Volkswagen gefur í við framleiðslu rafbíla

Herbert Diess, forstjóri Volkswagen, segir að fyrirtækið muni gefa í …
Herbert Diess, forstjóri Volkswagen, segir að fyrirtækið muni gefa í hvað varðar framleiðslu á rafbílum. AFP

Þýski bifreiðaframleiðandinn Volkswagen gaf út í vikunni að samsteypa fyrirtækisins, sem telur til tólf mismunandi bílategunda, kæmi til með að gefa rækilega í hvað varðar framleiðslu rafmagnsbíla.

Tilkynnt var að fjárfest yrði fyrir 89 milljarða evra í rafbílatengd verkefni næstu fimm árin. Upphæðin nemur rúmlega þrettán þúsund milljörðum króna.

Volkswagen mun verja 56% af því fjármagni sem stendur til að fjárfesta fyrir, í að þróa „bíla framtíðarinnar“. Gerir fyrirtækið ráð fyrir því að fjórði hver bíll sem seldur verði árið 2026 verði knúinn af rafmagni.

Stærstu umbreytingar í sögu fyrirtækisins.

Herbert Diess, forstjóri fyrirtækisins, sagði á blaðamannafundi sem haldin var í kjölfar þess að stjórn fyrirtækisins samþykkti fjárfestingaráætlunina, að fyrirtækið væri statt í mestu umbreytingatímum í sögu Volkswagen.

Volkswagen gaf út fyrir helgi að stærsta verksmiðja fyrirtækisins, sem staðsett er í Wolfsburg í Þýskalandi, komi til með að hefja framleiðslu á rafbílum fyrr en til stóð. En áætlað var af fyrirtækinu að framleiðsla rafbíla í verksmiðjunni myndi hefjast árið 2024.

mbl.is