Tækjakosturinn aldrei betri en nú

Georg Lárusson Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar
Georg Lárusson Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar mbl.is/Árni Sæberg

Viðburðaríkt ár er að baki hjá Landhelgisgæslunni og hafa átt sér stað miklar umbætur á starfsemi stofnunarinnar. Unnið er að byggingu nýs flugskýlis, sex þyrluáhafnir voru starfandi allt árið og til landsins kom nýtt varðskip. Forstjóri Landhelgisgæslunnar telur stofnunina aldrei hafa búið yfir öflugri tækjakosti en nú.

„Óhætt er að segja að árið sem nú er að líða hafi verið afar eftirminnilegt og tíðindamikið hjá Landhelgisgæslu Íslands,“ svarar Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, spurður hvað standi upp úr á starfsárinu sem er að ljúka.

Varðskipið Freyja kom til Siglufjarðar í fyrsta sinn 6. nóvember.
Varðskipið Freyja kom til Siglufjarðar í fyrsta sinn 6. nóvember. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem helst stendur upp úr eru þær framfarir sem orðið hafa á aðbúnaði Landhelgisgæslunnar á árinu og mörg tímabær framfaraskref voru stigin í átt að bættu öryggi þjóðarinnar. Liggur þar beinast við að nefna að í upphafi ársins hvarflaði ekki að nokkrum manni að nýtt varðskip yrði komið í flota Landhelgisgæslunnar áður en árið væri á enda en með framsýni, elju og framtakssemi stjórnvalda og starfsmanna Landhelgisgæslunnar tókst að finna vel búið og öflugt skip sem nú er orðið sérútbúið til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland.

Þá var það sömuleiðis mikið fagnaðarefni að skipið fengi heimahöfn á Siglufirði. Það eitt og sér er líklegast stærsta áþreifanlega skref sem íslensk stjórnvöld hafa stigið í átt að auknu öryggi á norðurslóðum, fyrir landsbyggðina og sjófarendur um allt land.“

Bætt aðstaða og sex áhafnir

Samþykkt var á árinu að byggja nýtt flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og telur Georg það marka tímamót í sögu flugrekstrar hjá stofnuninni. „Sannkölluð bylting í aðbúnaði starfsfólks flugdeildarinnar,“ segir hann og útskýrir að með öflugri öryggistækjum og auknum öryggiskröfum hafi þarfir Landhelgisgæslunnar breyst. Kveðst hann sannfærður um að með nýju flugskýli verði flugdeild stofnunarinnar tryggð viðunandi aðstaða sem uppfyllir kröfur nútímans.

„Á árinu var sömuleiðis lokið við að innleiða þyrluflotann þegar þriðja þyrlan af gerðinni Airbus Super Puma H225 kom til landsins og þar með rúmuðust loftför Landhelgisgæslunnar ekki lengur fyrir í gamla skýlinu sem byggt var af breska flughernum árið 1942. Þeir sem átt hafa leið fram hjá Reykjavíkurflugvelli hafa eflaust séð hversu hratt og vel framkvæmdir hafa gengið. Jarðvinna er langt komin. Stefnt er að því að skýlið verði reist í vor og verður vonandi tilbúið til notkunar með tengibyggingu fyrir næsta vetur.“

Viðbragðsgeta stofnunarinnar hefur verið með besta móti að sögn Georgs sem bendir meðal annars á að allt árið 2021 hafi stofnunin haft sex þyrluáhafnir sem hann fullyrðir að auki öryggi sjófarenda enn frekar.

Viðbragðsgetan er sögð hafa batnað til muna.
Viðbragðsgetan er sögð hafa batnað til muna. mbl.is/Unnur Karen

Aldrei jafn vel búin

„Landhelgisgæslan hefur aldrei verið jafn vel tækjum búin og fyrir það erum við afar þakklát. Ég held að það megi alveg fullyrða að árið 2021 sé eitt viðburðaríkasta ár í sögu Landhelgisgæslunnar sé litið til framfara í aðbúnaði starfsfólks og aukinnar björgunargetu þjóðarinnar. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur aldrei verið öflugri en nú. Við hjá Landhelgis- gæslunni erum þeirrar gæfu aðnjótandi að hingað hefur valist afburðafólk, árið hefur verið krefjandi en verkefnin hafa verið leyst af miklum sóma“

Áttuðu sig ekki á aldri Týs

Varðskipið Týr lauk síðustu eftirlitsferð sinni fyrir Landhelgisgæsluna 15. nóvember, en í stað Týs kom varðskipið Freyja og hafa miklar umbætur fylgt henni fyrir öryggi sjófarenda að sögn forstjórans.

„Við áttuðum okkur ekki á því hvað hitt skipið var orðið gamalt fyrr en við fengum Freyju. Nú hefur Landhelgisgæslan á að skipa tveimur öflugum varðskipum sem geta brugðist við ef hætta steðjar að stórum skipum sem sigla hér við land. Með heimahafnir í Reykjavík og á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara er um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi,“ segir Georg.

„Landhelgisgæslan var lánsöm að fyrir valinu varð skip sem er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en skipið býr til að mynda yfir meiri dráttargetu en Þór. Á þá getu Freyju hefur nú þegar reynt en í lok nóvember var flutningaskipið Francisca dregið frá Straumsvík norður á Akureyri og þetta fyrsta verkefni Freyju sýndi okkur hver getan er á neyðarstund. Við erum í sjöunda himni með varðskipið Freyju.“

Týr var tekinn í slipp æi vor og kom meðal …
Týr var tekinn í slipp æi vor og kom meðal annars í ljós að önnur vélin væri ónothæf. mbl.is/sisi

Georg segir Tý hafa þjónað þjóðinni og Landhelgisgæslunni vel í gegnum árin og hafi áhafnir skipsins unnið mörg þrekvirki á þeim 46 árum sem skipið var í þjónustu stofnunarinnar. „Liggur þar beinast við að nefna vasklega framgöngu áhafnarinnar á Tý í síðasta þorskastríðinu auk margra annarra afreka. Skipið er barn síns tíma og kröfur nútímans eru allt aðrar og meiri en uppi voru fyrir nær hálfri öld. Næstu skref eru í höndum stjórnvalda og Ríkiskaupa en við gerum ráð fyrir því að Týr verði auglýstur til sölu snemma á næsta ári.“

Freyja hefur óneitanlega bætt viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar á hafinu en nauðsynlegt er að bæta við þriðju áhöfninni til þess að hægt verði að hámarka nýtingu varðskipanna tveggja, útskýrir Georg. „Með því að hafa á þremur varðskipsáhöfnum að skipa í stað tveggja væri hægt að fjölga úthaldsdögum til muna og um leið auka eftirlit með efnahagslögsögunni.“

Stórir þyrludrónar

Unnið hefur verið að því að styðjast í auknum mæli við tækninýjungar í starfi Landhelgisgæslunnar. Spurður hvort nýjunga sé að vænta í þeim efnum á næstunni kveðst Georg bjartsýnn á að þyrludrónar komi til landsins í vor eða næsta sumar. Þessi loftför verða síðan gerð út frá varðskipunum í tilraunaskyni í fjóra mánuði.

„Við höfum unnið að því hörðum höndum að fá slíkt tæki um borð í tilraunaskyni í samstarfi við EMSA, siglingaöryggisstofnun Evrópu, sem hefur tekið vel í beiðnina. Dróninn sem við gerum ráð fyrir að fá er af gerðinni Schiebel S-100. Hann er 3,2 metrar að lengd og vegur 200 kíló. Tækið getur flogið í um 50 km frá varðskipinu og í um 3.000 feta hæð,“ útskýrir hann.

Drónanum yrði stýrt frá skipinu en myndbandi, staðsetningu og fleiru yrði streymt í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Þetta er afar spennandi verkefni.

„Við fengum mannlaust flygildi í samstarfi við EMSA hingað til lands árið 2019 sem gert var út frá Egilsstaðaflugvelli. Það gekk vel og við bindum miklar vonir við að þyrludróni frá varðskipi gefi sömuleiðis góða raun. Með tæki sem þessu getur eftirlitsgeta Landhelgisgæslunnar verið aukin til muna og leiða má líkum að því að eldsneyti sparist þar sem ekki þarf að sigla milli skipa.“

Schiebel Camcopter S-100 þyrludróni - Landhelgisgæslan
Schiebel Camcopter S-100 þyrludróni - Landhelgisgæslan Ljósmynd/Stahlkocher

Átak gegn brottkasti

Það er hins vegar ekki einungis Landhelgisgæslan sem styðst við dróna við eftirlitsstörf sín og tók Fiskistofa í notkun dróna í janúar. Drónarnir eru notaðir til fiskveiðieftirlits, en geta aðeins verið notaðir úr 15 kílómetra fjarlægð og hefur Fiskistofa því leitað til Landhelgisgæslunnar í þeim tilgangi að eiga samstarf um að stýra drónum sínum frá varðskipunum.

Georg kveðst ánægður með samstarfið. „Í sumar voru eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu um borð í varðskipinu Tý í tveimur eftirlitsferðum. Þar voru gerðar tilraunir með notkun dróna frá varðskipinu og þær gengu vonum framar og reynsla fékkst á samstarfið og útgerð dróna frá skipinu. Landhelgisgæslan og Fiskistofa hafa hafa hug á því í náinni framtíð að ráðast í stórátak og þar horfum við sérstaklega til brottkasts.“

Viðtalið við Georg Lárusson var fyrst birt í blaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu 11. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.1.25 587,63 kr/kg
Þorskur, slægður 22.1.25 698,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.1.25 469,41 kr/kg
Ýsa, slægð 22.1.25 380,87 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.1.25 275,33 kr/kg
Ufsi, slægður 22.1.25 323,86 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 22.1.25 254,99 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.1.25 Straumnes ÍS 240 Handfæri
Þorskur 406 kg
Samtals 406 kg
22.1.25 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Ýsa 3.369 kg
Þorskur 874 kg
Steinbítur 364 kg
Langa 11 kg
Samtals 4.618 kg
22.1.25 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 7.501 kg
Steinbítur 199 kg
Ýsa 121 kg
Samtals 7.821 kg
22.1.25 Vigur SF 80 Lína
Þorskur 992 kg
Ýsa 25 kg
Langa 16 kg
Steinbítur 12 kg
Keila 9 kg
Samtals 1.054 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.1.25 587,63 kr/kg
Þorskur, slægður 22.1.25 698,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.1.25 469,41 kr/kg
Ýsa, slægð 22.1.25 380,87 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.1.25 275,33 kr/kg
Ufsi, slægður 22.1.25 323,86 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 22.1.25 254,99 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.1.25 Straumnes ÍS 240 Handfæri
Þorskur 406 kg
Samtals 406 kg
22.1.25 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Ýsa 3.369 kg
Þorskur 874 kg
Steinbítur 364 kg
Langa 11 kg
Samtals 4.618 kg
22.1.25 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 7.501 kg
Steinbítur 199 kg
Ýsa 121 kg
Samtals 7.821 kg
22.1.25 Vigur SF 80 Lína
Þorskur 992 kg
Ýsa 25 kg
Langa 16 kg
Steinbítur 12 kg
Keila 9 kg
Samtals 1.054 kg

Skoða allar landanir »