Saksóknarar í Þýskalandi gerðu húsleit á tíu stöðum í gær í tengslum við rannsókn á því hvort svindlað hafi verið á útblástursprófunum Mitsubishi-bifreiða í landinu.
Saksóknari í Frankfurt greindi frá því að rannsókn sé hafin á því hvort háttsettir starfsmenn alþjóðlegs fyrirtækis hafi gerst sekir um svik í starfi. Rannsóknin beinist einnig að tveimur bílainnflytjendum og einni bílasölu. Rannsóknin beinist að Mitsubishi dísilökutækjum með 1,6 og 2,2-lítra vélar en þær fengu hæstu einkunn hjá þýskum eftirlitsaðilum þegar kom mengunarvörnum.
Forsvarsmenn Mitsubishi í Japan hafa staðfest að húsleit hafi verið gerð á starfsstöðvum fyrirtækisins í Þýskalandi.
Þegar ríki heims byrjuðu að grípa til aðgerða í loftslagsmálum á 10. áratug síðustu aldar veðjuðu evrópsk stjórnvöld á dísilbíla til þessa að freista þess að draga úr losun álfunnar á gróðurhúsalofttegundum, meðal annars vegna þrýstings frá stóru þýsku bílaframleiðendunum sem sögðu dísil ódýra og hraðvirka leið til að draga úr losun. Þetta kemur fram í grein sem birt var á mbl.is fyrir fimm árum um svonefnt „dieselgate“ sem hófst með rannsókn á Volkswagen.
Um 15% minna af koltvísýringi losnar við bruna dísilolíu en hefðbundins bensíns. Ókosturinn er hins vegar að útblástur dísilbíla inniheldur fjórum sinnum meira niturdíoxíð sem tengist loftmengun og ýmsum heilsufarsvandamálum. Það var losun á þeirri lofttegund sem Volkswagen faldi með sérstökum hugbúnaði í bílum sínum. Í prófunum í Bandaríkjunum var losun niturdíoxíðs um 40 sinnum minni en þegar bílarnir voru komnir út á götuna.
Á meðan stjórnvöld í ýmsum Evrópulöndum greiddu götu dísilbíla með ýmsum hvötum héldu Bandaríkjamenn, þar sem bensín var hræódýrt og bílaframleiðendur þróuðu frekar rafmagns- og blendingsbíla sem umhverfisvænni kosti, sig að mestu leyti við bensínbíla. Í sumum Evrópulöndum eins og Bretlandi náðu dísilbílar um helmingsmarkaðshlutdeild árið 2012.
Afleiðingin hefur verið verri loftmengun og hafa margir stjórnmálamenn síðan lýst því yfir að það hafi verið mistök að stuðla að útbreiðslu dísilbíla. Nýlegar rannsóknir hafa meðal annars sýnt að dísilgufa sé enn verri fyrir heilsu fólks en áður hafði verið talið. Hún geti valdið krabbameinum, hjartaáföllum og hægt á vexti barna.