Stytting leikskólans ýtir undir kynbundinn launamun

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er þriggja barna móðir. Hún segir að stytting leikskólans auki flækjustig fjölskyldufólks og komi niður á konum. 

„Styttri leikskóladagur eykur auðvitað flækjustig og skapar erfiðleika í hversdeginum fyrir fjölskyldufólk. Ég óttast að breytingin muni koma verst niður á viðkvæmum hópum á vinnumarkaði, t.d. einstæðum foreldrum og lágtekjufólki. Þessir hópar hafa gjarnan minna svigrúm í sínu starfsumhverfi. Ég þekki dæmi þess að fólk hafi þurft að minnka við sig vinnu vegna skertrar leikskólaþjónustu, sem hefur auðvitað neikvæð áhrif á launatekjur. Í þessum tilfellum er það alltaf móðir sem minnkar við sig vinnu og því augljóst hvaða áhrif þessi aðgerð getur haft á framgang kvenna á vinnumarkaði,“ segir Hildur. 

Þegar Hildur er spurð að því hvaða áhrif þetta muni hafa fyrir hana sjálfa segist hún vera heppin að búa nálægt leikskólanum. 

„Sjálf á ég tvær dætur á leikskólaaldri. Ég starfa nokkuð nærri leikskólanum en þarf samt sem áður að hverfa frá vinnu um kl. 16.10 svo ég geti sótt þær í tæka tíð. Ég get rétt ímyndað mér flækjustigið fyrir fólk sem starfar ekki svo nærri leikskólanum, til dæmis þá sem starfa miðsvæðis en búa í efri byggðum. Þar hjálpar samgönguvandinn sannarlega ekki til,“ segir hún. 

Þegar hún er spurð út í styttingu leikskólans segist hún ekki skilja neitt í þessum aðgerðum.  

„Mér þykir aðgerðin óskiljanleg og skýringarnar ósannfærandi. Talað er um að skert leikskólaþjónusta sé börnunum fyrir bestu enda þurfi að draga úr álagi á börn. Það er auðvitað fyrirsláttur. Auðvitað þurfum við alltaf að gæta að bestu hagsmunum barna, en það eru hins vegar sárafáir sem fullnýta allan opnunartíma leikskólanna. Fólk hefur hins vegar mikið gagn af sveigjanleikanum enda vinnudagar fólks margvíslegir og starfsumhverfið ólíkt. Raunveruleg ástæða skerðingarinnar er auðvitað sparnaður. Það er óþolandi þegar skorið er niður í skólakerfinu á sama tíma og vannýtt tækifæri til hagræðingar eru alltumlykjandi í stjórnkerfinu sjálfu.“

Er þetta liður í styttingu vinnuvikunnar?

„Leikskólakennarar hafa barist fyrir styttri vinnuviku. Það má vel mæta þeim þörfum án þess að skerða leikskólaþjónustu. Með góðu skipulagi leikskóladagsins má tryggja að vinnudegi leikskólakennara ljúki fyrr, en aðrir starfsmenn taki að sér lokun leikskólans,“ segir hún. 

Telur þú að þessi aðgerð muni hafa áhrif á frama kvenna í atvinnulífinu?

„Auðvitað mun breytingin koma hvað verst niður á útivinnandi konum og draga úr framgangi þeirra á vinnumarkaði. Það er óskiljanlegt að einmitt þegar ríkisstjórnin vinnur að lengingu fæðingarorlofs ákveði höfuðborgin að skerða leikskólaþjónustu. Þrátt fyrir mikinn árangur í jafnréttisbaráttunni taka konur enn meiri ábyrgð á umönnun barna. Dagvistunarvandi lendir því oftar á konum og dregur úr framgangi þeirra á vinnumarkaði. Það hefur aftur áhrif á launaþróun og ýtir undir kynbundinn launamun. Góð þjónusta sveitarfélaga er jafnréttismál og þar gegna leikskólarnir einna mikilvægasta hlutverkinu.“

Hildur lagðist alfarið gegn breytingunni og vildi halda leikskólaþjónustunni óskertri. 

„Við þurfum auðvitað að huga að bestu hagsmunum barna og draga úr álagi á þau, en það gerum við ekki með því að draga úr sveigjanleika fyrir foreldra og auka á streitu fjölskyldufólks. Við verðum að tryggja öfluga þjónustu, meiri sveigjanleika og aukið tillit til þeirra sem hafa takmarkað svigrúm í sínu starfsumhverfi. Íbúar borgarinnar eru alls konar og þeir gegna alls kyns störfum. Við verðum að tryggja sveigjanleika til að mæta ólíkum þörfum. Ég óttast að skert leikskólaþjónusta muni leiða til þess að fjölskyldufólk flytjist enn frekar til annarra sveitarfélaga, sem bjóða betri þjónustu og innheimta lægri skatta. Eins muni hún fela í sér mikla afturför í jafnréttisbaráttunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda