„Við höfum ekkert gaman af svartsýni“

Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi hf., kveðst binda vonir …
Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi hf., kveðst binda vonir við ágæta loðnuvertíð í vetur. mbl.is/Gunnlaugur

Það er létt yfir Ásgeiri Gunnarssyni, framkvæmdastjóra veiða hjá Skinney-Þinganesi hf., þegar blaðamður hittir hann í höfuðstöðvum útgerðarinnar á Höfn í Hornafirði. Hann kveðst ánægður með nýafstaðna makrílvertíð og segist bjartsýnn um þokkalega loðnuvertíð í vetur. Það hefur þó gengið á ýmsu í útgerð undanfarin ár sem Skinney-Þinganes hefur ekki farið varhluta af og er útséð að Þórir SF verði áfram hluti af rekstri útgerðarinnar.

„Þetta var bara fínasta vertíð, kom okkur svolítið á óvart. Við vorum búin að búa okkur undir að vertíðin yrði öll norður í Smugu en ég held við höfum veitt um 60% kvótans innan lögsögu sem gerir það að verkum að það er ódýrari að sækja þetta og gæðin betri þar sem styttra er að fara. En svo var fiskurinn í Smugunni óvenju góður líka. Þannig að vertíðin var í heild sinni bara fín,“ segir Ásgeir um nýafstaðna makrílvertíð. Alls lönduðu tvö uppsjávarskip félagsins 10,5 þúsund tonnum á vertíðinni.

Mikil óvissa virðist tengjast makrílvertíðum, ekki síst hvort fiskurinn fáist í þokkalegu magni innan lögsögunnar. „Ég held við getum aldrei gengið að vísri vertíð í makrílnum og ekki búist við að vertíð verði eins milli ára. Ég held að það sé það sem makríllinn hefur kennt okkur síðasta áratuginn. Ég held það hafi verið gott að hafa hann hérna í lögsögunni, stutt að fara og góður makríll í góðum gæðum.“

Ásgeir bendir þó á að það getur verið áhætta sem fylgir því að fá makrílinn á miðin í miklu magni því hann kemur hingað til að borða og fita sig yfir sumartímann. „Hann er að taka úr fæðukeðjunni. Við höfum pínu áhyggjur af því þegar hann kemur hérna upp á grunninn, þetta er óttaleg ryksuga. Við vitum ekki afleiðingarnar heldur. Þetta sýnir líka að við þurfum öflugan flota sem getur elt hann hvert sem er, bæði þegar er langt að fara og vont veður.“

Sjávarútvegur skiptir Hornfiðingum miklu máli. Við bryggju eru Jóhanna ÁR, …
Sjávarútvegur skiptir Hornfiðingum miklu máli. Við bryggju eru Jóhanna ÁR, Steinunn SF, Jóna Eðvalds SF og Þórir SF. mbl.is/Gunnlaugur

Afleiðing veikrar stöðu humarstofnsins

Ekki er útlit fyrir að togarinn Þórir SF sem Skinney-Þinganes hf. hefur gert út frá Höfn verði tekin í rekstur á ný. Skipinu var lagt í kjölfar umfangsmikilla skerðinga í þorskkvótanum undanfarin ár og bann við humarveiðum vegna nýliðunarbrests. Skipið hefur verið til sölu um nokkurt skeið.

„Sérstaklega er það humarbresturinn sem gerir þetta að verkum og eins niðurskurður í þorskinum. Við vorum með tvö skip á humri í sex til átta mánuði á meðan stofninn var sem stærstur. Þetta er búið að vera gífurlegt högg fyrir okkur en við vinnum bara úr því. Við verðum bara að nýta skipakostinn betur sem við höfum,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi.

Spurður hvort skipverjar á Þóri SF hafi misst störf sín þegar togaranum var lagt, svarar Ásgeir: „Við fundum störf fyrir flesta og smám saman hafa menn komist um borð hjá okkur [á öðrum skipum]. Þetta er það leiðinlegasta sem við gerum að draga saman, en kerfið er bara þannig upp byggt að það þarf að hagræða í rekstri. Það er engum greiði gerður að vera með fleiri skip en aflaheimildir gefa tilefni til.“

Þorskkvóti fiskveiðiársins sem hófst 1. september síðastliðinn er aðeins um 1% meiri en árið á undan og er nú tæplega fimmtungi minni en hann var fiskveiðiárið 2019/2020. Samdrátturinn er um 50 þúsund tonn á þessu tímabili, það er um það bil jafn mikið og tíu aflahæstu togararnir lönduðu af þorski allt fiskveiðiárið 2019/2020.

Smábátasjómenn hafa verið einkum háværir í gagnrýni sinni á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og benda á hve mikill þorskur sé á miðunum. Spurður hvort það sé einnig upplifun sjómanna Skinneyjar-Þinganess, svarar hann því játandi og segir samdráttinn í útgefnum heimildum í þorski vonbrigði.

„Við erum að upplifa mikla þorskgengd á miðunum og þetta er vænn þorskur. Við erum nánast að flýja hann allt árið til þess að ná öðrum meðafla með. Ég held það sé mikill samhljómur milli okkar og margra smábátasjómanna með þessa úthlutun. Sérstaklega eru þetta vonbrigði vegna þess að þeir [hjá Hafrannsóknastofnun] gáfu okkur vísbendingar um að næstu ár yrði litlu bætt við. Það er kannski stærstu vonbrigðin að menn hafa gengið eins vel um miðin og við höfum gert og að ekki hafi verið meiri árangur í að byggja stofninn upp.“

Náttúran óútreiknanleg

Í desember 2021 tilkynnti Hafrannsóknastofnun að stofnunin hafi ráðlagt stjórnvöldum að banna humarveiðar árin 2022 og 2023. Samhliða því var ákveðið að loka fyrir botnvörpuveiðar í Breiðarmerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi til að vernda humarstofninn, en viðvarandi nýliðunarbrestur hefur verið í stofninum. Tilkynnti stofnunin síðastliðið sumar að sterkar vísbendingar væru um að humarstofninn væri að taka við sér, en þó er ekki víst að það leiði til þess að veiðar verði gerðar heimilar á ný á næstunni.

„Það mun líklega taka nokkuð mörg ár að sjá viðsnúning og fá hann inn í veiðina. Það er kannski í síðasta leiðangri sem við sjáum smá ljós í myrkrinu, en ég held að næstu áru munu sýna hvort humarinn sé að snúa aftur eða hvort við þurfum að vera þolinmóðari í lengri tíma,“ segir Ásgeir.

Inntur álits á kenningum um að veiðarfærin sem notuð eru við humarveiðar hér á landi séu meðal ástæðna þess að humarstofninn sé nú í erfiðleigum, svarar hann því neitandi.

„Við erum búin að veiða humar síðan á sjöunda áratugnum og alltaf veitt hann í troll. Sama gera þjóðir sem nýta sömu tegund og við, Skotar og Danir. Það er ekkert sem bendir til þess að þær veiðar séu að orsaka þennan nýliðunarbrest sem við erum að kljást við núna. Aðrir eru ekki að lenda í þessu og við ekki fyrr en í kringum 2010 til 2012. Við erum ekki hrædd um að veiðarfærin sé ástæðan heldur er það eitthvað í náttúrunni sem gerir það að verkum að hann nær ekki að vaxa. Breyttir hafstraumar eða eitthvað annað. Mér hefur fundist það sé frekar það sem fiskisfræðingar telja vera ástæðurnar. Miðað við mælingar Hafró er nóg til af [humar]holum og nóg til af humri, en ungi humarinn nær sér ekki á strik. Nýliðunin er engin.“

Fullur bjartsýni

Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður er ekki ástæða til að vera með barlóm segir Ásgeir. Bendir hann á vel heppnaða makrílvertíð sem er að baki og veglega loðnuvertíð. Þá séu nokkrar væntingar til komandi loðnuvertíðar. „Þeir hafa gefið okkur undir fótinn að það gæti kannski orðið meðalvertíð og við bíðum bara og vonum. Síðustu vertíðir hafa verið góðar og fengist hefur gott verð. Við erum bjartsýn á að það verði þokkaleg loðnuvertíð.“

Uppsjávarveiðar eru í eðli sínu sveiflukenndar og hafa verið miklar sveiflur í útgefinni ráðgjöf um hámarksafla í loðnu milli ára. Það er því vert að spyrja en hvort það sé blíðan á Höfn sem gerir Ásgeir svona bjartsýnan? „Já. Það er ekkert gaman að þessu nema maður sé bjartsýnn. Við höfum ekkert gaman af svartsýni hér enda hjálpar hún okkur ekki neitt,“ svarar hann og hlær.

Bundnar eru vonir við veglega loðnuvertíð.
Bundnar eru vonir við veglega loðnuvertíð. Ljósmynd/Skinney-Þinganes

Von á skipi 2025

Í árslok 2021 samdi Skinney-Þinganes um smíði á nýju uppsjávarskipi við skipasmíðafyrirtækið Karstensens Skibsværft A/S í Skagen í Danmörku og er áætluð afhending apríl 2025. Fyrir gerir félagið uppsjávarskipin Ásgrím Halldórsson SF-250 og Jónu Eðvalds SF-200, auk þess eru gerðir út togbátarnir Þinganes SF-25 og Steinunn SF-10, togarinn Skinney SF-20 og línubátinn Vigur SF-80.

Áætluð lengd nýja skipsins er 75,4 metrar og breiddin 16,5 metrar, en lestarrými skipsins verður um 2.400 rúmmetrar. Athygli vekur að hönnun skipsins hafi tekið mið af því að djúpristan verði sem minnst eða um 6,5 metrar, en mikil grynnsli eru í innsiglingunni á Höfn.

„Við heimsóttum Karstensen með þessar forsendur að við værum til í að fara í nýsmíði ef þeir gætu hannað fyrir okkur gott grunnrist uppsjávarskip sem hefur alla eiginleika sem slíkt skip hefur. Þeir sannfærðu okkur um að það væri hægt og hafa hannað skip sem ætti að henta vel fyrir innsiglinguna,“ útskýrir Ásgeir.

Vegagerðin heitir dæluskipi

Viðvarandi áskorun er sem fyrr segir grynnsli í innsiglingunni en er málið leyst? „Við fórum með þetta mál fyrir stjórnmálamenn og Vegagerðina og okkur hefur verið lofað að það verði staðsett dýpkunarskip á Hornafirði næsta vetur sem mun halda innsiglingunni góðri yfir það tímabil sem reynir mest á, sem er vetrartíminn. Í [makríl]vertíðinni í sumar höfum við ekki haft áhyggjur af dýpinu en við þurfum að gæta flóðs og fjöru, við förum bara um á flóðinu.“

Eftir að loforð Vegagerðarinnar fékkst um viðveru dýpkunarskips ákváðu fulltrúar Skinney-Þinganess að halda ótrauðir áfram með uppbyggingu uppsjávarvinnslu og alla innviði því tengdu, að sögn Ásgeirs. „Við treystum því og trúum að þeir standi við sitt, enda má segja að uppsjávarvinnsla á Hornafirði liggi undir. Við erum full bjartsýni.“

Finnst þér skorta áætlun um varanlega lausn á þessum vandamálum með innsiglinguna til lengri tíma?

„Þetta mál hefur ekki komið upp fyrst núna, þetta er búið að vera yfir okkur í áratugi og höfum við átt í samskiptum við stjórnvöld í á þriðja áratug. Þetta hefur gengið afar hægt, en með þessari lausn [sem núna hefur verið boðuð] getum við lifað við þetta en þetta er engin framtíðarlausn. Á áætlun er að teikna hér upp einhverja framtíðarlausn, en þetta hefur gengið allt of hægt.“

„Við erum eins og Eyja“

Lítill vafi er um að Skinney-Þinganes sé stærsti staki atvinnurekandinn á Höfn en hjá fyrirtækinu starfa um 300, þar af um 50 á starfstöðinni á Þorlákshöfn. Um hundrað starfsmanna eru sjómenn og rest eru landverkamenn. Þá rekur félagið eigin iðnaðardeild og netaverkstæði.

Ásgeir segir fyrirtækið verði að hafa þjónustu sem það þarf innan félagsins sem mörg önnur útgerðarfyrirtæki kaupa vegna þess hve langt er til næstu stóru hafna. „Það er ekki það að við viljum endilega gera allt sjálf, heldur er það því það gerir það enginn annar. Við [á Hornafirði] erum eins og eyja. Við getum samnýtt svo fátt með öðrum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,58 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 469,01 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 202,59 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 309,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.1.25 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 3.805 kg
Samtals 3.805 kg
24.1.25 Jóhanna Gísladóttir GK 357 Botnvarpa
Þorskur 24.890 kg
Karfi 15.350 kg
Ýsa 3.583 kg
Ufsi 2.003 kg
Samtals 45.826 kg
24.1.25 Háey I ÞH 295 Lína
Þorskur 695 kg
Steinbítur 158 kg
Keila 110 kg
Ufsi 20 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 14 kg
Samtals 1.015 kg
24.1.25 Cuxhaven NC 100 Botnvarpa
Þorskur 203.725 kg
Karfi 29.765 kg
Ufsi 1.326 kg
Hlýri 854 kg
Steinbítur 94 kg
Grálúða 13 kg
Samtals 235.777 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,58 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 469,01 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 202,59 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 309,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.1.25 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 3.805 kg
Samtals 3.805 kg
24.1.25 Jóhanna Gísladóttir GK 357 Botnvarpa
Þorskur 24.890 kg
Karfi 15.350 kg
Ýsa 3.583 kg
Ufsi 2.003 kg
Samtals 45.826 kg
24.1.25 Háey I ÞH 295 Lína
Þorskur 695 kg
Steinbítur 158 kg
Keila 110 kg
Ufsi 20 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 14 kg
Samtals 1.015 kg
24.1.25 Cuxhaven NC 100 Botnvarpa
Þorskur 203.725 kg
Karfi 29.765 kg
Ufsi 1.326 kg
Hlýri 854 kg
Steinbítur 94 kg
Grálúða 13 kg
Samtals 235.777 kg

Skoða allar landanir »