VW hætta framleiðslu beinskiptra bíla árið 2023

Höfuðstöðvar Volkswagen (VW) í Wolfsburg.
Höfuðstöðvar Volkswagen (VW) í Wolfsburg. AFP

Með stöðugum orkuskiptum í bílaframleiðslu, frá bílum sem ganga fyrir bensín og dísel yfir í rafbíl, er óhjákvæmilegt að margt annað breytist líka. Það sem bílaunnendur kvíða einna mest er brotthvarf beinskiptra bíla af markaðnum. 

Í tímaritinu Motortrend segir að á næstu árum verði það æ sjaldgæfara að nýir beinskiptir bílar séu gefnir út, flestir verði þeir með öllu sjálfskiptir eða þá með einskonar blöndu beggja. Í slíkum bílum gæfist ökumönnum kostur á því að skipta sjálfir upp og niður um gír, án þess þó að bílarnir séu beinskiptir í eiginlegum skilningi.

Í umfjöllum Motortrend um hnignun beinskiptingarinnar er vísað í frétt þýska blaðsins Auto Motor und Sport, þar sem greint er frá því að Volkswagen hyggist hætta framleiðslu allra beinskiptra bíla í Evrópu árið 2023. Hið sama mun svo gilda um bíla sem seldir eru í Asíu og Bandaríkjunum árið 2030. 

Salan meiri Vestanhafs

Í Motortrend segir enda að sala beinskiptra bíla, sérstaklega hjá Volkswagen, sé mun meiri Vestanhafs heldur en t.a.m. í Evrópu. Þess vegna verður dómsdagur beinskiptra bíla á markaðnum kveðinn þar upp öllu seinna en í Evrópu.

Þó verður ansi langt þangað til engir beinskiptir bílar verða á götunum, þar sem þessi umfjöllun tekur aðeins til til breytinga hjá Volkswagen og ekki öllum þeim tugum framleiðenda hvers bílum er ekið um götur Evrópu og Bandaríkjanna. Svo er óvíst hvað glænýir bílar dagsins í dag endast lengi og má því búast við því að beinskiptir bílar, sem enn eru framleiddir í dag, sjáist á götunum í allmörg ár enn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina