„Því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að,“ orti Tómas Guðmundsson í sínu frægasta ljóði og mæltist vel. Bílaflotinn á götunum vitnar þar um. Fjölbreytnin mikil en flestir reyna þó bílaframleiðendur að búa flaggskip sín þannig úr garði að þau geti sinnt margþættum verkefnum og uppfyllt ólíkar þarfir eigendanna.
Kia hefur framleitt Sorento-jeppann allt frá árinu 2002 og hefur hann, sem eðlilegt er, tekið miklum breytingum á þeim tíma. Nýjasta viðbótin er tengd rafvæðingu flotans, eins og eðlilegt er. Þar hefur Kia reyndar verið í hópi brautryðjenda, ekki aðeins með hreinum rafbílum, Soul til að byrja með, þá Niro og EV6 á þessu ári, heldur einnig með tengil-tvinnlausnum í tegundum á borð við Ceed, XCeed og Niro.
Og nú stígur fyrirtækið þetta skref með Sorento og gerir það með eftirtektarverðum hætti. En hví ætti ný útfærsla af tengil-tvinnbíl að vekja athygli, nú þegar nær allir framleiðendur sem máli skipta gera einmitt það?
Það tengist þeirri staðreynd að þeir sem kaupa Kia Sorento vilja í mörgum (kannski flestum) tilvikum geta komið fleiri en fimm farþegum um borð þegar mikið liggur við. Og í Sorento hefur það verið hægt með þægilegasta móti. En þegar bílar eru búnir tvenns konar aflrásum reynist oft þrautin þyngri að koma rafhlöðunum fyrir í undirvagninum og sjaldnast er það mögulegt nema með því að fórna plássi, aðallega farangurs- en einnig gjarnan þriðju sætaröðinni. Um það höfum við mörg dæmi, t.d. í hinum eftirsótta og fallega GLE frá Mercedes-Benz.
Í Sorento er rafhlaðan komin í bílinn og þriðja sætaröðin enn til staðar og að því er virðist áreynslulaust.
Það var á grundvelli þessa sem ég nýtti reynsluaksturinn til þess að hóa í gott fólk og tókst bókstaflega að fylla bílinn. Tveir öftustu farþegarnir í bílstólum enda tveggja og fjögurra ára (þeim fannst mikið sport að fá að vera „langaftast“) og svo fjórir fullorðnir einstaklingar auk mín.
Við skunduðum á Þingvöll í lautarferð og auðvelt var að koma öllum haganlega fyrir: stólunum, farþegunum og smurðu brauði ásamt heitu kaffi á brúsa.
Þegar sætaraðirnar eru allar í notkun er sannarlega ekki mikið pláss fyrir farangur sem mikið kveður að. Sé ætlunin að fara með fullfermi fólks er sennilega best að treysta á hin alræmdu tengdamömmubox til þess að vel fari um allt og alla. Áður en haldið var í leiðangurinn hafði ég kynnt mér akstursstillingar bílsins og komu þær ágætlega út – sportstillingin auðvitað best en Eco þokkalega spræk og myndi ekki trufla mann að hafa bílinn í henni alla jafna. Þá er kostur við þennan bíl, umfram t.d. Optima (er á slíkum frá 2018) að maður getur nú haft meira vald á því hvort bíllinn keyri á hreinu rafmagni eða ekki þegar því er til að dreifa.
Á leið til Þingvalla var ég með bílinn í sportstillingu og malaði hann vel og nýtti rafmagn og keyrði inn á rafhlöðuna til skiptist, allt eftir því hvort verið var að tosa upp brekkur eða láta renna niður í góðri salíbunu.
Kom það skemmtilega á óvart þegar við pökkuðum saman til heimferðar að rafhlaðan gaf upp 42 kílómetra drægni. Ákvað ég þá að skipta yfir á rafhlöðuna alfarið og sjá hvert drægið yrði. Vann bíllinn vel en bensínið greip þó inn í þegar tekist var á við svæsnustu brekkurnar upp á Mosfellsheiðina. En þegar komið var í bæinn var enn rafmagn til skiptanna og mælirinn sýndi að eyðslan á leiðinni nam ekki nema 0,5 lítrum! Með sjö manns um borð (og kaffi í maga) hafði bíllinn eytt bensíni fyrir u.þ.b. 120 krónur. Það þótti viðstöddum vel af sér vikið. Hjálpaði hraðastillir bílsins mjög til við að halda eyðslunni í lágmarki og verður að segjast að slíkur búnaður með fjarlægðarstilli á bílinn fyrir framan er einhver besti tæknibúnaður sem hægt er að hugsa sér þegar verið er á langkeyrslu, en í töluverðri umferð.
Nánar er fjallað um nýjan Kia Sorento PHEV í Bílablaði Morgunblaðsins.