Stjórn Herjólfs og framkvæmdastjóri fengu kvartanir eftir áramótin um óeðlileg vinnubrögð eins af þremur skipstjórum ferjunnar um hátíðarnar. „Þær sneru að því að atvinnuréttindi hans hafi runnið út og lögskráningu á skipið verið ábótavant þess vegna,“ segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ofh., sem gerir út Vestmannaeyjaferjuna Herjólf.
Þegar athugasemdirnar bárust höfðu atvinnuréttindi skipstjórans þegar verið endurnýjuð. Hann gekk vaktir allan tímann sem réttindin voru ekki í gildi og eftir það, en er ekki við störf sem stendur, að sögn Harðar.
„Stjórnin hefur komist að niðurstöðu og auk þess er málið komið í farveg hjá lögreglu. Stjórnin lítur þetta mál alvarlegum augum og hefur áminnt þennan starfsmann og lækkað hann í tign. Um leið lítum við til þess að hann hefur unnið á Herjólfi í um 20 ár og sinnt sínum störfum vel hingað til. Menn eru tilbúnir að gefa honum annað tækifæri og vona að hann endurvinni það traust sem hann hefur tapað hjá samstarfsfólki sínu og stjórn félagsins,“ segir Hörður. „Við höfum unnið mikið í málinu. Okkur þykir eðlilegt að tilkynna starfsfólkinu fyrst um næstu skref sem tekin verða áður en við greinum frá þeim opinberlega.“
Hann segir að samkvæmt lögum um lögskráningu sé til skjal hjá útgerðinni um gildistíma atvinnuréttinda starfsmanna. Augljóslega hafi það verklag ekki haldið og því þurfi að lagfæra það. „Við höfum þegar gert ráðstafanir til þess að svona geti ekki komið fyrir aftur,“ segir Hörður. En skipti einhverju máli að þessi staða kom upp í kringum hátíðarnar?
„Það hefur komið fram að hefði skipstjórinn náð sambandi við Samgöngustofu vegna þeirrar stöðu sem hann var kominn í hefðu atvinnuréttindin líklega verið framlengd tímabundið,“ segir Hörður. Hann segir að afla þurfi t.d. heilsufarsskoðunar vegna endurnýjunar réttinda sem geti verið erfitt að komast í.
Það að réttindin runnu út varð til þess að skipstjórinn gat ekki lögskráð sig á skipið og skráði hann þá annan skipstjóra sem var með gild réttindi. Það er hinn þáttur málsins sem verið er að skoða. Hörður taldi þá framgöngu bera vott um mikið dómgreindarleysi og jól og áramót séu engin afsökun í því sambandi.
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hafið rannsókn á máli umrædds skipstjóra á Herjólfi og því að hann sigldi skipinu eftir að skipstjórnarréttindi hans runnu úr gildi. Tryggvi Ólafsson lögreglufulltrúi segir að efnt hafi verið til rannsóknarinnar að frumkvæði lögreglu. Hún býst við að fá tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem hefur eftirlit með þessum málaflokki.
„Ef við verðum vör við lögbrot getum við hafið rannsókn, án þess að það liggi fyrir kæra,“ segir Tryggvi. Hann segir að lögreglunni hafi borist málið til eyrna fyrir síðustu helgi og þá hafi verið farið í að afla gagna og staðfestingar á því sem gerðist.
Hann telur að rannsóknin taki ekki langan tíma. Að henni lokinni fer málið til ákærusviðs sem ákveður hvort lögð verður fram ákæra eða málinu lokið með sekt.