðinn renndi sér aftur með síðu togarans, slógu togaramenn úr afturblökkinni og beygðu snöggt á stjórnborða að Óðni. Óðinn gat ekki beygt frá, þar sem freigátan Mermaid og togari voru bakborðsmegin við hann, og því hætta á árekstri við þau skip. Artic Corsair gat því siglt á fullri ferð á stjórnborðshlið varðskipsins. Varðskipið skemmdist nokkuð á 10 metra kafla. Rifnaði lunningin og 3 lítil göt komu á varðskipið. Öðinn hélt þegar til Seyðisfjarðar og er vonast til að viðgerð ljúki þar í dag og skipið geti þá haldið á miðin á ný.

Varðskipið Óðinn hefur staðið við Óðinsbryggju um árabil.
Varðskipið Óðinn hefur staðið við Óðinsbryggju um árabil.

Af togarunum er það að segja, að stefni hans flettist út og að sögn brezka flotamálaráðuneytisins kom 3 metra rifa á bóg skipsins ofan sjólínu. Í hvert skipti, sem togarinn stakk sér í öldu flæddi sjór niður í stafnhylki og keðjukassa. Viðgerðarflokkur var sendur frá freigátunni Galateu til að þétta gatið. Að því loknu átti togarinn að halda til Englands í fylgd annars togara eða dráttarskips.

Mike Smarrt fréttaritari Mbl. í Hull sagði í gær, að eigendur togarans hefðu gefið upp, að hann hefði farið frá Hull fyrir 7 dögum og því aðfeins verið 2-3 daga á veiðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.5.24 415,38 kr/kg
Þorskur, slægður 17.5.24 510,68 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.5.24 395,54 kr/kg
Ýsa, slægð 17.5.24 265,68 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.5.24 127,02 kr/kg
Ufsi, slægður 17.5.24 194,59 kr/kg
Djúpkarfi 8.5.24 313,00 kr/kg
Gullkarfi 17.5.24 177,58 kr/kg
Litli karfi 15.5.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 6.5.24 150,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.5.24 Elli P SU 206 Línutrekt
Þorskur 4.962 kg
Ýsa 1.338 kg
Steinbítur 561 kg
Keila 136 kg
Karfi 4 kg
Hlýri 4 kg
Samtals 7.005 kg
18.5.24 Sandfell SU 75 Lína
Steinbítur 5.212 kg
Þorskur 633 kg
Ýsa 575 kg
Samtals 6.420 kg
18.5.24 Svanur BA 413 Sjóstöng
Þorskur 117 kg
Ufsi 15 kg
Samtals 132 kg
18.5.24 Álka ÍS 409 Sjóstöng
Þorskur 192 kg
Samtals 192 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.5.24 415,38 kr/kg
Þorskur, slægður 17.5.24 510,68 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.5.24 395,54 kr/kg
Ýsa, slægð 17.5.24 265,68 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.5.24 127,02 kr/kg
Ufsi, slægður 17.5.24 194,59 kr/kg
Djúpkarfi 8.5.24 313,00 kr/kg
Gullkarfi 17.5.24 177,58 kr/kg
Litli karfi 15.5.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 6.5.24 150,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.5.24 Elli P SU 206 Línutrekt
Þorskur 4.962 kg
Ýsa 1.338 kg
Steinbítur 561 kg
Keila 136 kg
Karfi 4 kg
Hlýri 4 kg
Samtals 7.005 kg
18.5.24 Sandfell SU 75 Lína
Steinbítur 5.212 kg
Þorskur 633 kg
Ýsa 575 kg
Samtals 6.420 kg
18.5.24 Svanur BA 413 Sjóstöng
Þorskur 117 kg
Ufsi 15 kg
Samtals 132 kg
18.5.24 Álka ÍS 409 Sjóstöng
Þorskur 192 kg
Samtals 192 kg

Skoða allar landanir »