Lét gamlan draum rætast á fjórðu meðgöngunni

Helga Hilmarsdóttir sýnir list sína í Litla Gallerý við Strandgötu …
Helga Hilmarsdóttir sýnir list sína í Litla Gallerý við Strandgötu 19 í Hafnarfirði um helgina.

Listakonan Helga Hilmarsdóttir opnaði sína fyrstu listasýningu í Litla Gallerý við Strandgötu í Hafnarfirði í gær. Þetta er fyrsta einkasýning Helgu sem ákvað að láta gamlan draum sinn um að sýna list sína þegar hún komst að því að hún gengi með sitt fjórða barn. 

„Stuttu eftir að ég komst að því að ég væri ólétt að mínu fjórða barni tók ég ákvörðun um að nú væri rétti tíminn til að láta gamlan draum rætast, einbeita mér að listinni og halda sýningu í desember rétt fyrir fæðingu,“ segir Helga í viðtali við mbl.is. 

Helga lagði stund á listnám við Fjölbraut í Garðabæ og í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hún er einnig útskrifuð úr grunnnámi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Helga og eiginmaður hennar, Gunnlaugur Snædal, eiga þrjá drengi saman og er von á lítilli stúlku nú á milli jóla og áramóta.

Helga lauk tölvunarfræðinni fyrir tveimur árum síðan, stuttu eftir fæðingu þriðja sonar síns. Eftir fæðingarorlofið ætlaði hún að hefja leit að starfi sem nýútskrifaður tölvunarfræðingur. Þá komst hún að því að hún væri ólétt og sá fyrir að það myndi flækja atvinnuleitina. Því ákvað hún að láta drauminn rætast. 

„Listin gefur mér svo mikið og hef ég leitað í hana frá barnsaldri þegar kvíði og áhyggjur hafa gert vart við sig til að gleyma stað og stund og öðlast hugarró,“ segir Helga 

Gunnlaugur og Helga eiga þrjá drengi en von er á …
Gunnlaugur og Helga eiga þrjá drengi en von er á lítilli stúlku milli jóla og nýárs.

Helga hafði lagt listina aðeins til hliðar en hún fæddi sinn fyrsta son fyrir þrettán árum þegar hún var ný orðin tvítug. „Ég tók nokkur ár þar sem það var nóg að gera hjá mér. Ég vann sem flugfreyja hjá WOW Air og var í fullu námi, ásamt því að sinna heimili og börnum. Ég hafði því ekki eins mikinn tíma til að sinna listinni og var hún í smá dvöl en þó var hún alltaf bakvið eyrað.“

Undanfarnar vikur hefur hún haft meira en nóg að gera. Undirbúa sýninguna, halda heimili, ala upp þrjú börn og ganga með það fjórða. Spurð hvort það sé ekki erfitt að halda öllum þessum boltum á lofti segir Helga að það krefjist vissulega skipulagningar og samvinnu hjá þeim hjónunum. 

„Tveir eldri synir okkar eru 13 ára og 9 ára og þeir eru duglegir að hjálpa til með þann yngsta. Það er ekki oft dauður tími og mikið líf og fjör á heimilinu, en þannig vil ég hafa það.“

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vona að börnin finni fyrir því að þau geti verið þau sjálf og hafi rými til að sýna allar sínar hliðar, góðar og slæmar án þess að finna fyrir skömm. Ég vil að þau sjái sína styrkleika og hafi trú á sjálfum sér. Ég reyni að halda stjórn á aðstæðum þó það geti verið erfitt stundum með þrjá fjöruga drengi. Það gengur alls ekki alltaf og gerir maður oft mistök en þá er líka mikilvægt að kunna sjálfur að viðurkenna mistökin og biðjast afsökunar.“

Helga hefur gaman af því að kynna börnin sín fyrir listinni og að leyfa þeim að skapa sjálf án þess að stýra þeim mikið. Hún telur það vera mikilvægan hluta af grunnþroska barna að fá tilfinningu fyrir litum, mismunandi áferðum og formum.. 

„Ég tel þó mikilvægast að börnin mín hafi ástríðu fyrir einhverju og þau fái skilning og hvatningu frá okkur foreldrunum til að rækta það, hvort sem það eru íþróttir, tónlist, list eða tölvur. Miðju strákurinn okkar er ótrúlega listrænn og hugmyndaríkur. Hann á það til að tína til allskyns hluti af heimilinu og föndra eitthvað úr því. Við eigum oft okkar gæða stundir saman að mála. Hann ætlar svo að byrja í myndlistarskóla Kópavogs eftir áramót og er ótrúlega spenntur fyrir því,“ segir Helga. 

Sýning Helgu ber heiti Milli himins og jarðar. Í verkum sínum sækir hún innblástur í liti, speglun, lögun og ólíkar áferðir náttúrunnar. Einnig sækir hún innblástur í hvernig veðurfar hefur áhrif á útlit náttúrunnar. „Fegurð náttúrunnar endurspeglast víðsvegar og því getur fólk tengt mismunandi við verkin og séð út úr þeim allt milli himins og jarðar.“

Milli himins og jarðar er opin í dag, föstudag, frá 12 til 20 í Litla Gallerý við Strandgötu 19 í Hafnarfirði. Á laugardag er hún opin frá 12 til 17 og á sunnudag frá 13 til 17. Hún er staðsett beint á móti jólaþorpinu og því tilvalið að anda að sér jólunum og upplifa list Helgu í sömu ferðinni. Viðburð á Facebook má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert