Fjórar viðurkenningar fyrir framlag til aukins samstarfs og nýsköpunar innan bláa hagkerfisins eða eflingu hringrásarhagkerfisins voru afhentar í gær við hátíðlega athöfn í Húsi Sjávarklasans.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, -orku og loftslagsráðherra veitti viðurkenningarnar og einkennir þau sem hlutu þær að þessu sinni að þau hafa öll stuðlað að eflingu nýsköpunar og samstarfs, opnað fleiri möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki eða styrkt samkeppnisstöðu þeirra á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Ólöf Tryggvadóttir hlaut viðurkenningu fyrir að nýta fjölbreytt íslensk hráefni í vörur sínar hjá frumkvöðlafyrirtækinu Eylíf. Þannig hefur Ólöf búið til tækifæri fyrir ýmsa aðra framleiðendur á einstökum hráefnum úr náttúruauðlindum Íslands. Þá hefur Ólöf verið afar áhugasöm um að deila reynslu sinni og þekkingu til annarra frumkvöðla í klasanum og þannig hefur hún verið góð fyrirmynd um samstarf og samvinnu í Sjávarklasanum.
Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur hefur áratuga reynslu á sviði sjávarútvegs og á alþjóðavettvangi fiskimála. Þegar Kristján flutti skrifstofu sína í Hús sjávarklasans urðu frumkvöðlar í klasanum þess fljótt varir að með honum kom mikið tengslanet og víðtæk þekking. Kristján hlýtur viðurkenningu klasans fyrir að hafa liðsinnt frumkvöðlum í klasanum við að koma hugmyndum í framkvæmd. Tengsl rótgróinna sjávarútvegsfyrirtækja og frumkvöðla hafa eflst enn frekar með tilkomu Kristjáns í Hús sjávarklasans.
Danska markaðs- og almannatengslafyrirtækið Coplus hlýtur viðurkenningu Sjávarklasans fyrir að reynast afar traustur bakhjarl frumkvöðla. Coplus hefur boðið frumkvöðlum í Sjávarklasanum aðstoð án endurgjalds við að koma sér betur á framfæri á innlendum og erlendum mörkuðum. Þetta hefur reynst frumkvöðlum ómetanlegt. Coplus hefur aðstoðað mörg af öflugustu framleiðslufyrirtækjum landsins í markaðssetningu og ímyndarvinnu á alþjóðlegum mörkuðum en hefur um leið sýnt frumkvöðlum einstakan áhuga og liðsinnt þeim við að feta sín fyrstu skref á alþjóðamarkað.
Ólafur Jón Arnbjörnsson skólastjóri Fisktækniskólans hlaut viðurkenningu klasans fyrir ómetanlegt starf í uppbyggingu náms í fiskeldi og eflingu tengsla klasans við Fisktækniskólann. Allt frá því Ólafur Jón hóf starfsemi Fisktækniskólans hefur hann verið ótrauður við að kynna ungu fólki tækifærin í sjávarútvegi og eflt áhuga og þekkingu á því sviði, ekki síst í fiskeldi. Samstarf klasans og Fisktækniskólans hefur verið einstakt og haft mikla þýðingu fyrir uppbyggingarstarf Íslenska sjávarklasans.