Land Rover gegn ólöglegum dýraveiðum í Afríku

Land Rover hefur um margra ára skeið stutt við bakið á dýraverndarsamtökunum Tusk sem leggja megináherslu á baráttu gegn ólöglegum veiðum í Afríku, ekki síst dýrum í
útrýmingarhættu.

Nýjasta verkefnið var fjársöfnunarátakið Tusk Rhino Trail í þágu baráttu til verndar nashyrningum sem veiðiþjófar elta uppi og drepa vegna hornanna sem seljast gegn háu verði á svartamörkuðum, segir í tilkynningu.

Í þágu átaksins hannaði yfirhönnuður Land Rover, Gerry McGovern, sem er margverðlaunaður og virtur alþjóðlegur listamaður, rúmlega eins metra langan krómaðan nashyrning með rauðu horni. Verkið var málað með sömu litatækni og notuð er hjá Jaguar Land Rover sem tryggir einstök gæði, endingu og áferð lakksins á bílum fyrirtækisins.

Nashyrningur McGovern er einn sinnar gerðar, sérstaklega hannaður í þágu átaksins, og aflaði Tusk rúmlega 600 þúsunda sterlingspunda í söfnunarfé á uppboði, eða sem nemur um 94 milljónum króna sem varið verður til baráttunnar gegn veiðiþjófnaðinum.

Alls tók 21 listamaður þátt í söfnunarátaki Tusk sem lauk á alþjóðlegum degi nashyrningsins
22. september. Í kjölfarið var í London haldin fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um ólöglegar veiðar á villtum dýrum í útrýmingarhættu þangað sem fjölmargir alþjóðlegir leiðtogar mættu
til að samræma aðgerðir til verdnar villtu dýralífi í Afríku.

Spurður um hönnun listaverksins, krómið og rauða hornið segir McGovern: „Mig langaði að
fanga glæsileika þessarar einstöku skepnu. Ég ákvað því að nota krómaða liti sem sjást langt
að eins og dýrin á sléttum Afríku og varpa um leið ljósi á alvarleika málsins sem veiðarnar
hafa á stöðu nashyrningsins þar. Rautt nashyrningshornið endurspeglar síðan fáránleika þess
að þetta fallega dýr skuli vera hundelt og drepið fyrir jafn lítinn hluta af heildarstærð þess.“

mbl.is