Enn liggur ekkert fyrir hvort eða hvenær komið verður fyrir fallbyssu á varðskipinu Freyju sem kom til Íslands í nóvember, þrátt fyrir að bæði Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið telji varðskip þurfa slíkan búnað án þess þó að gefa það út með beinum hætti.
„Engin stefnubreyting hefur orðið hjá Landhelgisgæslu Íslands varðandi fallbyssur á varðskipum stofnunarinnar,“ segir í svari Landhelgisgæslunnar við spurningu Morgunblaðsins um hvort stofnunin telji þörf á slíkum búnaði.
Varðskipin hafa alla jafna verið búin fallbyssum, þar með talið varðskipið Týr sem Freyja leysti af hólmi. Þá var til umræðu hvort ætti að færa byssuna af Tý yfir á Freyju.
„Ástæða þess að fallbyssu hefur ekki verið komið fyrir á varðskipinu Freyju er sú að slík aðgerð kostar allnokkurt fé auk breytinga á skipinu. Þá þarf mannafla og tæki til að koma því í kring. Uppsetning fallbyssu hefur ekki verið forgangsverkefni frá því að Freyja kom til landsins í nóvember. Varðskipið Freyja er búið vopnum þrátt fyrir að fallbyssu hafi ekki verið komið fyrir. Áhöfn skipsins æfir meðferð skotvopna reglulega,“ segir í svarinu.
Spurningum um fallbyssuleysi Freyju var einnig beint til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið vísaði eingöngu til svara Landhelgisgæslunnar.
Á grundvelli fyrri svara Landhelgisgæslunnar var falist eftir þeim rökstuðningi sem liggur að baki þess að talin sé þörf á að varðskipin séu búin fallbyssu. Þeirri spurningu var svarað með almennu orðalagi um vopnaburð í tengslum við verkefni stofnunarinnar. Landhelgisgæslan bendir á að starfsmenn hennar sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þar með talið siglingavernd og sprengjueyðingu, hafi samkvæmt lögum heimild til að beita skotvopnum við störf sín.
„Um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar hafa frá upphafi verið vopn og á fyrstu áratugum stofnunarinnar kom oft til þess að varðskipsmenn þurftu að vopnast vegna fiskveiðideilna og eftirlits um borð í erlendum fiskiskipum í tengslum við þær. Í seinni heimsstyrjöldinni og í framhaldi af henni voru hundruð ef ekki þúsund tundurdufla á reki á hafinu umhverfis Ísland og var skotvopnum beitt við eyðingu þeirra.“
Þá segir að verkefni stofnunarinnar geti verið af ýsmum toga og er vakin athygli á að Týr og Ægir hafi árunum 2010 til 2015 sinnt verkefnum í Miðjarðarhafinu á vegum Frontex, landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu. „Þar voru áhafnir skipanna á slóðum þar sem nauðsynlegt var að vera við því búnar að bera vopn.“
„Þó svo að Landhelgisgæslan hafi í seinni tíð blessunarlega verið laus við að vopnast vegna aðgerða sinna telur stofnunin nauðsynlegt að viðhalda kunnáttu í vopnaburði,“ segir að lokum.