Útgerðarfélagið Steinunn ehf. hefur fest kaup á fiskveiðiheimildum sem nema rúmlega hundrað þorskígildistonnum af Saltveri ehf. í Reykjanesbæ fyrir um 300 milljónir króna, um 3.000 krónur á kíló. Kvótanum er ætlað að skapa grundvöll fyrir aukin umsvif útgerðarinnar í Ólafsvík, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Steinunni.
Aflaheimildirnar verða bætt við heimildir Steinunnar SH-167 og er talið að aukin umsvif útgerðarinnar muni einnig skila landvinnslu á svæðinu auknum verkefnum. „Kaupin eru gerð í framhaldi af sölu á 60% hlut í Steinunni til FISK Seafood fyrir tveimur árum með það að leiðarljósi að efla enn frekar útgerðina á heimaslóðum,“ segir í tilkynningunni.
Bræðurnir Brynjar og Ægir Kristmundssynir eiga ásamt fjölskyldum sínum hvor sinn 20% hlut í Steinunni hf. og segist Brynjar sannfærður um að þessi viðbót verði farsæl fyrir heimabyggðina. „Tilgangurinn með sölunni og samstarfinu við FISK Seafood var frá upphafi að styrkja og stækka starfsemina hér í Ólafsvík. Nú eru fyrirheitin og markmiðin að raungerast og því ber að fagna. Útgerð Steinunnar hefur verið með ágætum síðustu árin, veiðarnar hafa gengið vel og fiskverð verið gott. Ég er sannfærður um að þessi fjárfesting verði enn frekari lyftistöng á komandi árum.“
„Þetta eru ákaflega ánægjuleg tíðindi,“ er haft eftir Kristni Jónassyni, bæjarstjóra Snæfellsbæjar. „Íbúar í Ólafsvík og nágrenni hafa alla tíð verið stoltir af þessu rótgróna fjölskyldufyrirtæki enda umgjörðin um reksturinn ávallt verið sannkölluð bæjarprýði. Það er greinilegt að með tengslunum við FISK Seafood verður engin breyting þar á og því ber að fagna.“
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar
mbl.is