Ekkert lát er á veiðum rússneskra togara á úthafskarfa á Reykjaneshrygg sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hafa reynt að friða. Gerist þetta þrátt fyrir að rússneskum togurum hefur verið meinað að sækja þjónustu í íslenskum höfnum. Nýta þeir Færeyjar sem bækistöð og fá óáreitt að sigla með afla sinn um íslenska lögsögu vegna ákvæða alþjóðalaga um siglingafrelsi.
Á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) árið 2020 náðu íslensk stjórnvöld að sannfæra aðildarríkin, nema Rússland, um bann við karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Hefur Rússland einhliða sett sér kvóta vegna veiðanna.
Það var síðan fyrst á ársfundi NEAFC í Lundúnum í nóvember á síðasta ári að aðildarríkin samþykktu bann við löndun, umskipun eða aðra þjónustu við skip sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafði þegar í mars á síðasta ári, í kjölfar ólöglegu innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar, afturkallað undanþágu rússneskra togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum.
Að minnsta kosti sex togarar
Undanfarna daga hafa að minnsta kosti sex rússneskir togarar verið á veiðum á alþjóðlegu hafsvæði á Reykjaneshrygg rétt utan íslenskrar efnahagslögsögu. Um er að ræða rússnesku skipin Vityaz, Nivenskoye, MYS Sheltinga, Rybak, Iosif Shmelkin og Valeriy Dzhaparidze.
Þessi skip hafa fengið fulla þjónustu í færeyskum höfnum þrátt fyrir að Danmörk hafi fyrir hönd Færeyja og Grænlands undirritað bann NEAFC.
Þessi skip sigla á miðin í gegnum íslenska lögsögu og aftur til Færeyja með afla. Slíkar ferðir eru með öllu í samræmi við alþjóðalög enda gerir alþjóðahafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna ráð fyrir að skip hafi heimild til að sigla í gegnum lögsögu erlendra ríkja til að komast leiðar sinnar.
Nálægt fjarskiptstrengjum
Sérstaka athygli vekur að togarinn, Vityaz, var í október síðastliðnum staðinn að því að toga yfir fjarskiptastrengi út af Svalbarða. Annar rússneskur togari sem hefur verið í Færeyjum undanfarið, Melkart 5, hefur togað yfir fjarskiptastrengi við Svalbarða.
Melkart 5 er grunaður um að hafa átt í hlut þegar tveir samskiptastrengir milli Svalbarða og Noregs urðu fyrir skemmdum. Togarinn, sem Murman Seafood gerir út, hefur átt viðkomu hér á landi og sótti meðal annars þjónustu hjá Slippnum Akureyri árið 2020.